Úr sveit í borg

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi:

„Hefði ég spurt hvað fólkið vildi, hefði það beðið um hraðskreiðari hesta“. Svohljóðandi er þekkt til­vitn­un í frum­kvöðul­inn Henry Ford sem kynnti al­menn­ingi fyrstu fjölda­fram­leiddu bif­reiðina. Tækninýj­ung­in mætti þónokk­urri and­stöðu. Bíl­ar þóttu hávaðasam­ir, meng­andi og pláss­frek­ir. Fljót­lega varð fólki þó ljóst að hest­ar væru ekki besti far­ar­skjót­inn. Ferðamynst­ur breytt­ist, bíll­inn færði fólki aukið frelsi og helstu borg­ir heims byggðu þéttriðin sam­göngu­kerfi fyr­ir bíla.

Árið 1966 birti Les­bók Morg­un­blaðsins grein þar sem les­end­um var boðið að skyggn­ast inn í Reykja­vík framtíðar. Horft var til þess tíma þegar Aðal­skipu­lag Reykja­vík­ur 1962-1983 myndi verða full­fram­kvæmt. Það byggði á ríkj­andi viðhorf­um sjö­unda ára­tug­ar­ins þar sem skipu­lag borga tók aðallega mið af þörf­um hinn­ar bylt­ing­ar­kenndu einka­bif­reiðar. Grein­ar­höf­und­ur sá fyr­ir sér nú­tíma­lega höfuðborg, með full­komnu hraðbrauta­kerfi, skipu­lögðu fyr­ir bílaum­ferð. Miðborg­inni yrði gjör­breytt og göm­ul hús myndu víkja fyr­ir vega­sam­göng­um. Bíla­borg­in Reykja­vík myndi verða til.

Sam­göng­ur fyr­ir suma

Á dög­un­um steig fram hóp­ur­inn Áhuga­fólk um sam­göng­ur fyr­ir alla og kynnti hug­mynd­ir að bætt­um sam­göng­um á höfuðborg­ar­svæðinu. Hug­mynd­irn­ar eru sett­ar fram með ít­ar­leg­um rök­stuðningi en minna þó ei­lítið á ára­tuga tímaflakk. Tel­ur hóp­ur­inn hið 60 ára gamla hraðbrauta­skipu­lag höfuðborg­ar­svæðis­ins hafa staðist all­ar vænt­ing­ar en hefði viljað sjá áður áformaða hraðbraut gegn­um Foss­vogs­dal­inn. Þá tel­ur hóp­ur­inn ekki æski­legt að færa bílaum­ferð neðanj­arðar. Breiðari ak­veg­ir og fjöldi mis­lægra gatna­móta verði betri kost­ur.

Hóp­ur­inn leggst jafn­framt gegn áform­um um Borg­ar­línu en kynn­ir til sög­unn­ar svo­kallaða Borg­ar­línu Lite – metnaðarlausa út­gáfu af hinu fyr­ir­hugaða hágæða al­menn­ings­sam­göngu­kerfi. Borg­ar­línu Lite til­heyra færri sérak­rein­ar, lengri biðtími og verri þjón­usta. Hún er hvorki bylt­ing­ar­kennd né ný­stár­leg hug­mynd. Hún hef­ur áður verið full­rann­sökuð og þótti ekki stand­ast gæðakröf­ur.

Til­lög­ur hóps­ins taka aðeins mið af þörf­um þeirra sem vilja ferðast með bíl. Þær taka mið af þeirri bíla­borg sem tók að þró­ast hér­lend­is kring­um 1960. Þær taka ekki mið af því að íbú­um höfuðborg­ar­svæðis­ins hef­ur fjölgað um 125% á síðustu sex­tíu árum. Þær taka mið af ríkj­andi viðhorf­um sjö­unda ára­tug­ar­ins, en ekki ríkj­andi viðhorf­um sam­tím­ans. Sér­fræðing­arn­ir segja hins veg­ar áhersl­ur sín­ar – á meira mal­bik og sam­göng­ur fyr­ir suma – til þess falln­ar að ná aukn­um ávinn­ingi.

Hvernig met­ur maður ávinn­ing?

Við inn­leiðingu breyt­inga á borg­ar­skipu­lagi er mik­il­vægt að kanna ávinn­ing í víðara sam­hengi. Til­lög­ur sér­fræðing­anna meta hins veg­ar aðeins ávinn­ing­inn af því að aka bif­reið hratt milli ólíkra borg­ar­hluta. Þær meta ekki ávinn­ing­inn af því að ferðast með öðrum hætti. Hóp­ur­inn met­ur ekki ávinn­ing­inn af því að búa í borg­ar­hverfi þar sem gott er að dvelja, held­ur aðeins ávinn­ing­inn af því að búa í borg­ar­hverfi sem gott er að yf­ir­gefa.

Borg­ar­lín­an og sam­hliða stokka­lausn­ir, munu leiða af sér marg­vís­leg­an ávinn­ing fyr­ir gang­verk og ásýnd borg­ar­inn­ar. Þær munu tryggja mann­vænna um­hverfi, heild­stæðari borg­ar­hverfi og fjöl­breytt­ari val­kosti. Lausn­irn­ar eru liður í eðli­legu þroska­ferli Reykja­vík­ur­borg­ar – enda ein­kenni þróaðra borga ekki að hinir efnam­inni ferðist með bíl, held­ur að hinir efna­meiri ferðist með al­menn­ings­sam­göng­um.

Að bjóða seg­ul­band

Sjald­an hafa breyt­ing­ar á sam­fé­lags­gerð og kyn­slóðum verið ör­ari. Tím­arn­ir breyt­ast á leift­ur­hraða – og nýj­um tím­um fylgja ný viðhorf. Það birt­ist glöggt í ný­leg­um mæl­ing­um á viðhorf­um til sam­gangna.

