Ísland í hópi grænna ríkja

Ísland er í hópi „grænna“ ríkja þar sem umfang stuðningsaðgerða vegna Covid-19 eru borin saman við önnur ríki eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur leiðrétt upplýsingar sem sjóðurinn birti á dögunum. Í uppfærðum upplýsingum kemur fram að umfang aðgerðanna nemi 9,2% af vergri landsframleiðslu og sé þannig það hæsta á Norðurlöndunum.

„Það er mikilvægt að þessi leiðrétting sé komin fram, enda gaf fyrri samantekt ekki rétta mynd af stöðunni. Í leiðréttum gagnagrunni kemur fram að óvíða hafa verið tekin stærri skref í að bregðast við efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldursins,“ segir Bjarni Benediktsson í tilefni af leiðréttingunni.

Í fyrri tölum var hlutfallið hér á landi sagt vera 2,1%, en skekkjan leiddi m.a. af því að aðeins var horft til nokkurra aðgerða, einkum hlutabóta, greiðslu launa á uppsagnarfresti og útgjalda innan heilbrigðiskerfisins. Þá náði samantektin aðeins til ársins 2020 en ekki til ársins í ár og þeirra næstu, ólíkt því sem átti við um önnur lönd og ætlunin var með gagnagrunninum.

Sjá nánar hér í frétt á vef fjármálaráðuneytisins.