Bætum umferðaröryggi í Grafarvogi

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi og Þorvaldur Tolli Ásgeirsson, formaður félags sjálfstæðismanna í Grafarvogi:

Það má víða gera betur þegar kemur að öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í Grafarvogi. Á fundum samgöngu- og skipulagsráðs hef ég lagt til tillögur með stuðningi félags Sjálfstæðismanna í Grafarvog um úrbætur á umferðaröryggi hér í Grafarvogi. Því miður hafa engar tillögur sem lagðar hafa verið fram um úrbætur verið samþykktar, flestum þeirra hefur ekki verið svarað, þeim sem hefur verið svarað var hafnað.

Hvað hefur verið lagt til

Nú þegar er búið að leggja til að farið verði í tafarlausar úrbætur á öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í Grafarvogi eins og lagt er til í skýrslu sem gerð var vegna úttektar á vegum hverfisráðs Grafarvogs á umferðaröryggi í Grafarvogi. Afraksturinn kom út árið 2014 og var þá afhentur Reykjavíkurborg. Þar var meðal annars bent á hættulega slysastaði, vöntun á gangbrautum og hraðahindrunum ásamt fjölda annara atriða. Skýrslan tók bæði á litlum og stórum atriðum til að bæta öryggi allra.

Lagt hefur verið til að gatnamót Strandvegs og Borgarvegs verði löguð og gerð aðgengilegri fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Það er hættulegt að fara þarna yfir fyrir þá sem eru gangandi og hjólandi þar sem ekki er sebrabraut eða undirgöng sem hægt er að nýta sér. Engar merkingar eru á þessum stöðum sem gefa ökumönnum til kynna að þarna megi þvera göturnar af gangandi eða hjólandi vegfarendum. Einnig var lagt fram að lagfæring verði gerð á gatnamótum Hallsvegar/Víkurvegar en þar þarf að fara fjórum sinnum yfir götu til að þvera veginn. Þarna eru engar sebrabrautir og engin gönguljós. Þá er lagt til að aðkoma að iðnaðarhverfi sem staðsett er á Flötunum í Grafarvogi verði bætt. Núna er aðeins hægt að koma inn í hverfið á einum stað. Mikilvægt er að aðkoma að hverfinu sé frá tveim stöðum, því er lagt til að gerð verði aðkoma að hverfinu sem tengist Hallsvegi. Einnig er það lagt til að núverandi aðkoma sem er að hverfinu við Strandveg/Rimaflöt verði lagfærð. Þar eru núna umferðarljós og börn mikið að fara yfir þessar götur til þess að komast í Gufunesbæ. Mikil hætta hefur oft skapast við þessi gatnamót og því mikilvægt að gera á þeim úrbætur áður en slys verða þar.

Ótækt að ekki sé brugðist við

Mikilvægt er að hvergi verði slakað á þegar kemur að bættu öryggi í umferðinni. Hér höfum við einungis tekið til örfáa áberandi punkta, en það er miklu meira sem þarf að fara yfir þegar kemur að því að bæta öryggi vegfarenda í Grafarvogi, breytir þá engu hvaða samgöngumáta þeir nota. Það má ekki verða svo að við látum óáreitt að ekki sé brugðist við þegar bent er á það sem betur má fara í umferðaröryggismálum. Við íbúar í Grafarvogi verðum að fá lagfæringar á þeim stöðum sem eru hættulegir áður en illa fer.

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu 14. apríl 2021.