Síðustu ár hef­ur lang­stærst­ur hluti borg­ar­búa farið leiðar sinn­ar á bíl. Ný­leg­ar mæl­ing­ar sýna að 63% höfuðborg­ar­búa ferðast til vinnu sem bíl­stjór­ar á einka­bíl. Hins veg­ar sýna sömu mæl­ing­ar að aðeins 35% höfuðborg­ar­búa kjósa helst að ferðast með þeim hætti til vinnu. Þannig myndu um 55% íbú­anna helst vilja ferðast til vinnu á reiðhjóli, fót­gang­andi eða með strætó. Það rím­ar við þróun síðustu ára þar sem fjár­fest­ing í hjól­reiðastíg­um hef­ur leitt til þess að 75% fleiri fara nú leiðar sinn­ar á reiðhjóli en með al­menn­ings­vögn­um. Niðurstaðan sýn­ir glöggt að fjár­fest­ing í nýj­um sam­göngu­kost­um skil­ar ár­angri – jafn­vel í blautu og vinda­sömu Reykja­vík.

Borg­ar­skipu­lagið þarf að taka mið af breytt­um þörf­um. Við þurf­um að skapa um­hverfi sem ýtir und­ir nýja val­kosti og mæt­ir ósk­um íbúa. Við get­um ekki haldið áfram að bjóða land­línu þegar fólkið biður um farsíma. Við get­um ekki haldið áfram að bjóða seg­ul­band þegar fólkið biður um streym­isveit­ur.

Syst­ur í sam­göng­um

Nú ríf­legri öld frá því Henry Ford kynnti fyrsta fjölda­fram­leidda bíl­inn hef­ur gamanið aðeins kárnað. Flest­ar borg­ir heims glíma nú við bíla­fjölda sem sam­göngu­innviðir ráða illa við. Reykja­vík­ur­borg er þar eng­in und­an­tekn­ing. Um göt­ur borg­ar­inn­ar fara bíl­ar ríf­lega millj­ón ferðir dag­lega. Sam­tök iðnaðar­ins hafa áætlað að höfuðborg­ar­bú­ar sólundi um níu millj­ón klukku­stund­um í um­ferðartaf­ir ár­lega. Síðustu ár hef­ur bíl­um fjölgað meira en fólki í borg­inni. Mann­fjölda­spár gera ráð fyr­ir 70.000 nýj­um íbú­um á höfuðborg­ar­svæðinu næstu 20 árin. Ef bíla­eign eykst sam­hliða, á áður þekkt­um hraða, verður okk­ur vandi á hönd­um. Við þurf­um stefnu­breyt­ingu. Lausn sam­göngu­vand­ans mun ekki fel­ast í hraðbraut gegn­um Foss­vogs­dal­inn og mis­læg­um gatna­mót­um inn í Elliðaár­dal­inn. Lausn­in mun fel­ast í betra borg­ar­skipu­lagi, dreifðari at­vinnu­tæki­fær­um og auk­inni fjar­vinnu – en ekki síst breytt­um ferðavenj­um og fjöl­breytt­um val­kost­um.

Sam­göngusátt­máli höfuðborg­ar­svæðis­ins var und­ir­ritaður og samþykkt­ur í sept­em­ber 2019 af helsta for­ystu­fólki Sjálf­stæðis­flokks. Hann boðar bylt­ingu í sam­göng­um svæðis­ins. Hann kynn­ir til sög­unn­ar breiða fjár­fest­ingu í fjöl­breytt­um sam­göngu­kost­um. Hann er byggður á því að Borg­ar­lín­an, bíll­inn og reiðhjólið séu syst­ur, ekki fjend­ur – þrír ólík­ir far­ar­mát­ar sem sam­an munu leysa sam­göngu­vanda höfuðborg­ar­svæðis­ins. Hann er byggður á því að farþegum al­menn­ings­sam­gangna verði fjölgað, en áfram muni nærri 60% fólks fara leiðar sinn­ar á bíl. Sú hug­mynd að velja þurfi einn far­ar­máta til að not­ast við öll­um stund­um, allra sinna ferða, alla daga vik­unn­ar, er nú víkj­andi sjón­ar­mið. Framtíðin fel­ur í sér sveigj­an­leika.

Hug­rekki til breyt­inga

Við lif­um á spenn­andi umróts­tím­um sem kalla munu á breyt­ing­ar. Rétt eins og einka­bif­reið Henrys Ford mætti and­stöðu munu nýir sam­göngu­kost­ir alltaf vekja viðbrögð. Breyt­ing­ar munu alltaf vekja viðbrögð. Það hef­ur verið ein­kenn­is­merki sjálf­stæðismanna að geta staðist slík­an brot­sjó – að geta leitt á krefj­andi umróts­tím­um og sýnt staðfestu við inn­leiðingu breyt­inga.

Fortíðin er barn síns tíma. Framtíðin er viðfangs­efnið. Reykja­vík­ur­borg þarf að byggja á framtíðar­sýn sem er aðlaðandi fyr­ir fjöl­breytta ald­urs­hópa. Við þurf­um að varðveita sér­kenni okk­ar en gæta þess að þró­ast í takt við aðrar vest­ræn­ar borg­ir – að öðrum kosti verðum við und­ir í sam­keppni um ungt fólk og at­gervi. Við heill­um ekki ungt hæfi­leika­fólk með sex­tíu ára göml­um lausn­um. Við þurf­um að bjóða lif­andi borg­ar­um­hverfi, úr­val tæki­færa og fjöl­breytta val­kosti – í frjálsu sam­fé­lagi. Við þurf­um að fullþrosk­ast úr sveit í borg.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars 2021.