Úr vörn í sókn

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Það er rétt hjá Bjarna Bene­dikts­syni fjár­málaráðherra að varn­araðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar í efna­hags­mál­um vegna heims­far­ald­urs Covid-19 hafa skilað veru­leg­um ár­angri, sam­hliða skyn­sam­legri og mark­vissri stefnu Seðlabank­ans í pen­inga­mál­um. Staðan er því mun betri en flest­ir þorðu að vona fyr­ir nokkr­um mánuðum og það er bjart­ara fram und­an bæði til skemmri og lengri tíma. En verk­efn­inu er langt í frá lokið – áskor­un­um, ekki síst í at­vinnu­mál­um, verður að mæta. Kjós­end­ur ráða mestu um það eft­ir sex mánuði hvernig þeim verður mætt.

Það er nær al­veg sama á hvaða þætti horft er. Taflið er að snú­ast við. Við erum ekki leng­ur í vörn held­ur í sókn. Þar skipt­ir tvennt miklu. Í fyrsta lagi sjálf­virk­ir sveiflu­jafn­ar­ar rík­is­fjár­mála og hins veg­ar bein­ar stuðningsaðgerðir gagn­vart heim­il­um og fyr­ir­tækj­um. Á tveim­ur árum er um að ræða 400 millj­arða viðspyrnu í rík­is­fjár­mál­um gegn efna­hags­leg­um áhrif­um Covid-19. Í stað þess að taka upp niður­skurðar­hníf og beita hon­um gegn vel­ferðar­kerf­inu, líkt og vinstri­stjórn gerði eft­ir hrun, var heil­brigðis-, fé­lags- og mennta­kerfið varið og frem­ur gefið í. Í stað skatta­hækk­ana tók rík­is­stjórn­in ákvörðun um að skrúfa frá súr­efn­inu til launa­fólks og fyr­ir­tækja; þrátt fyr­ir tekju­sam­drátt voru skatt­ar lækkaðir, m.a. tekju­skatt­ur ein­stak­linga og trygg­inga­gjald. Inn­leidd­ir skatta­leg­ir hvat­ar til ný­sköp­un­ar og þar með ýtt und­ir nýja sókn í at­vinnu­mál­um. Um leið var gripið til beinna aðgerða, sem ég hef áður gert að um­tals­efni hér á þess­um stað.

Staðan betri

Síðasta ár var erfitt en þó var sam­drátt­ur­inn ekki eins mik­ill og spáð var. Hall­inn á rekstri rík­is­sjóðs var 70 millj­örðum minni en áætlan­ir gerðu ráð fyr­ir. Í nýrri þjóðhags­spá Hag­stof­unn­ar er reiknað með að hag­vöxt­ur á þessu ári verði 2,6%, eft­ir 6,6% sam­drátt á liðnu ári. Kraft­ur efna­hags­lífs­ins verður enn meiri á næsta ári eða 4,8% og 3,8% árið 2023. Um­skipt­in eru því haf­in en við verðum að gera bet­ur. Þrátt fyr­ir sterk­an vöxt er út­lit fyr­ir að lands­fram­leiðsla verði um 130 millj­örðum lægri árið 2024 en þjóðhags­spár gerðu ráð fyr­ir áður en heims­far­ald­ur­inn reið yfir.

Hag­stof­an bend­ir á að raun­laun hafi hækkað um 3,4% að meðaltali á síðasta ári, að mestu vegna kjara­samn­ings­bund­inna hækk­ana þar sem ákveðið var að kjara­samn­ing­ar skyldu standa. Þá hafði stytt­ing vinnu­viku á al­menn­um markaði einnig áhrif til hækk­un­ar en styttri vinnu­tími tók einnig gildi hjá flest­um op­in­ber­um starfs­mönn­um í byrj­un þessa árs. Gert ráð fyr­ir að raun­laun hækki um 3,8% á þessu ári.

Sem sagt: Þrátt fyr­ir þau efna­hags­legu áföll sem gengið hafa yfir og sam­drátt í lands­fram­leiðslu hef­ur kaup­mátt­ur launa auk­ist og held­ur áfram að aukast. Kaup­mátt­ur launa hef­ur aldrei verið meiri. Hér skipt­ir ekki síst máli lækk­un tekju­skatts sem kom að fullu til fram­kvæmda í byrj­un þessa árs. Ráðstöf­un­ar­tekj­ur fólks verða 23 millj­örðum hærri á ári vegna skatta­lækk­ana síðustu ára. Aukn­ing ráðstöf­un­ar­tekna er mest hjá lægri tekju­hóp­um eða um 120 þúsund krón­ur.

Áskor­an­ir

Í end­ur­skoðaðri fjár­mála­áætl­un sem kynnt var á mánu­dag er reiknað með að af­koma rík­is­sjóðs fari smám sam­an batn­andi og já­kvæður frum­jöfnuður ná­ist 2025. Af­koma rík­is­sjóðs árin 2020-2025 verður 135 millj­örðum betri en gengið var út frá síðasta haust.

