Grundartangi framtíðarhöfn vöruflutninga

Haraldur Benediktsson, alþingismaður:

Það var efna­hags­legu sjálf­stæði Íslands mik­il­vægt þegar haf­ist var handa við bygg­ingu gömlu hafn­ar­inn­ar í Reykja­vík á ár­un­um 1913-1917. Þróun borg­ar­inn­ar, stærri skip og aukn­ir flutn­ing­ar leiddu síðar til þess að meg­in­gátt flutn­inga færðist í Sunda­höfn þar sem hafn­ar­svæðið hef­ur þró­ast frá því um 1970. Fyr­ir um 25 árum var rætt um stækk­un hafn­ar­svæðis­ins upp í Geld­inga­nes og Eiðsvík, en hætt var við þau áform árið 2004 þegar Reykja­vík­ur­borg og sveit­ar­fé­lög á norður­strönd Hval­fjarðar sam­einuðu hafn­ir á svæðinu í Faxa­flóa­hafn­ir.

Eitt af leiðarljós­un­um þá var að nýta kosti Grund­ar­tanga­hafn­ar til auk­inna flutn­inga. Sterk­ir innviðir í höfn­um eru jafn mik­il­væg­ir nú og í upp­hafi 20. ald­ar þar sem Ísland er áfram háð inn- og út­flutn­ingi á varn­ingi og fram­leiðslu sjó­leiðina. Um margt er staðsetn­ing Sunda­hafn­ar hag­kvæm, m.a. út frá um­hverf­is­leg­um sjón­ar­miðum þar sem meg­in­hluti neyslu­varn­ings sem þangað er flutt­ur fer stutt­ar leiðir til neyt­enda.

Hins veg­ar er ljóst að með þróun borg­ar og ákalli um lagn­ingu Sunda­braut­ar er mik­il­vægt að nýta kosti hafna við Faxa­flóa þar sem horft verði til langr­ar framtíðar varðandi þróun sjó­flutn­inga. Þar verður m.a. að horfa til veg­teng­inga við hafn­ar­svæði, mögu­legt bak­land farm­svæða og hag­kvæmni við gerð viðlegu­bakka. Þess­ir þætt­ir voru hafðir að leiðarljósi þegar ákveðið var að flytja flutn­inga­starf­sem­ina úr gömlu höfn­inni í Sunda­höfn og eins þegar mik­il­væg­ir innviðir nýrr­ar flutn­inga­hafn­ar verða metn­ir til framtíðar.

Þegar hafn­ar­kost­ir á Suðvest­ur­horn­inu eru skoðaðir má sjá að Grund­ar­tangi býr að öll­um þeim kost­um sem öfl­ug flutn­inga­höfn þarf að hafa, s.s. ná­lægð við meg­in­markaðssvæði, land­rými fyr­ir farm­svæði, sterka innviði í raf­magni, mögu­leika á hag­kvæmri bakka­gerð og góðri veg­teng­ingu við höfuðborg­ar­svæðið, sem með vega­bót­um á Kjal­ar­nesi, Sunda­braut og nýj­um Hval­fjarðargöng­um munu styrkja Grund­ar­tanga enn frek­ar sem hafn­ar- og at­vinnusvæði.

Í dag eru yfir 300 skipa­kom­ur til Grund­ar­tanga á hverju ári og höfn­in get­ur tekið á móti skip­um með mik­illi djúpristu. Um höfn­ina fara liðlega tvær millj­ón­ir tonna af hrá­efni og fram­leiðslu fyr­ir­tækj­anna á svæðinu. Hafn­ar­bakk­ar eru nú þegar um 850 metr­ar og hag­kvæmt að lengja viðleg­una um að minnsta kosti 700 metra til viðbót­ar. Dýpi er nægj­an­legt fyr­ir viðlegu djúpristra skipa. Þess­ir staðar­kost­ir skipa Grund­ar­tanga í fremstu röð þegar rætt er um til­færslu jafn mik­il­vægra innviða og flutn­inga­hafn­ar.

Mik­il­vægt er, þegar ákvörðun um fjár­fest­ingu í hafn­ar­svæðum er tek­in, að horft sé til langr­ar framtíðar til þess að sú mikla fjár­fest­ing skili sér. Á Grund­ar­tanga er unnt að þróa hafn­ar­svæðið í áföng­um og án þess að ráðast í dýr­ar fram­kvæmd­ir við breyt­ing­ar vegna dýp­is, land­gerðar og skjólg­arða. Það sýn­ir sig að þróun borg­ar og byggða krefst þess að skipu­leggja þarf mik­il­væga innviði til langr­ar framtíðar.

Fjár­fest­ing í höfn­um er einn lyk­ilþátt­ur­inn í upp­bygg­ingu at­vinnu­lífs á Íslandi, aðgangi þjóðar­inn­ar að er­lend­um mörkuðum og snurðulaus­um flutn­ing­um á nauðsynja­vöru til lands­ins.

Þegar skyn­sam­leg staðsetn­ing flutn­inga­hafn­ar er met­in verða all­ir lyk­ilþætt­ir góðrar hafn­ar að vera til staðar og þar kem­ur Grund­ar­tangi sterk­ur inn sem traust­ur val­kost­ur til framtíðar. Lagn­ing Sunda­braut­ar fær­ir hana nær meg­in­markaðssvæði Íslands. Aðrir val­kost­ir hafa sína kosti og galla – en ef litið er til þró­un­ar á skipa­kosti og ná­lægðar við markaðssvæði – er hún ör­ugg­ur kost­ur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. mars 2021.