„Megum ekki festast í hugsunarhætti faraldursins“

Fólk sem er bólusett og búsett utan Schengen-svæðisins má nú koma til Íslands framvísi það gildu vottorði um slíkt. Frá þessu var greint eftir fund ríkisstjórnarinnar í vikunni. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ræddi breytingarnar í Pólitíkinni en hlusta má á þáttinn hér.

Þetta þýðir að þessi hópur er undanþeginn sóttvarnarráðstöfunum á landamærunum en vonir standa til að þetta muni hleypa auknu lífi í ferðaþjónustuna og fleiri fá vinnuna á nýjan leik.  Dómsmálaráðherra rakti hvaða þættir voru metnir þegar ákvörðunin var tekin og sagði að bæði efnahagslegir og heilsufarslegir hagsmunir af völdum veirunnar hefðu verið vegnir.

„Við megum ekki festast í hugsunarhætti faraldursins heldur verðum við að horfa með opnum huga til bjartari og betri framtíðar,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í þessu sambandi.