Kraftur í sérhverju barni

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi:

Á dög­un­um var frum­sýnd áhrifa­rík heim­ild­ar­mynd Sylvíu Erlu Mel­sted um les­blindu. Heim­ild­ar­mynd­in seg­ir sögu ein­stak­linga sem mætt hafa áskor­un­um og mót­læti inn­an skóla­kerf­is­ins. Viðmæl­end­ur virt­ust eiga það sam­merkt að hafa af seiglu og áræði fundið draum­um sín­um far­veg, þrátt fyr­ir áskor­an­ir les­blind­unn­ar. All­ar frá­sagn­ir eiga þó ekki svo far­sæl­an endi. Heim­ild­ar­mynd­in und­ir­strik­ar mik­il­vægi þess að skóla­kerfið tryggi ein­stak­lings­miðaða nálg­un – að öll börn fái jöfn tæki­færi til að efla og þroska hæfi­leika sína.

Talið er að allt að 20% fólks glími við ein­hvers kon­ar les­blindu. Les­blinda er sér­tæk þroskarösk­un á náms­hæfni í lestri, skrift, staf­setn­ingu eða stærðfræði, auk þess sem hún get­ur birst í slæmu tíma­skyni og tak­markaðri rat­vísi. Þeir sem glíma við les­blindu sýna þó gjarn­an framúrsk­ar­andi færni á öðrum sviðum – svo sem í verk­leg­um grein­um og list­rænni sköp­un. Það er mik­il­vægt að skóla­kerfið virki kraft­inn í sér­hverju barni – tryggi fjöl­breytt námsval og viðeig­andi stuðning svo öll börn finni hvatn­ingu til per­sónu­legra fram­fara.

Íslensku skóla­kerfi er vandi á hönd­um. Við erum und­ir OECD-meðaltali í öll­um mæld­um náms­grein­um og mæl­umst verst allra Norður­landaþjóða. Ísland er á niður­leið í stærðfræðilæsi, lesskiln­ingi og vís­inda­læsi sam­kvæmt niður­stöðum PISA-kann­ana. Dreng­ir eru helm­ingi lík­legri en stúlk­ur til að flosna upp úr námi og um þriðjung­ur drengja get­ur ekki lesið sér til gagns að loknu grunn­skóla­námi. Um þriðjung­ur fram­halds­skóla­nema lýk­ur ekki námi og geðræn van­líðan ung­menna hef­ur auk­ist síðustu ár. Hér­lend­is er lægsta mennt­un­arstig allra Norður­landaþjóða og mest­ur mun­ur á getu nem­enda af er­lend­um upp­runa og inn­lend­um. Sér­tæk­um þörf­um er ekki mætt. Staðan er al­var­leg.

Íslenskt skóla­kerfi hef­ur brugðist fjölda barna. Við drög­umst aft­ur úr í sam­an­b­urði þjóða. Ætli Íslend­ing­ar að standa fremst­ir í efna­hags­leg­um og fé­lags­leg­um sam­an­b­urði þarf að lyfta grett­i­staki í mennta­mál­um. Ætli skóla­kerfið að virkja sér­hvern ein­stak­ling til þátt­töku í okk­ar sam­fé­lagi þarf að mæta ólík­um þörf­um – tryggja fjölþætt­ar lausn­ir og fjöl­breytt náms­mat – meiri hreyf­ingu og aukið vægi list- og verk­greina í skóla­starfi.

Ég trúi því að sér­hvert barn hafi eitt­hvað mik­il­vægt fram að færa – að eitt verðug­asta verk­efni skóla­kerf­is­ins verði ávallt að tryggja öll­um börn­um jöfn tæki­færi til að leita hæfi­leika sinna – og efla með þeim sjálfs­traust til að skapa úr hæfi­leik­um sín­um tæki­færi og verðmæti. Það bygg­ist á trú minni á ein­stak­ling­inn og sam­fé­lag þar sem eng­inn er skil­inn eft­ir.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. mars 2021.