Norðurslóðir engin James Bond-mynd

Norðurslóðir voru í brennidepli í nýjasta hlaðvarpsþættinum af Pólitíkinni en þar ræddi Guðfinnur Sigurvinsson við Bryndísi Haraldsdóttur alþingismann. Þáttinn má finna hér.

Bryndís lauk nýverið verkefni sínu sem formaður þverpólitískrar nefndar um endurskoðun Norðurslóðastefnu en í framhaldinu leggur utanríkisráðherra fram þingsályktun byggða á tillögum nefndarinnar.  Guðfinnur spurði Bryndísi hvernig Norðurslóðir tengist daglegu lífi hins dæmigerða Íslendings en óneitanlega dettur mörgum í hug vetrarsenan úr gömlu James Bond-myndinni, sem tekin var að hluta upp á Íslandi, þegar minnst er á Norðurslóðir. Bryndís rakti mörg verkefni á Íslandi sem eru tilkomin vegna Norðurslóða og önnur sem eru í burðarliðnum, eins og Norðurslóðasetur á Akureyri og hugsanleg stórskipahöfn í Finnafirði.

Bryndís ræddi líka um fólkið sem býr á Norðurslóðum, sameiginlega menningu í heimshlutanum og hvernig við getum haldið áfram að lifa og njóta í sátt við náttúruna. Hún ræddi nauðsyn þess að virkja hugvitið, rannsóknir og nýsköpun og sagði verkefnið framundan vera að nýta atvinnutækifærin og stuðla að sjálfbærni.

Bryndís segir að Íslendingar verði að vinna með hinum Norðurlöndunum og NATÓ að vörnum á Norðurslóðum sem verða fyrst og fremst tryggðar með því að viðhalda lágspennu á svæðinu.