Kristján Þór

Heildstæð yfirsýn yfir íslenskan landbúnað og fiskeldi

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

Á síðustu dög­um hef­ur ráðuneyti mitt opnað tvo ra­f­ræna gagna­grunna, ann­ars veg­ar Mæla­borð fisk­eld­is og hins veg­ar Mæla­borð land­búnaðar­ins. Meg­in­til­gang­ur­inn að baki báðum þess­um verk­fær­um er hinn sami; að tryggja yf­ir­sýn yfir þess­ar at­vinnu­grein­ar og auka gagn­sæi um starf­semi þeirra.

Mæla­borð land­búnaðar­ins

Stofn­un Mæla­borðs land­búnaðar­ins er hluti af sam­komu­lagi rík­is og bænda við end­ur­skoðun ramma­samn­ings bú­vöru­samn­inga en þar kem­ur fram að nauðsyn­legt þyki að hafa yf­ir­sýn yfir fram­leiðslu, sölu og birgðir í land­inu m.a. vegna fæðuör­ygg­is og að slík­ur gagna­grunn­ur auki gagn­sæi.

Í mæla­borðinu er að finna marg­vís­leg­ar upp­lýs­ing­ar um ís­lensk­an land­búnað. Meðal ann­ars um fram­leiðslu og inn­flutn­ing búvara, töl­fræðileg­ar upp­lýs­ing­ar um fjölda bænda og bú­fénaðar og stuðnings­greiðslur til bænda. Mæla­borðið hef­ur þannig mikið upp­lýs­inga­gildi fyr­ir neyt­end­ur, bænd­ur, stjórn­völd og aðra sem vilja nálg­ast upp­lýs­ing­ar um stöðu og þróun helstu upp­lýs­inga og hagtalna í ís­lensk­um land­búnaði.

Í mín­um huga er mæla­borðið nauðsyn­legt verk­færi til að tryggja yf­ir­sýn við fram­kvæmd land­búnaðar­stefn­unn­ar á hverj­um tíma. Opn­un mæla­borðsins mark­ar tíma­mót því með því eiga stjórn­völd frum­kvæði að op­in­berri birt­ingu þess­ara mik­il­vægu upp­lýs­inga og gera þær aðgengi­leg­ar öll­um. Gagn­sæi er þannig aukið og um leið stuðlað að því að umræða um land­búnað bygg­ist á raun­töl­um. Næsta skref verður að þróa og styrkja mæla­borðið enn frek­ar.

Mæla­borð fisk­eld­is

Kveikj­an að Mæla­borði fisk­eld­is var ráðherra­fund­ur sem ég sótti í Fær­eyj­um sum­arið 2018. Þar fékk ég tæki­færi til að kynn­ast stöðunni á fisk­eldi í Fær­eyj­um, meðal ann­ars ra­f­rænni upp­lýs­inga­veitu sem birti all­ar helstu upp­lýs­ing­ar um stöðu og þróun grein­ar­inn­ar. Í kjöl­farið setti ég af stað vinnu við að búa til slíkt mæla­borð hér á landi.

Árið 2019 voru gerðar breyt­ing­ar á lög­um um fisk­eldi. Meðal breyt­inga var að fisk­eld­is­fyr­ir­tækj­um var gert að af­henta Mat­væla­stofn­un mánaðarlega ýms­ar upp­lýs­ing­ar úr rekstri fyr­ir­tækj­anna. Sú breyt­ing ger­ir okk­ur kleift að nálg­ast þess­ar upp­lýs­ing­ar og birta op­in­ber­lega. Þannig er í mæla­borðinu að finna upp­lýs­ing­ar um m.a. um­fang líf­massa í sjókvía­eldi, um­fang rekstr­ar­leyfa, áhættumat, burðarþol, af­föll, fjölda fiska og fjölda laxal­úsa eft­ir lands­hlut­um og fjörðum. Einnig er þar að finna korta­sjá sem sýn­ir staðsetn­ing­ar eld­is­svæða um landið, hvaða svæði eru í notk­un og þróun líf­massa. Þá eru eft­ir­lits­skýrsl­ur Mat­væla­stofn­un­ar vegna eft­ir­lits með rekstri og búnaði fisk­eld­is­stöðva birt­ar í mæla­borðinu.

Frum­kvæði stjórn­valda að birt­ingu þess­ara upp­lýs­inga eyk­ur gagn­sæi í starf­semi grein­ar­inn­ar, en trygg­ir um leið heild­stæðari yf­ir­sýn yfir stöðu og þróun grein­ar­inn­ar.

Auðveld­ar stefnu­mót­un

Stofn­un þess­ara mæla­borða er til þess fall­in að spara skri­fræði, m.a. við svör­un upp­lýs­inga­beiðna enda slíkt í mörg­um til­vik­um óþarfi þegar upp­lýs­ing­arn­ar eru öll­um aðgengi­leg­ar. Einna mik­il­væg­ast er þó að það sé hægt að nálg­ast á ein­um stað raun­töl­ur um starf­semi þess­ara mik­il­vægu at­vinnu­greina. Slík yf­ir­sýn treyst­ir grunn þeirra ákv­arðana sem stjórn­völd taka á hverj­um tíma og auðveld­ar heild­stæða stefnu­mót­un til framtíðar. Við þurf­um enda að þekkja bæði stöðu þess­ara at­vinnu­greina og sög­una til að geta kort­lagt framtíðina, eins og seg­ir í alda­mótaljóði Ein­ars Bene­dikts­son­ar:

Að fortíð skal hyggja, ef frum­legt skal byggja,

án fræðslu þess liðna sést ei, hvað er nýtt.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. apríl 2021.