Umferðaröryggi, svifryk og einkabílahatur

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi:

Miðviku­dag­inn 14. apríl sl. samþykktu borg­ar­yf­ir­völd svo­kallaða há­marks­hraðaáætl­un Reykja­vík­ur­borg­ar. Hún ger­ir ráð fyr­ir að há­marks­hraði öku­tækja í Reykja­vík lækki um­tals­vert og verði nán­ast hvergi meiri en 40 km á klst. á göt­um borg­ar­inn­ar og að sú verði t.d. al­farið raun­in vest­an Elliðaáa. Þessu mark­miði á að ná með lækk­un á leyfi­leg­um há­marks­hraða, og þreng­ing­um, fækk­un ak­reina og öðrum til­fær­ing­um á tengi­braut­um. Gert er ráð fyr­ir að það kosti um einn og hálf­an millj­arð. Þessi ráðagerð var send viðeig­andi full­trú­um rík­is­ins sem á stofn­braut­ir inn­an borg­ar­inn­ar, en þeir aðilar slást ekki í þessa frægðarför.

Áhyggj­ur af um­ferðarslys­um?

Áætl­un­in sjálf seg­ist stuðla að um­ferðarör­yggi og draga úr svifryks­meng­un. En ef það eru mark­miðin, hvers vegna hafa borg­ar­yf­ir­völd ekki sýnt lág­marks­viðleitni í því að greina vand­ann og taka á hon­um með sér­tæk­um ráðstöf­un­um þar sem hann er al­var­leg­ast­ur? Þeir 20 staðir þar sem um­ferðarslys eru tíðust hér á landi eru á höfuðborg­ar­svæðinu og lang­flest­ir í Reykja­vík. Sá staður á land­inu þar sem tíðni um­ferðarslysa er næst­mest eru gatna­mót Bú­staðaveg­ar og Reykja­nes­braut­ar. Þetta veit Vega­gerðin og setti því það skil­yrði gagn­vart borg­inni í síðasta Sam­göngusátt­mála að borg­in fækkaði slys­um þar með mis­læg­um gatna­mót­um sem átti að taka í notk­un á þessu ári. En borg­ar­yf­ir­völd hafa ekk­ert aðhafst í þeim efn­um annað en að fá þeim fram­kvæmd­um frestað um fjög­ur ár. Þetta er nú áhug­inn á því að fækka um­ferðarslys­um.

Víðtækt vald­boð en eng­in heild­stæð hugs­un

Það er gott að stuðla að um­ferðarör­yggi. En hvaða viðleitni er þar í boði og hvað kost­ar hún í hverju til­viki? Er virki­lega sjálf­gefið að far­sæl­asta lausn­in sé fólg­in í því að ráðast á skil­virkni sam­fé­lags­ins með því að hægja á allri um­ferð öku­tækja og lengja þar með um­ferðar­tíma milli áfangastaða í borg­inni, jafnt hjá öku­tækj­um í neyðarút­köll­um, al­menn­ings­vögn­um, far­ar­tækj­um fyr­ir­tækja og fjöl­skyldu­bíl­um? Hvað kost­ar það stofn­an­ir og fyr­ir­tæki og að hve miklu leyti hækk­ar sá kostnaður verð á vöru og þjón­ustu? Hvað kost­ar það al­menna launþega í lengri ferðatíma til og frá vinnu, skól­um, tón­list­ar­skól­um, íþrótta­fé­lög­um og þjón­ustu­kjörn­um með hliðsjón af 40 stunda vinnu­viku og hver á að bera þann kostnað?

