Öflug málafylgja á mannréttindasviðinu

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra:

Mann­rétt­indi eru einn af horn­stein­um ís­lenskr­ar ut­an­rík­is­stefnu og þess vegna töl­um við í ut­an­rík­isþjón­ust­unni hvarvetna fyr­ir mann­rétt­ind­um, bæði á vett­vangi alþjóðastofn­ana og í tví­hliða sam­skipt­um við önn­ur ríki.

Í þess­um efn­um er mann­rétt­indaráð Sam­einuðu þjóðanna mik­il­væg­asti vett­vang­ur­inn. Fjög­ur ár eru síðan ég ávarpaði ráðið fyrst­ur ís­lenskra ut­an­rík­is­ráðherra og í síðustu viku flutti ég þar ræðu í fimmta sinn. Reynsl­an sýn­ir að með skel­eggri fram­göngu get­um við vel látið gott af okk­ur leiða þannig að eft­ir sé tekið.

Mik­il­væg­asta verk­efnið

Ísland átti sæti í mann­rétt­indaráðinu á ár­un­um 2018-2019 en um er að ræða eitt mik­il­væg­asta verk­efni sem ís­lenskri ut­an­rík­isþjón­ustu hef­ur verið falið. Þótt kjör Íslands hafi borið brátt að náðum við öll­um þeim meg­in­mark­miðum sem lagt var upp með. Þar bar hæst þegar Ísland leiddi hóp 36 ríkja í gagn­rýni á stjórn­völd í Sádi-Ar­ab­íu og skoraði á þau að bæta mann­rétt­indi í land­inu, ekki síst rétt­indi kvenna. Þetta var í fyrsta sinn sem staða mann­rétt­inda í Sádi-Ar­ab­íu var tek­in fyr­ir með þess­um hætti í mann­rétt­indaráðinu og vakti fyr­ir vikið heims­at­hygli. Mann­rétt­indaráðið samþykkti einnig að okk­ar frum­kvæði álykt­un sem fól í sér að tek­in yrði sam­an skýrsla um gróf mann­rétt­inda­brot á Fil­ipps­eyj­um.

Þótt erfitt sé að meta bein­an ár­ang­ur af mála­fylgju af þess­um toga er það staðreynd að í kjöl­far þess­ar­ar gagn­rýni fundu stjórn­völd á hvor­um stað sig knú­in til að bregðast við. Hvað Fil­ipps­eyj­ar varðar þá átt­um við í kjöl­far þess að um­rædd skýrsla kom út sam­starf við stjórn­völd þar um nýja álykt­un sem fól í sér að þau eigi sam­starf við skrif­stofu mann­rétt­inda­full­trúa Sam­einuðu þjóðanna um úr­bæt­ur. Að því er varðar Sádi-Ar­ab­íu bár­ust þau gleðitíðindi fyr­ir skemmstu að stjórn­völd leystu úr haldi kunna bar­áttu­konu fyr­ir mann­rétt­ind­um, Loujain al-Hat­hloul. Henn­ar helsti glæp­ur var að tala fyr­ir því að kon­ur fengju að aka bif­reiðum.

Jafn­rétt­is- og hinseg­in­mál í for­grunni

Á vett­vangi mann­rétt­indaráðsins lögðum við líka áherslu á að leiða í já­kvæðan far­veg umræður um brott­hvarf hins sér­staka dag­skrárliðar mann­rétt­indaráðsins um mál­efni Ísra­els og Palestínu en ekk­ert annað ríki en Ísra­el þarf að sæta því að heyra und­ir sér­stak­an dag­skrárlið, hvorki Venesúela né Mjan­mar, svo dæmi séu tek­in. Þetta ójafn­vægi í um­fjöll­un ráðsins hafa gagn­rýn­end­ur þess ein­mitt oft hent á lofti til að rök­styðja hvers vegna ekki eigi að virða það viðlits.

Í nú­ver­andi fund­ar­lotu ráðsins leiðum við nú í fyrsta sinn hóp ríkja sem legg­ur fram álykt­un um stöðu mann­rétt­inda í Íran en með henni er tryggt að sér­stak­ur skýrslu­gjafi ráðsins um þau mál hef­ur áfram umboð til starfa. Þá hef­ur þegar farið fram sér­stök umræða um stöðu mála í Mjan­mar og tók Ísland þar drjúg­an þátt.

Jafn­rétt­is­mál eru ætíð of­ar­lega á dag­skrá í mál­flutn­ingi okk­ar, í mann­rétt­indaráðinu sem ann­ars staðar, og við töl­um líka skýrt og skor­in­ort um rétt­indi hinseg­in fólks. Við tök­um þátt í starfi sér­staks kjarna­hóps ríkja um LG­BTI-mál­efni í mann­rétt­inda­nefnd alls­herj­arþings Sam­einuðu þjóðanna, sem er auðveld­ara um að tala en í að kom­ast, og við gerðumst líka aðilar að Equal Rights Coaliti­on, banda­lagi ríkja sem beit­ir sér fyr­ir rétt­ind­um hinseg­in fólks. Þá höf­um við gerst aðilar að fjöl­miðlafrels­is­banda­lagi sem Bret­land og Kan­ada höfðu frum­kvæði að því að stofna sum­arið 2019 (Media Freedom Coaliti­on) og erum við þar virk­ir þátt­tak­end­ur síðan.

Leiðarljós þró­un­ar­sam­vinnu

Mann­rétt­indi eru enn frem­ur höfð að leiðarljósi fram­veg­is í allri þró­un­ar­sam­vinnu Íslands og auk­in áhersla lögð á mál­svarastarf í sam­starfs­ríkj­um okk­ar, m.a. með til­liti til rétt­inda­stöðu hinseg­in fólks. Í þessu sam­bandi má nefna að við höf­um beint fjár­mun­um til verk­efn­is í þágu hinseg­in fólks, Free & Equal, sem skrif­stofa mann­rétt­inda­full­trúa Sam­einuðu þjóðanna stend­ur fyr­ir. Við höf­um einnig styrkt Global Equality Fund en á vett­vangi hans taka líkt þenkj­andi ríki hönd­um sam­an og styðja við mál­svara mann­rétt­inda og grund­vall­ar­rétt­inda hinseg­in fólks í þró­un­ar­lönd­um.

Þegar ég lít yfir far­inn veg get ég ekki annað sagt en að ég sé stolt­ur af frammistöðu starfs­fólks ut­an­rík­isþjón­ust­unn­ar og þeim ár­angri sem náðst hef­ur. Ég er einnig stolt­ur af því hversu góðan málstað Ísland hef­ur að verja og bein­skeytt­an boðskap að flytja, boðskap sem bygg­ist á trúnni á al­gild mann­rétt­indi sem all­ir eiga að njóta, óháð upp­runa, trú eða húðlit. Ég er sann­færður um að í ná­inni framtíð eig­um við eft­ir að ná að stíga enn fleiri skref sam­an í rétta átt.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. mars 2021.