Verkefni sem við tökum alvarlega

Áslaug Arna Sigurbjörndóttir, dómsmálaráðherra:

Skipu­lögð brot­a­starf­semi hef­ur verið að fær­ast í auk­ana hér á landi á síðustu árum. Við því þarf að bregðast. Að mati lög­regl­unn­ar eru nú starf­andi 15 hóp­ar í land­inu sem má flokka sem skipu­lagða brota­hópa. Marg­ir þeirra stunda lög­leg­an rekst­ur af ýmsu tagi sam­hliða lög­brot­un­um. Lög­lega starf­sem­in er þá nýtt til að þvætta fjár­muni eða til að stuðla að frek­ari glæp­um. Hóp­arn­ir eru af ýmsu þjóðerni og starfa flest­ir bæði inn­an­lands og utan.

Á allra síðustu árum hef­ur veru­leg­um fjár­mun­um verið varið til lög­regl­unn­ar til að bregðast við þess­ari ógn. Mikl­ar fram­far­ir hafa einnig orðið á lagaum­gjörð og fram­kvæmd í tengsl­um við aðgerðir gegn pen­ingaþvætti, sem er órjúf­an­leg­ur hluti hvers kyns glæp­a­starf­semi. Síðastliðið haust fól ég rík­is­lög­reglu­stjóra að efla sam­starf og sam­hæf­ingu inn­an lög­reglu í því skyni að vinna mark­visst gegn skipu­lagðri brot­a­starf­semi. Nauðsyn­legt er að sam­nýta mannafla og búnað lög­reglu­embætt­anna og auka skil­virkni á þessu sviði. Íslenska lög­regl­an þarf að hafa getu og þekk­ingu til að tak­ast á við um­fangs­mik­il, flók­in og þaul­skipu­lögð mál.

Sér­stak­ur stýri­hóp­ur hef­ur unnið öt­ul­lega und­an­farna mánuði að sam­hæf­ingu aðgerða, auknu sam­starfi á milli lög­reglu­embætta, alþjóðlegri sam­vinnu og gagn­kvæmu sam­starfi við önn­ur stjórn­völd og stofn­an­ir. Í stýri­hópn­um sitja full­trú­ar stærstu lög­reglu­embætt­anna sem hafa skuld­bundið sig til að setja mála­flokk­inn í for­gang og verja til þess nauðsyn­leg­um mannafla og búnaði. Þá hef­ur rík­is­lög­reglu­stjóri sett verklags­regl­ur um sam­vinnu og sam­starf lög­reglu um aðgerðir gegn skipu­lagðri brot­a­starf­semi. Loks má nefna að 350 millj­ón­um króna hef­ur verið ráðstafað í sér­stak­an lög­gæslu­sjóð til að efla lög­regl­una í aðgerðum gegn skipu­lagðri brot­a­starf­semi. Lög­regl­an hef­ur nú þegar greint ít­ar­lega og for­gangsraðað þörf fyr­ir ýms­an búnað til að standa eins vel og kost­ur er að slík­um rann­sókn­um.

Fram­an­greint sam­starf er einn liður í þeirri stefnu­mörk­un sem lá að baki stofn­un­ar lög­regluráðs sem ég lagði áherslu á að yrði sett á fót í upp­hafi síðasta árs. Það fel­ur í sér að lög­regl­an í land­inu komi í aukn­um mæli fram sem ein sam­hæfð liðsheild. Und­ir for­ystu rík­is­lög­reglu­stjóra fund­ar ráðið nú reglu­lega um mál lög­regl­unn­ar.

Brýnt er að ís­lenska lög­regl­an – og í raun ís­lenska rétt­ar­kerfið – hafi burði, getu og þekk­ingu til að tak­ast á við þau flóknu verk­efni sem við blasa í harðnandi heimi skipu­lagðrar glæp­a­starf­semi. Viðfangs­efn­in eru fjöl­breytt og eft­ir til­vik­um flók­in. Þetta er verk­efni sem verður að nálg­ast af al­vöru og festu, það er það sem við erum að gera – ekki aðeins til skemmri tíma held­ur einnig þegar til lengri tíma er litið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. febrúar 2021.