Raunhæf lausn í samgöngumálum

Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi:

Sam­göngu­bæt­ur hafa setið á hak­an­um í Reykja­vík síðastliðinn ára­tug og eðli máls­ins sam­kvæmt er upp­söfnuð fjár­fest­ing­arþörf í vega­kerf­inu orðin mjög mik­il. Þetta er til­komið vegna svo­kallaðs samn­ings um fram­kvæmda­stopp, sem var póli­tísk ákvörðun á sín­um tíma, og fól í sér að vega­fé sem ríkið hefði ann­ars varið til upp­bygg­ing­ar vega­kerf­is­ins í Reykja­vík var ein­göngu varið í rekst­ur Strætó. Mark­miðið var að fjölga þeim sem notuðu strætó úr 4% í 8% en það tókst ekki.

Af­leiðing­ar fram­kvæmda­stopps­ins voru auk­in um­ferð, auk­inn tafa­tími, fleiri slys og meiri meng­un. Þess­ari þróun er nú nauðsyn­legt að snúa við enda er þjóðfé­lags­leg­ur kostnaður slysa og tafa í um­ferð met­inn á tugi millj­arða.

Í þessu sam­hengi hafa borg­ar­yf­ir­völd kynnt íbú­um höfuðborg­ar­svæðis­ins hina einu sönnu lausn við þess­um sjálf­skapaða vanda: Borg­ar­lín­una. Hundraða millj­arða króna þungt strætó­kerfi með mikl­um rekstr­ar­kostnaði sem þreng­ir að öðrum sam­göngu­mát­um og er mjög flókið í fram­kvæmd. Þá er ekki hægt að láta hjá líða að nefna að spálíkön um notk­un þessa kerf­is eru óraun­hæf og því ólík­legt að þau gangi eft­ir, en ein­mitt þess vegna hef­ur hljóm­grunn­ur meðal efa­semda­fólks um borg­ar­línu auk­ist jafnt og þétt.

Nú hef­ur verið kynnt til sög­unn­ar svo­kölluð létt­lína eða BRT-lite kerfi, sem nær fram sam­bæri­leg­um ár­angri og borg­ar­lín­an og er auk þess mun ein­fald­ari, fljót­virk­ari og hag­kvæm­ari í fram­kvæmd. Á sama tíma og kost­ir og gall­ar borg­ar­línu eru í umræðunni er nauðsyn­legt að skoða þessa leið sem er hófstillt­ari og mögu­lega jafn­góð eða betri.

Útfærsl­an um létt­lín­una er mörg­um tug­um millj­arða ódýr­ari en kostnaður­inn við hana er tal­inn 15-25 millj­arðar króna. Þá er gert ráð fyr­ir sérak­rein­um hægra meg­in á veg­in­um á þeim veg­köfl­um þar sem þörf þykir og álagspunkt­ar eru mikl­ir. Þannig þreng­ir hún ekki að öðrum sam­göngu­mát­um. Flækj­u­stig skipu­lags­mála er lítið sem ekk­ert og því hægt að hefjast handa strax. BRT-lite kerfið eða Létt­lín­an gæti því verið full­bú­in á 4-5 árum í stað þess að bíða til árs­ins 2040 – en ráðgert er að borg­ar­lín­an verði full­bú­in um það leyti.

Sam­hliða létt­línu mun­um við sjá fleira fólk sem fer ferða sinna hjólandi og gang­andi í um­ferðinni, sveigj­an­legra vinnu­um­hverfi í kjöl­far Covid og bætta ljós­a­stýr­ingu. Með þess­um hætti er hægt að ná frá­bær­um ár­angri með marg­falt minni til­kostnaði. Niðurstaðan verður öfl­ugt og skil­virkt sam­göngu­net á höfuðborg­ar­svæðinu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. apríl 2021.