Það verður því „auðveld­ara“ að ná mark­miði um að stöðva skulda­söfn­un rík­is­ins vegna heims­far­ald­urs­ins fyr­ir lok árs­ins 2025. Ekki þarf að hafa mörg orð um hversu mik­il­vægt það er að ríkið safni ekki skuld­um, – skuld­um til að standa und­ir al­menn­um út­gjöld­um. Slík­ar skuld­ir eru lítið annað en fyr­ir­fram­greiðsla lífs­kjara á reikn­ing þeirra sem á eft­ir koma.

Jafn­vægi í rík­is­fjár­mál­um er alltaf áskor­un en um leið ein frum­skylda stjórn­mála­manna þegar til lengri tíma er litið. Í aðdrag­anda kosn­inga er ekki ólík­legt að ungt fólk krefji fram­bjóðend­ur og stjórn­mála­flokka um skýr svör í þeim efn­um.

Önnur áskor­un sem við verðum að tak­ast á við er at­vinnu­leysið. Ég hef haldið því fram að ís­lenskt sam­fé­lag geti aldrei sætt sig við um­fangs­mikið at­vinnu­leysi, ekki aðeins vegna beins kostnaðar held­ur ekki síður vegna þess að at­vinnu­leysi er sem eit­ur sem seytl­ar um þjóðarlík­amann. At­vinnu­leysi er vitn­is­b­urður um vannýtta fram­leiðslu­getu, minni verðmæta­sköp­un og meiri sóun. All­ir tapa en mest þeir sem eru án at­vinnu í lengri eða skemmri tíma.

Von­ir eru til þess að þeim fækki veru­lega sem eru án vinnu á kom­andi mánuðum, ekki síst þegar ferðaþjón­ust­an fær aft­ur byr und­ir báða vængi. En at­vinnu­lífið verður ekki fjöl­breytt­ara án fjár­fest­inga og ný störf verða ekki til með því að minnka súr­efnið, með reglu­gerðarvæðingu og skatt­heimtu.

Skatt­heimtu­stefna eða aukið súr­efni

Þeir stjórn­mála­menn sem hafa litla framtíðar­sýn eða vilja ekki leggja spil­in á borðin gera ít­rekaðar til­raun­ir til að festa umræðuna um op­in­ber fjár­mál í form­regl­um. Inni­haldið verður auka­atriði. Forðast er eins og heit­an eld­inn að marka skýra stefnu í skatta­mál­um, – það er helst að það glitti í póli­tíska stefnu­mörk­un þegar kem­ur að út­gjöld­um, sem alltaf skulu vera hærri en lagt er til. Slík­ir stjórn­mála­menn eru ekki lík­leg­ir til að ryðja braut­ina til bættra lífs­kjara.

Sam­fylk­ing­in, sem boðar eitt­hvað sem kall­ast „fram­sæk­in at­vinnu­stefna“, er föst í göml­um skot­gröf­um vinstrimanna. Flækja á skatt­kerfið enn frek­ar með fleiri skattþrep­um (og ör­ugg­lega hærri en ekki eru mörg ár síðan þáver­andi þingmaður flokks­ins boðaði allt að 70% tekju­skatt) með viðeig­andi jaðarskött­um. Inn­leiða á eigna­skatta að nýju, þrátt fyr­ir að fyrr­ver­andi fjár­málaráðherra flokks­ins hafi talað um að slík­ur skatt­ur hefði verið tíma­bund­inn. Og síðast en ekki síst á að hækka fjár­magn­s­tekju­skatt enn meira er orðið er.

Með slíka skatta­stefnu að vopni ætl­ar Sam­fylk­ing­in að blása til at­vinnu­sókn­ar og legg­ur sér­staka áherslu á „vöxt háfram­leiðni­greina sem byggj­ast á hug­viti og sköp­un­ar­gáfu, tækni og verkkunn­áttu“. Í hug­ar­heimi sam­fylk­inga er ekk­ert sam­hengi á milli skatta, vinnu og fjár­fest­inga. Þess vegna er Sam­fylk­ing­in lítið annað en gam­aldags skatt­heimtu­flokk­ur, þar sem rík­is­rekstr­ar­hyggj­an hef­ur yf­ir­hönd­ina með til­heyr­andi milli­færsl­um til heim­ila og fyr­ir­tækja.

Hærri skatt­ar, ekki síst á fjár­magn og eign­ir, búa ekki til ný störf held­ur koma frem­ur í veg fyr­ir fjár­fest­ingu og þar með fram­sókn í at­vinnu­mál­um. Flókn­ara skatt­kerfi ein­stak­linga með fleiri og hærri skattþrep­um eyk­ur ekki kaup­mátt. Þeir sem trúa því leggja Sam­fylk­ing­unni eðli­lega lið í kom­andi kosn­ing­um.

Það er alltaf gott að valið sé skýrt þegar komið er að kjör­borðinu. Skatt­heimtu­stefna og rík­is­hyggja eða aukið súr­efni þar sem kraft­ur ein­stak­ling­anna er virkjaður.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. mars 2021.