Mynd: kosning.is

Prófkjör í Norðvesturkjördæmi 16. og 19. júní

Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi ákvað á fundi sínum laugardaginn 20. mars að viðhafa prófkjör við uppröðun á framboðslista flokksins í kjördæminu dagana 16. og 19. júní nk.

Prófkjörið fer þannig fram að kjósendur merkja við fjóra frambjóðendur á listanum. Prófkjörið fer eftir prófkjörsreglum Sjálfstæðisflokksins og þátttaka heimil:

a) Öllum fullgildum meðlimum sjálfstæðisfélaganna í kjördæminu sem þar eru búsettir.

b) Þeim stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem eiga munu kosningarrétt í kjördæminu við kosningarnar og undirritað hafa inntökubeiðni í sjálfstæðisfélag í kjördæminu fyrir lok kjörfundar og teljast þar með komnir á flokksskrá.

Kjörnefnd mun á næstu dögum koma saman og ákveða framboðsfrest og annað í tengslum við prófkjörið. Á fundinum lýstu núverandi þingmenn flokksins, Haraldur Benediktsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður flokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, yfir framboði auk Teits Björns Einarssonar, varaþingmanns.

Fundurinn var vel sóttur, en á annað hundrað fulltrúar sátu fundinn sem fór fram á netinu. Sigríður Ólafsdóttir Víðidalstungu, var kjörin formaður kjördæmisráðs. Auk hennar voru kjörin í stjórn: Gísli Gunnarsson Skagafirði, Maggý Hjördís Keransdóttir Patreksfirði, Carl Jóhann Gränz Akranesi, Daníel Jakobsson Ísafirði, Þorsteinn Pálsson Borgarfirði, Sigríður Finsen Grundarfirði og Regína Valdimarsdóttir Skagafirði.

Varamenn eru: Steinunn Gunnsteinsdóttir Sauðárkróki, Kristín Hálfdánsdóttir Ísafirði, Magnús Brandsson Akranesi, Halldóra H. Gestsdóttir Litlu-Giljá, Hjörtur Sigurðarson Patreksfirði, Ármann Sigurðsson Búðardal, Ólafur Pálsson Haukatungu og Haraldur Jóhannesson Enni

Auk þess var kosið í miðstjórn, flokksráð og í kjörnefnd vegna komandi kosninga til Alþingis.