Bílastæðum fækkað um 3000 í Reykjavík

Björn Gíslason, borgarfulltrúi:

Það hefur ef til vill farið fram hjá mörgum sú fyrirætlan vinstrimeirihlutans í Reykjavík að fækka bílastæðum í borgarlandinu um þrjú þúsund til ársins 2025. Þetta var samþykkt á fundi borgarstjórnar 2. mars sl. undir liðnum aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum til ársins 2025.

Jafnvel þótt fækkun bílastæða um 2% á ári láti ekki mikið yfir sér er engu að síður um 600 stæði að ræða árlega. Þá er fyrirséð að 2% markmið borgarinnar gengur með engu móti upp með hliðsjón af íbúafjölgun sem er u.þ.b. 3%  á ári.

Eins er ljóst að orkuskipti í samgöngum eru komin á fleygiferð og margir nú þegar komnir á rafbíla eða hybrid-bíla en þar á meðal er undirritaður. Af því leiðir að ökutæki borgarbúa verða  með hverjum deginum umhverfisvænni, en um helmingur nýskráðra ökutækja, sem seljast í dag, eru knúinn áfram með rafmagni. Markmið borgarinnar um fækkun bílastæða skýtur því skökku við enda ökutæki almennt að verða hliðhollari umhverfinu. Nær hefði verið að snúa þessu við og fjölga hleðslustöðvum verulega en við sjálfstæðismenn höfum lagt fram fjölda tillagna í þá veru.

Hitaveitan leysti kolakyndingu af hólmi

Við teljum meðal annars að Reykjavíkurborg þyrfti að ganga enn lengra í stefnu sinni í loftslagsmálum að auðvelda orkuskipti í samgöngum enda hefur borgin verið í fararbroddi í notkun endurnýjanlegrar orku síðan hitaveitan leysti kolakyndingu af hólmi. Orkuskiptin eru stórlega vanmetin og þar þarf að gera betur. Raforkuframleiðsla hér á landi er endurnýjanleg og rafvæðing því augljós valkostur í samgöngum fyrir borgarbúa..

Þá er kolefnisbinding CarbFix framfaraskref á heimsvísu og teljum við, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, að það gæti verið eitt stærsta framlag Reykjavíkurborgar til loftslagsmála að miðla af þekkingu sinni og reynslu.

Hentistefna vinstrimeirihlutans í hnotskurn

Þá verður að teljast ansi einkennilegt að áform um að ganga á græn svæði í borginni svo sem í Elliðaárdal og Laugardal og fleiri svæðum eru í hróplegu ósamræmi við stefnu borgarinnar í loftslagsmálum. Það eitt og sér lýsir auðvitað hentistefnu þessa vinstrimeirihluta í hnotskurn.

Við í Sjálfstæðisflokki viljum skýr markmið í skógrækt enda er hún hagkvæm og náttúruleg binding. Eins viljum  við fækka olíutönkum í Örfirisey en samþykkt var í borgarráði að fækka þeim um 50%. Enn fremur töldum við að það þyrfti að bæta og fjölga hjólastígum enda er jákvætt að hérlendis fari hjólreiðamenning vaxandi.

Rafbíllinn einn umhverfisvænsti kosturinn

Eins teljum við að Reykjavík framtíðarinnar eigi að byggja á sjálfbærum hverfum, þar sem hvert hverfi samanstendur af sterkum innviðum og þjónustu með öflugum og tíðum almenningssamgöngum innan hverfis, sem tengist síðan stærra samgöngukerfi borgarinnar.

Loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar er að mörgu leyti ágæt en þó skín í gegn þetta gegndarlausa hatur vinstrimeirihlutans á fjölskyldubílnum. Svo virðist sem meirihlutinn sé á flótta undan þeirri staðreynd að rafbíllinn er að verða einn umhverfisvænsti kosturinn í samgöngum. Sérstaklega hérlendis þar sem við nýtum nær einvörðungu hreina orku eins og þekkt er orðið á heimsvísu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. apríl 2021.