Úrræðin að megninu til runnið til heimilanna

Samkvæmt greiningu Viðskiptaráðs á úrræðum stjórnvalda vegna COVID-19 hafa úrræðin að megninu til runnið til heimila eða sem nemur 81 milljarði króna. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Viðskiptaráðs – hér.

Á sama tíma runnu 51 milljarður til fyrirtækja í landinu. Úrræðin eru afar misjöfn, t.d. lán í samanburði við beinar peningagreiðslur. Þannig fóru 48 milljarðar króna sem rekja má til faraldursins í beinum peningagreiðslum til heimila, nærri því fimmföld sú fjárhæð sem rann til fyrirtækja.

Einnig kemur fram að kreppan hafi almennt séð lagst af meiri þunga á fyrirtæki en heimili. Annars vegar vegna þess að ráðstöfunartekjur heimila jukust almennt um 5% milli ára fyrsta hálfa ár faraldursins en til samanburðar drógust tekjur fyrirtækja saman um 8% milli ára á síðasta ári. Hins vegar nam greiðsluhlé lána hjá fyrirtækjum 27,1 ma.kr. 17. febrúar sl. til samanburðar við 7,4 ma.kr. hjá heimilum – nærri því fjórfaldur munur.