Asbest í húsnæði listamanna í Gufunesi

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi:

Fyrir um ári síðan bauð Reykjavíkurborg fólki úr skapandi greinum að sækja um leiguhúsnæði í Gufunesi. Húsnæðið er í eigu Reykjavíkurborgar og kom fram að gera ætti leigusamninga til nokkurra ára, þar sem fólk lagfærði rýmin sjálft en húsnæðið er hrátt og mikil vinna sem átti eftir að ráðast í fyrir leigutaka. Reykjavíkurborg auglýsti þannig og úthlutaði um þúsund fermetrum, planið var að búa til einstakt svæði á heimsmælikvarða.

Asbest finnst í Gufunesinu

Þegar verið var að vinna við húsnæðið í nóvember síðastliðinn vaknaði grunur um að asbest væri að finna í byggingu í Gufunesinu. Vinnueftirlitinu var tilkynnt um málið og bannaði í kjölfarið vinnu í byggingunni enda staðfestu sýni sem þeir tóku að asbest var að finna víða í húsnæðinu. Það er dapurt að Reykjavíkurborg virðist ekkert hafa vitað af því að asbest væri að finna í húsnæðinu áður en óvarið fólk fór þar inn að vinna og komst þar með í snertingu við asbest.

Asbest er krabbameinsvaldandi

Hætt var að nota asbest að mestu um 1983 á Íslandi. Þrátt fyrir það finnst asbest enn víða á höfuðborgarsvæðinu og stafar af því mikil hætta. Innöndun á asbestryki getur valdið mjög alvarlegum sjúkdómum líkt og krabbameini í lungum. Þessir sjúkdómar hafa þó langan meðgöngutíma og koma jafnvel ekki fram fyrr en áratugum eftir að viðkomandi andaði að sér asbestrykinu.

Tillögu Sjálfstæðismanna um úttekt hafnað

Í upphafi þessa kjörtímabils lagði ég fram tillögu fyrir hönd okkar Sjálfstæðismanna um að Heilbrigðiseftirlitið geri úttekt á stöðu asbests í stofnunum borgarinnar sérstaklega þó í leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar, þessari tillögu var hafnað af meirihlutanum þar sem hún þótti of kostnaðarsöm og henni myndi fylgja mikið rask. Nú er það svo að á vef Vinnueftirlitsins segir: „Hættan, sem fylgir asbesti er þó engan vegin úr sögunni því mikið magn asbests finnst enn í byggingum, vélum og bátum sem fyrr eða síðar þarf að rífa eða gera við. Þessi staðreynd setur þær langtímakröfur á stjórnvöld og fyrirtæki að til séu reglur sem hægt er að vísa til í slíkum tilfellum“. Nú hefur meirihlutinn í Reykjavík neitað að kortleggja hvar asbest er að finna í borginni. Það er með öllu ótækt að sú vitneskja sé ekki til staðar og skráð hjá Reykjavíkurborg. Ef Reykjavíkurborg fer ekki að skrá hjá sér hvar asbest eða grunur um það hvar asbest sé að finna eigum við það á hættu að fjöldi fólks geti andað að sér asbestryki með alvarlegum afleiðingum.

Mikilvægt að kortleggja hvar asbest er að finna

Mikilvægt er að tryggt sé þegar skaðleg efni líkt og asbest finnast í húsnæði sem er í eigu Reykjavíkurborgar að skýrir ferlar séu til staðar. Því verður að setja strangar vinnureglur og safna upplýsingum um hvar asbestið er að finna svo að hægt sé að gera ráðstafanir þegar þarf að vinna í húsnæði þar sem það finnst, til að tryggja að hvorki börn, starfsmenn eða aðrir sem eiga leið um húsnæðið verði fyrir mengun.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. apríl 2021.