Er lækk­un leyfi­legs há­marks­hraða í sam­ræmi við meðal­hóf og al­menna af­stöðu sam­fé­lags­ins og ef ekki, hvaða áhrif hef­ur það þá á vænt­an­lega lög­hlýðni í þess­um efn­um og hef­ur þá lög­gjaf­inn mannafla til eft­ir­lits á því að breyt­ing­un­um sé fram­fylgt? Hvaða áhrif mun lækk­un á leyfi­leg­um öku­hraða á tengi­braut­um hafa á um­ferðarflæði og að hve miklu leyti mun sú breyt­ing færa al­menna um­ferð inn í íbúðahverfi í sí­vax­andi mæli eins og raun­in varð aug­ljós­lega þegar Hofs­valla­gat­an var þrengd á þenn­an hátt?

Um­ferðartaln­ing leiddi þá í ljós að gegnum­um­ferð um nær­liggj­andi íbúðagöt­ur jókst um allt að 1.000 bíla á sól­ar­hring og þar með fram­hjá tveim­ur grunn­skól­um.

Allt eru þetta spurn­ing­ar sem vit­ræn­ir vald­haf­ar myndu spyrja sig og reyna að fá skyn­sam­leg svör við, áður en þeir gripu til svo víðtækra vald­boða sem hér um ræðir, án þess að sjá fyr­ir af­drifa­rík­ar af­leiðing­ar þeirra.

Svifryk í boði borg­ar­stjórn­ar

Það er gott að draga úr svifryks­meng­un. En hraði öku­tækja er ekki eina ástæða svifryks og sjaldn­ast sú nær­tæk­asta eða mik­il­væg­asta. Svifryks­meng­un í Reykja­vík hef­ur auk­ist mjög í tíð nú­ver­andi meiri­hluta. Svifryk og aðra um­ferðarmeng­un ber m.a. að rekja til gerðar á yf­ir­borðss­lit­lagi vega, um­hirðu gatna, nagla­dekkja, um­ferðarþunga, öxulþunga öku­tækja, hraða þeirra og ekki síður hröðunar.

Á öll­um þess­um sviðum hafa borg­ar­yf­ir­völd sjálf aukið svifryks­meng­un án þess að líta í eig­in barm. Reykja­vík­ur­borg á og rek­ur mal­bik­un­ar­stöð sem fram­leiðir end­ing­ar­lítið mal­bik sem stöðugt þarf að end­ur­nýja. Borg­ar­yf­ir­völd hafa dregið mjög úr hreins­un gatna á síðustu árum en slík­ur óþrifnaður eyk­ur mjög um­ferðarmeng­un. Borg­ar­yf­ir­völd hafa dregið úr snjómokstri yfir snjóþyngstu daga árs­ins og þó þeir dag­ar séu ekki alltaf marg­ir dug­ar það til þess að nagla­dekkj­um hef­ur fjölgað aft­ur á síðustu árum. Sam­göngu­stefna borg­ar­yf­ir­valda hef­ur aukið um­ferðarþunga í borg­inni með um­tals­verðri leng­ingu ferðatíma og haft veiga­mik­il áhrif á akst­urslag (sí­felld­ar hraðabreyt­ing­ar) með sí­fellt fleiri og sí­fellt ósam­stillt­ari um­ferðarljós­um og með því að úti­loka að um­ferðarþyngstu gatna­mót séu gerð mis­læg. Loks ber að geta þess að öxulþungi hef­ur feiki­lega mik­il áhrif á mynd­un svifryks. Strætó held­ur úti sí­fellt fleiri og sí­fellt þyngri vögn­um sem oft aka um göt­ur borg­ar­inn­ar, nán­ast tóm­ir, utan álags­tíma, þegar skyn­sam­legra væri að vera með mun minni og létt­ari vagna í um­ferð.

Af of­an­sögðu ætti að vera nokkuð ljóst að há­marks­hraðaáætl­un borg­ar­yf­ir­valda er ekki ætlað að stuðla að um­ferðarör­yggi og minna svifryki. Henni er ein­fald­lega ætlað að koma sem flest­um Reyk­vík­ing­um úr sín­um fjöl­skyldu­bif­reiðum með góðu eða illu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. apríl 2021.