Að komast alla leið

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjorn:

Al­ger um­bylt­ing er að verða í sam­göng­um í heim­in­um. Líkt og þegar snjallsím­ar opnuðu nýj­ar vídd­ir er snjall­væðing far­ar­tækja mikið fram­fara­skref. Á sama tíma eru orku­skipt­in að verða hraðar en úr­tölu­fólk taldi mögu­legt. Tækn­in opn­ar tæki­færi: Steve Jobs í gær. Elon Musk í dag. Eng­in þjóð hef­ur betri mögu­leika á að nýta hreina orku í sam­göng­um en Íslend­ing­ar. Við rudd­um braut­ina í orku­skipt­um þegar við fór­um úr kola­kynd­ingu í hita­veitu fyr­ir tæp­um hundrað árum. Það var mikið fram­fara­skref. Í vax­andi mæli nýt­ir al­menn­ing­ur sér hreina raf­orku til að kom­ast á milli staða. Hjól­reiðar af öll­um gerðum eru í mikl­um vexti. Bæði hefðbund­in hjól, raf­magns­hjól og raf­skút­ur. Þessi vin­sæli og heil­brigði far­ar­máti er val­kost­ur í borg­inni sem hef­ur sannað sig. Það er okk­ar hlut­verk sem sitj­um í borg­ar­stjórn að tryggja sem best tæki­fær­in sem fel­ast í nýrri tækni.

Orð og efnd­ir

Af og til koma upp hug­mynd­ir um lest­ar­sam­göng­ur, en ein slík var notuð til flutn­inga á grjóti í fyrri heimstyrj­öld­inni niður úr Öskju­hlíð. Hug­mynd­ir um flug­lest til Kefla­vík­ur og „létt­lest­ir“ í Reykja­vík hafa ekki kom­ist á flug. Á síðasta ári taldi formaður skipu­lags- og sam­gönguráðs Reykja­vík­ur rétt að skoða enn og aft­ur lest­ar­sam­göng­ur. Nú vegna kór­ónufar­ald­urs­ins og lofts­lags­breyt­inga. Vand­inn við óraun­hæf­ar hug­mynd­ir eins og þess­ar er að þær tefja raun­hæf­ar lausn­ir. Á sama tíma og verið er að kynna þung­lama­lega og rán­dýra út­gáfu af borg­ar­línu er ekki til fjár­magn til að kaupa nýja vagna fyr­ir Strætó. Hvað þá að bæta leiðakerfið! Á meðan um­samd­ar fram­kvæmd­ir á úr­bót­um við Bú­staðaveg og Arn­ar­nes­veg eru látn­ar bíða er verið að lofa dýr­um lausn­um sem seint verða. Eða aldrei. Við sjálf­stæðis­menn styðjum sam­göng­ur fyr­ir alla ferðamáta. Við greidd­um at­kvæði með því að auka tíðni strætó á helstu leiðum strax í upp­hafi þesa kjör­tíma­bils. Þrátt fyr­ir samþykkt borg­ar­stjórn­ar hef­ur þessi breyt­ing ekki komið til fram­kvæmda. Og er ekki á dag­skrá.

Bæt­um sam­göng­ur

Nú þegar frumdrög að borg­ar­línu eru í kynn­ing­ar­ferli hef­ur komið fram vel rök­studd gagn­rýni á út­færsl­una. Sú leið að taka ak­rein­ar úr al­mennri um­ferð und­ir sérrými borg­ar­línu hef­ur mætt mik­illi and­stöðu, enda myndi slík ráðstöf­un þrengja að um­ferð þvert á vilja Alþing­is og þvert á skiln­ing íbúa. Það er því ein­boðið að út­færsl­an verði end­ur­skoðuð. Bent hef­ur verið á að unnt er að koma upp hraðvagna­kerfi sem er hag­kvæm­ara en þung borg­ar­lína, tek­ur ekki ak­rein­ar frá al­mennri um­ferð og kæmi mun fyrr til fram­kvæmda. Því ekki að skoða slík­ar lausn­ir? Þá hafa komið fram efa­semd­ir um að stór­ir vagn­ar séu lausn framtíðar­inn­ar. Ein­stak­lings­miðuð þjón­usta er leiðar­stef sam­tím­ans. Stór­ir vagn­ar fyr­ir 160 manns kunna að henta vel í fjöl­menn­um borg­um Asíu og Suður-Am­er­íku, en í Reykja­vík er það tíðni ferða, áreiðan­leiki og það að kom­ast alla leið sem skipt­ir öllu máli. Þá ork­ar kostnaður upp á hundrað millj­arða tví­mæl­is þegar ávinn­ing­ur­inn er óljós. Flest­ir vita að unnt er að stór­minnka um­ferðartaf­ir í Reykja­vík með því að snjall­væða um­ferðarljós­in. Það er arðbær fjár­fest­ing. Sama er að segja um þyngstu og slysam­estu gatna­mót­in. Svo ekki sé minnst á Sunda­braut sem er sjálf­bær fram­kvæmd. Það er ótrú­verðugt að lofa risa­fram­kvæmd­um sem ekki eru fjár­magnaðar en van­rækja á sama tíma lág­marksþjón­ustu Strætó. Efna ekki eig­in samþykkt­ir. Lausn­in er að nýta tækn­ina og horfa raun­sætt til framtíðar. Þannig kom­umst við alla leið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. mars 2021.