Mikilvæg stefnumörkun í málefnum norðurslóða

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra:

Mál­efni norður­slóða eru áherslu­atriði í ís­lenskri ut­an­rík­is­stefnu enda snerta þau hags­muni Íslands með marg­vís­leg­um hætti. Stefna Íslands í mála­flokkn­um bygg­ist á þings­álykt­un frá 2011 og síðan hef­ur vita­skuld mikið vatn runnið til sjáv­ar – bók­staf­lega raun­ar, því hlýn­un lofts­lags er hraðari á norður­slóðum en víðast hvar og af­leiðing­arn­ar birt­ast meðal ann­ars í bráðnun jökla og haf­íss. Und­an­far­in tvö ár hef­ur Ísland einnig gegnt veiga­miklu hlut­verki með for­mennsku í Norður­skauts­ráðinu, sem er mik­il­væg­asti vett­vang­ur sam­starfs og sam­ráðs um mál­efni svæðis­ins.

Ný norður­slóðastefna

Í ljósi þessa var orðið tíma­bært að ráðast í end­ur­skoðun á norður­slóðastefn­unni og í því skyni skipaði ég þing­manna­nefnd með til­nefn­ing­um frá öll­um þing­flokk­um. Nefnd­in hef­ur nú lagt loka­hönd á til­lög­ur sín­ar og það er mér fagnaðarefni að veita þeim viðtöku síðar í dag á fundi með for­manni henn­ar, Bryn­dísi Har­alds­dótt­ur. Á grund­velli til­lagna nefnd­ar­inn­ar hyggst ég leggja fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um nýja norður­slóðastefnu sem miðast að því að tryggja hags­muni Íslands í víðum skiln­ingi.

Það færi vel á því að Alþingi sam­einaðist um nýja norður­slóðastefnu um líkt leyti og for­mennsku­tíma­bil Íslands í Norður­skauts­ráðinu tek­ur enda. Þrátt fyr­ir að heims­far­ald­ur­inn hafi óhjá­kvæmi­lega sett mark sitt á for­mennsk­una og vinnu Norður­skauts­ráðsins und­an­farið ár hef­ur tek­ist með ágæt­um að laga starfið að breytt­um aðstæðum.

Burt með drauga­net

Fyrr í þess­ari viku ávarpaði ég fund emb­ætt­is­manna­nefnd­ar ráðsins sem staðið hafði til að halda á Ak­ur­eyri en færa þurfti á netið líkt og marga aðra fundi og viðburði í tengsl­um við for­mennsk­una. Þar á meðal var alþjóðleg ráðstefna um plast­meng­un í norður­höf­um sem átti upp­haf­lega að fara fram í Reykja­vík síðastliðið vor en var hald­in á net­inu nú fyrr í þess­um mánuði með þátt­töku á fjórða hundrað manns víða að úr heim­in­um. Raun­ar má segja að það hafi átt vel við að um netráðstefnu hafi verið að ræða því þar til­kynnt­um við ein­mitt um að Ísland væri nú komið í hóp ríkja sem berj­ast gegn svo­kölluðum drauga­net­um, yf­ir­gefn­um og týnd­um veiðarfær­um í haf­inu. Heims­far­ald­ur­inn kem­ur þannig ekki í veg fyr­ir að við get­um tek­ist á við brýn úr­lausn­ar­efni eins og vernd­un hafs­ins.

Vel heppnuð for­mennska Íslands

Vinnu­hóp­ar Norður­skauts­ráðsins hafa ótrauðir haldið áfram starfi sínu og þótt taf­ir hafi orðið á fram­kvæmd ein­stakra verk­efna vegna far­ald­urs­ins hef­ur að mestu leyti tek­ist að fram­fylgja for­mennsku­áætlun Íslands. Sam­kvæmt henni hef­ur á for­mennsku­tíma­bil­inu verið lögð áhersla á þrjú meg­in­svið: Mál­efni hafs­ins, lofts­lags­mál og end­ur­nýj­an­lega orku, og fólk og sam­fé­lög á norður­slóðum. Við þetta má svo bæta efl­ingu Norður­skauts­ráðsins sjálfs. Sem dæmi um verk­efni á þess­um sviðum má nefna sér­staka veffundaröð emb­ætt­is­manna­nefnd­ar­inn­ar um mál­efni hafs­ins sem hald­in var síðastliðið haust. Verk­efn­um um jafn­rétt­is­mál á norður­slóðum og um mögu­leika til ný­sköp­un­ar og verðmæta­aukn­ing­ar í bláa líf­hag­kerf­inu, sem Ísland hef­ur leitt inn­an vinnu­hóps ráðsins um sjálf­bæra þróun, verður einnig lokið sam­kvæmt áætl­un, svo dæmi sé tekið.

For­mennsku­tíma­bili Íslands í Norður­skauts­ráðinu lýk­ur með ráðherra­fundi sem hald­inn verður í Reykja­vík 19.-20. maí næst­kom­andi. Vegna heims­far­ald­urs­ins er því miður ljóst að meiri­hluti vænt­an­legra þátt­tak­enda verði að fylgj­ast með fund­in­um í gegn­um fjar­funda­búnað. Ég er hins veg­ar bjart­sýnn á að aðstæður leyfi að ráðherr­ar norður­skauts­ríkj­anna og full­trú­ar frum­byggja­sam­tak­anna sem aðild eiga að ráðinu geti komið til fund­ar­ins í eig­in per­sónu. Það verður mik­il­vægt tæki­færi til að treysta enn frek­ar hið góða og upp­byggi­lega sam­starf á vett­vangi Norður­skauts­ráðsins um leið og við af­hend­um Rúss­um for­mennsku­keflið sem við tók­um við úr hendi Finna fyr­ir tveim­ur árum. Þar með inn­sigl­um við enn á ný þetta ein­staka sam­starf þeirra ríkja og þjóða sem hags­muna eiga að gæta á norður­slóðum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars 2021.