Halldór Blöndal fer yfir pólitískan feril sinn

Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, fer yfir pólitískan feril sinn og lykilmál þess tíma í sérstökum páskaþætti af Næstu skrefum með Njáli Trausta Friðbertssyni, alþingismanni, en þátturinn var sendur út á skírdag og má nálgast hér.

Í þættinum ræðir Halldór um mótunarár sín í stjórnmálum allt frá átökum á Austurvelli um aðild að Atlantshafsbandalaginu 30. mars 1949 sem Bjarni Benediktsson (móðurbróðir Halldórs) leiddi sem utanríkisráðherra, pólitíska starfið á Akureyri allt frá námsárunum í MA sem óbreyttur flokksmaður, erindreki flokksins og í skrifum í þjóðmálaritinu Íslendingi, yfir í pólitíska ferilinn sem varaþingmaður og alþingismaður í tæpa fjóra áratugi.

Halldór hóf pólitíska þátttöku sína á námsárunum í Menntaskólanum á Akureyri og var erindreki flokksins á Norðurlandi. Lykilmaður í pólitísku starfi flokksins á Akureyri í tæpa hálfa öld, formaður tveggja félaga og leiddi ungliðastarfið og síðar meir uppbyggingarstarf málfundafélagsins í launþegaráði flokksins. Segja má að Halldór hafi í raun verið tengdur þingstörfum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961 og setið þingflokksfundi meginhluta þess tíma, í formannstíð átta af níu formönnum flokksins, allt frá Ólafi Thors.

Halldór var lengi þingfréttamaður, svo starfsmaður þingflokksins og síðar kjörinn fulltrúi, fyrst sem varaþingmaður í Norðurlandskjördæmi eystra 1971-1979 og alþingismaður í 28 ár; frá desemberkosningunum 1979 til vorsins 2007 þegar hann dró sig í hlé, í Norðurlandi eystra allan ferilinn utan síðustu fjögur árin fyrir Norðausturkjördæmi. Halldór hefur verið formaður SES nær samfellt síðan hann lét af þingmennsku og sem slíkur haft seturétt á þingflokksfundi.

Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999, ötull baráttumaður sinna málaflokka í átta ára ráðherratíð; vann að mikilvægum umbótamálum í landbúnaði og framfaramaður í samgöngumálum; kláraði til dæmis að malbika veginn milli Akureyrar og Reykjavíkur lýðveldisafmælisárið 1994, lagði drög að malbikun hringvegarins og útrýmingu einbreiðra brúa í þjóðvegakerfinu.

Hann var forseti Alþingis 1999-2005 og formaður utanríkismálanefndar þingsins síðustu tvo þingvetur sína. Halldór er heiðursfélagi í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, sæmdur þeirri nafnbót á 75 ára afmæli félagsins í febrúar 2004, og í Málfundafélaginu Sleipni, sæmdur þeirri nafnbót á fundi í kosningabaráttunni til Alþingis 2016.

Halldór átti sætasta pólitíska sigur sinn í alþingiskosningunum 1999. Þá tókst honum að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í síðustu kosningunum í Norðurlandskjördæmi eystra – hlaut flest atkvæði í kjördæminu og Halldór því fyrsti þingmaður þess, fyrstur sjálfstæðismanna. Fram að því höfðu framsóknarmenn ríkt í kjördæminu og alltaf verið langstærstir. Sögulegur og ógleymanlegur sigur fyrir sjálfstæðismenn nyrðra.

Frá árinu 2009 hefur Halldór verið formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna eins og fyrr segir. Undir hans stjórn hefur SES verið mjög virkt með reglulega málfundi í hádegi á miðvikudögum yfir vetrartímann með ötulum hætti allt fram að heimsfaraldrinum.