Byrjað á öfugum enda

Diljá Mist Einarsdóttir, varaborgarfulltrúi:

Eins og skrifað hefur verið um hér á Deiglunni þá segist stærri hluti borgarbúa en raun ber vitni vilja fara leiðar sinnar með öðrum fararskjóta en bifreið. En af hverju nota íbúar í Reykjavík ekki þá fararskjóta sem þeir helst vilja?

Samkvæmt nýjustu ferðavenjukönnunar Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Vegagerðarinnar, Samgöngustofu og Isavia, er meginástæða þess að höfuðborgarbúar nota ekki strætó sú að þeir annað hvort kjósa frekar aðra ferðamáta (51%) og/eða það er of tímafrekt (44%). Aðeins 30% svarenda könnunarinnar segja ástæðuna vera ófullnægjandi leiðarkerfi og enn færri (24%) bera við ekki nægri tíðni ferða.

Ég bý í Grafarvogi og tengi vel við þessar niðurstöður. Strætó stoppar fyrir framan heimilið mitt á 20 mínútna fresti og endar í þriggja mínútna göngufjarlægð frá vinnustað mínum í miðbæ Reykjavíkur. Ég þarf ekki að skipta um vagn og allt ferðalagið tekur um 25 mínútur. Þann tíma væri hægt að nota í vinnu eða lestur í stað þess að sitja fastur við stýrið í morgun- og síðdegistraffíkinni, bölvandi gangbrautunum yfir megin stofnæð Reykvíkinga. Hljómar eins og no brainer. Eða hvað?

Ég ólst upp í Foldahverfinu í Grafarvoginum, í næstu götu við þá sem ég bý við í dag. Á uppvaxtarárum mínum fyrir um þremur áratugum síðan var hverfið blómlegt. Þar var að finna matvöruverslun, heilsugæslu, pósthús, blómabúð og ýmsa aðra þjónustu í hverfiskjarnanum okkar. Í dag er staðan gerbreytt. Þar hafa fæstir aðgang að búð í göngufjarlægð núorðið. Á þeim nánast samfelldu 25 árum sem vinstristjórn hefur verið í Reykjavík hafa hverfiskjarnar í Austurborginni drabbast niður og er Foldahverfið þar engin undantekning. Á sama tíma hef ég leitað á náðir leikskólakerfis Reykjavíkurborgar með tvö börn. Í báðum tilvikum var biðtími eftir leikskólaplássi tvö ár og ég þurfti því að keyra með börnin í vestasta hluta borgarinnar þar sem þau komust að í einkareknum leikskóla. Sú staða hefur lítið breyst og innantóm loforð vinstriflokkanna í meirihlutanum um að 12 til 18 mánaða börnum yrði boðin leikskólapláss á þessu kjörtímabili reyndust orðin tóm eins og við var að búast.

Við sem búum í austurhluta Reykjavíkurborgar veljum flest en neyðumst enn fleiri til að ferðast aðallega um á bíl. Við keyrum þvert á enda borgarinnar til og frá vinnu og sækjum flest alla þjónustu utan við hverfið okkar. Börnin okkar fá ekki leikskólapláss í sínu hverfi fyrr en í fyrsta lagi við tveggja ára aldur og það púsluspil bætist við ferðatímann til og frá vinnu. Af þessu litast afstaða okkar til ferðamáta, þ.m.t. til háleitra hugmynda og markmiða um Borgarlínu. Afstaðan litast af áratuga vonbrigðum, skilnings- og afskiptaleysiborgaryfirvalda þar sem hugmyndir og orðagjálfur eru eitt en raunveruleikinn annað.

Þegar litið er yfir umræðuna um breyttar ferðavenjur og um Borgarlínu leiðir óvísindaleg könnun til þeirrar niðurstöðu að meirihluti þeirra borgarbúa sem fagnar áformum um Borgarlínu lifi og hrærist í vesturhluta borgarinnar. Þetta rímar vel við niðurstöður framangreindrar könnunar sem sýnir mikinn mun milli hverfa hvað varðar þróun virkra samgöngumáta undanfarin ár. Þannig hefur þeim farið fækkandi sem ganga og hjóla í Grafarvogi, Grafarholti, Breiðholti og Árbæ á þessum tíma, en íbúum hefur fjölgað sem notast við þessa ferðamáta t.a.m. í miðbæ , Túnum og í Vesturbænum. Sömu sögu er að segja varðandi hlutdeild strætó í ferðum borgarbúa, en mikill munur er á þróun milli hverfa.

Staðan er sumsé sú að þeir sem minnsta nota almenningssamgöngur, þeir sem minnsta þörf hafa fyrir að almenningssamgöngu, þeir sem eru þannig í sveit settir að komast flestra sinna ferða gangandi eða á hjóli, þeir eru helstu stuðningsmenn Borgarlínu. Þetta verður þannig einsdæmi í sögu samgönguframkvæmda í heiminum, að komið sé til móts við eftirspurn sem ekki er til staðar til að verða við kröfum þeirra sem enga þörf hafa fyrir þjónustuna.

Greinin birtist á Deiglunni 26. mars 2021.