Þegar á reynir

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Þrátt fyr­ir rúm­lega eins árs glímu við heims­far­ald­ur og allt sem hon­um fylg­ir er staða okk­ar betri en flest­ir þorðu að vona. Í nýrri fjár­mála­áætl­un birt­ist ekki aðeins skýr stefna fyr­ir kom­andi ár, held­ur einnig góð saga af því nýliðna.

Það er sama hvert sem litið er. Skulda­söfn­un og sam­drátt­ur í inn­lendri eft­ir­spurn voru langt­um minni en spár gerðu ráð fyr­ir og kaup­mátt­ur ráðstöf­un­ar­tekna jókst í fyrra.

Í nýrri könn­un Gallup mæl­ist mik­il ánægja með efna­hagsaðgerðir stjórn­valda og meiri­hluti fyr­ir­tækja tel­ur sig standa fjár­hags­lega vel til að tak­ast á við tíma­bund­in áföll. Mun fleiri fyr­ir­tæki sjá fram á fjölg­un starfs­fólks held­ur en fækk­un.

Sag­an er skýr; rétt­ar aðgerðir skiluðu ár­angri. Með því að bregðast við af krafti strax í upp­hafi og ráðast í ein­hverj­ar um­fangs­mestu efna­hagsaðgerðir Íslands­sög­unn­ar tókst að af­stýra veru­legu tjóni.

Viðbrögðin voru ekki sjálf­gef­in og aðeins mögu­leg vegna þess að við stóðum á traust­um grunni. Grunni sem bygg­ist á fyr­ir­hyggju síðustu ára, þar sem við nýtt­um betri tíð til að búa í hag­inn fyr­ir óvænt áföll. Það er ekki alltaf vin­sæl stefna að sýna ráðdeild þegar vel geng­ur og oft heyrðust radd­ir um að verja þyrfti auknu fé í hin ýmsu verk­efni á upp­gangs­tím­um. Fæst­ir ef­ast hins veg­ar um gildi þeirr­ar stefnu nú þegar á reyn­ir.

Þrátt fyr­ir þá góðu stöðu sem hér er lýst fer því fjarri að allt sé eins og best verður á kosið. Veru­leg­ur halli verður á rekstri rík­is­sjóðs næstu árin og at­vinnu­leys­istöl­ur eru miklu hærri en við get­um sætt okk­ur við. Við þurf­um að leggja allt kapp á að draga úr hall­an­um, end­ur­heimta störf­in og skapa ný.

Leiðin til vaxt­ar og fleiri starfa get­ur aldrei verið grund­völluð að því að stækka rík­is­rekst­ur­inn eða flækja land­inu í aðild­ar­viðræður við ESB. Við end­ur­heimt­um ekki töpuð störf í einka­geir­an­um með því að auka álög­ur. Þvert á móti. Það þarf að hvetja og greiða götu þeirra sem vilja láta til sín taka. Við höf­um í hendi okk­ar allt sem þarf til að hefja nýtt blóm­legt vax­ar­skeið og erum þegar á réttri leið.

Leiðin fram á við felst í því að veðja áfram á ein­stak­ling­inn.

Að trúa því að tæki­fær­in verði til úti í sam­fé­lag­inu, en ekki bara í Stjórn­ar­ráðinu. Að ýta und­ir fram­sækni og ný­sköp­un, frek­ar en að aftra henni með íþyngj­andi skött­um og regl­um. Að hlúa að einkafram­tak­inu, í stað þess að tor­tryggja það.

Að trúa á kraft­inn í okk­ur öll­um og sam­taka­mátt­inn sem ávallt skil­ar okk­ur sterk­ari út úr tíma­bundn­um erfiðleik­um. Um þetta snýst okk­ar stefna og ef við höld­um fast við hana eru okk­ur all­ir veg­ir fær­ir.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. apríl 2021.