Nauðsyn uppbyggingar Egilsstaðaflugvallar

Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður:

Flestum er ljóst að undirritaður þingmaður er eindreginn talsmaður samgöngubóta, ekki síst í innanlandsflugi. Uppbyggingu til almenningssamgangna og heilbrigðiskerfis sem og atvinnuuppbyggingu. Í því felst byggðafesta, ekki síst Austanlands.

Í áraraðir hef ég ítrekað og lagt áherslu á að alþjóðaflugvallakerfi sé byggt upp markvissar vegna öryggissjónarmiða í flugi, byggðastefnu og atvinnuuppbyggingar. Kerfið er byggt upp á fjórum alþjóðaflugvöllum landsins, Keflavíkur, Reykjavíkur, Egilsstaða og Akureyrarvelli.

Millilandaflug hefur aukist gríðarlega undanfarin ár en innviðirnir ekki byggst upp í samhengi við það. Forysta atvinnuflugmanna hefur ítrekað varað við háskalegu ástandi öryggismála vegna lokunar Keflavíkur sakir óblíðra náttúruafla. Því skyldi hraða uppbyggingu varaflugvalla alþjóðaflugs. — Eldhræringar á Reykjanesi eru ákall um örugga varaflugvelli í fleiri en einum landshluta. Fjármunir 46-54 sinnum meiri í Keflavík

Samgönguáætlun Alþingis til ársins 2033, gerir ráð fyrir stofnkostnaði, viðhaldi og reglubundinni endurnýjun á flugvallarkerfinu nemi um 2.8 milljarða næstu fimm ár. Þrátt fyrir aukið fé hef ég innan þings marg ítrekað að skammt dugi vegna nauðsynlegra framkvæmda víðs og vegar um landið. Ekki síst varðandi alþjóðaflugvellina á Akureyri og Egilsstöðum þar sem bíða miklar framkvæmdir.

Í þessu samhengi fyrirhugar ríkisstofnunin ISAVIA sem sér um rekstur flugvallanna og á forgangsröðun fjármuna, framkvæmdir í Keflavík upp á 130–150 milljarða á næstu árum. Það er 46–54 sinnum hærri upphæð en til uppbyggingar innviða innanlandsflugs.

Allar framkvæmdir innanlands á vegum ISAVIA eru fjármagnaðar úr ríkissjóði. Sama gildir um fjármögnun varaflugvallakerfisins fyrir alþjóðaflug líkt og kveðið er á um í flugstefnu sem Alþingi samþykkti nýverið. Til stóð að ISAVIA tæki við rekstri og fjármögnun hluta viðhalds á Egilsstaðaflugvelli í byrjun síðasta árs en það hefur enn ekki gengið eftir.

Á Egilsstöðum er einn af fjórum millilandaflugvöllum landsins, opinn allan sólarhringinn, allt árið. Flugstöðin var upphaflega byggð á árunum 1958 —1968 en endurbyggð á árunum 1987 til 1999. Veðurfar fyrir flug þykir hagstætt og áreiðanleiki er nær 99%. En til að flugvöllurinn nýtist sem skyldi þarf að ráðast í uppbyggingu. Þannig myndi flugvöllurinn þjóna betur hlutverki sínu í samgöngum og heilbrigðiskerfi landsins, og mæta öryggiskröfum. Einungis þannig rækir hann hlutverk sitt sem einn af varaflugvöllum landsins, verður að alþjóðlegri fluggátt og skapar ótal tækifæri fyrir íbúa og atvinnuuppbyggingu framtíðarinnar.

Sjö atriði til uppbyggingar Egilsstaðaflugvallar

Austfirðingar skyldu gera kröfur í komandi kosningum um eftirfarandi framkvæmdir á Egilsstaðaflugvelli á næsta kjörtímabili

  1. Stækka flughlaðið um 20.000 fermetra norðan við núverandi flugstöð, sem gæti tekið við 6-7 vélum til viðbótar. Þá gæti flugvöllurinn tekið við 10-12 vélum á sama tíma í stæði. Það er mikið öryggismál sakir vaxandi flugumferðar til og frá Íslandi og grundvöllur vaxandi flugstarfsemi á Egilsstöðum.
  2. Ljúka þarf nauðsynlegu viðhaldi með malbikun flugbrautarinnar sem tekin var í notkun árið 1993 og hefur ekki verið malbikuð í 28 ár. Atvinnuflugmenn hafa gert alvarlegar athugasemdir við ástand flugbrautarinnar.
  3. Koma akbraut flugvéla upp við hlið flugbrautarinnar. Það væri nauðsynlegt þegar margar flugvélar þurfa að snúa til varaflugvallar á samtímis þegar aðrir flugvellir lokast.
  4. Uppbygging fiskeldis á Austfjörðum kallar á ferskvöruflutninga. Nauðsynlegt er að byggja aðstöðu til að þjónusta fraktflutninga einkum á ferskum laxi.
  5. Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir lengingu flugbrautar um 400 metra, þannig að hún yrði 2.400 metrar. Það styrkir flug stærri flugvéla um völlinn sérstaklega fraktflugvéla og einnig þeirra er fljúga langar flugleiðir og fara í loftið með fulla tanka af eldsneyti.
  6. Aukin umferð og öryggiskröfur kalla á styrkingu aðflugs og aðflugsferla flugvallarins sem alþjóðlegs varaflugvallar. Huga þarf að gervihnattaleiðsögu og hefðbundnum aðflugskerfum.
  7. Flugmálayfirvöld ásamt Múlaþingi þurfa að hefja vinnu við skipulagsbreytingar, svo starfsemi flugvallarins nái að dafna og vaxa og tryggja honum það landsvæði sem nauðsynlegt er.

Greinin birtist á austurfrett.is 16. apríl 2021.