Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs og formaður Hægriflokksins, Søren Pape Poulsen, formaður Íhaldsflokksins í Danmörku, Ulf Kristersson, formaður Moderaterna í Svíþjóð og Petteri Orpo, formaður Kokoomus í Finnlandi:
Heimsfaraldurinn hefur reynt mikið á allt alþjóðasamstarf og ljóst að sameiginlegt átak þarf til að komast yfir krísuna. Á það jafnt við um bóluefni, bata í ferðaþjónustu og forsendur fyrir landamæraviðskiptum. Norrænt samstarf hefur löngum verið afar mikilvægt í löndunum okkar og það mun sýna sig enn betur þegar heimsfaraldrinum lýkur, skrifa Bjarni Benediktsson, Erna Solberg, Søren Pape Poulsen, Ulf Kristersson og Petteri Orpo.
Norðurlöndin munu halda sterkri stöðu sinni í alþjóðasamkeppni þegar hjólin fara að snúast á ný eftir að heimsfaraldrinum lýkur. Þá verða löndin að vera vel í stakk búin til að bregðast sameiginlega við nýjum áskorunum. Á undanförnu ári höfum við séð hvernig einstaklingar og fyrirtæki hafa orðið fyrir barðinu á landamærahindrunum og ferðatakmörkunum sem komu í kjölfar heimsfaraldursins. Á næstu árum verður mikilvægara en nokkru sinni að setja norrænt samstarf í algjöran forgang. Ferðir til vinnu og viðskipti yfir landamæri eiga að vera eðlilegur þáttur í daglegu lífi fólks í löndunum. Þess vegna verðum við að ná tökum á heimsfaraldrinum og tryggja bóluefni fyrir almenning.
Norrænt samstarf er ekki aðeins mikilvægt fyrir okkur íbúa Norðurlanda, heldur lítur Evrópa og umheimurinn allur til okkar og samstarfs landanna á ýmsum sviðum. Við viljum standa vörð um sterka stöðu Norðurlanda til framtíðar og bendum hér á þrjár stoðir til að hleypa nýju lífi í norræna samvinnu.
1. Norrænt samstarf um atvinnusköpun og hagvöxt
Aukin alþjóðleg samkeppni krefst sífellt meiri aðlögunarhæfni og skýrrar áherslu á nýsköpun og samkeppnisfærni í norrænu samstarfi. Öflugir innviðir á Norðurlöndum með ferðafrelsi í forgrunni eru mikilvægir fyrir allan hagvöxt, ekki síst á landamærasvæðum.
Efnahagslegt frelsi og umbætur til að auka samkeppnishæfni er það sem við stefnum að, ekki síst eftir að heimsfaraldri lýkur. Þá er algjört lykilatriði að löndin verði áfram aðlaðandi fyrir fjárfestingar í nýrri tækni. Ábyrg fjármálstefna, hátt atvinnustig og samkeppnisfært atvinnulíf eru sameiginleg markmið landanna.
Mikilvægt sameiginlegt verkefni er að varðveita samkeppnisfærni, þróun og gagnsæi á innri markaði Evrópusambandsins. Norræn aðildarríki Evrópusambandsins verða að láta að sér kveða í málum sem varða mótun fjármálastefnu og frjáls viðskipti.
2. Norðurlöndin leiðandi í grænum umskiptum
Ætli Norðurlöndin að halda leiðandi stöðu sinni verðum við einnig í framtíðinni að geta framleitt hreina raforku fyrir hagkerfi og samfélög sem eru óðum að rafvæðast. Norrænt samstarf um rannsóknir og innviði er mikilvægur þáttur í að hraða þeirri þróun.
Loftslagsmálin eru málaflokkur þar sem Norðurlöndin geta haldið öðrum Evrópulöndum við efnið, til dæmis þegar kemur að kolefnisgeymslu. Norræn aðildarríki Evrópusambandsins verða að beita sér fyrir því að kröfur verði hertar í viðskiptum með losunarheimildir innan ESB, að loftslagsmarkmiðunum verði fylgt markvisst eftir og að loftslagsávinningur viðreisnarsjóðsins verði sem mestur. Flokkuninni verður að haga á þá leið að jarðefnalaus orkuframleiðsla og skógrækt falli undir sjálfbærar fjárfestingar.
3. Norðurlönd sem veita öryggi
Bæta verður samhæfingu á neyðarviðbúnaði og birgðum fyrir mögulegar krísur framtíðar og verður það mikilvægt viðfangsefni í dýpkuðu norrænu samstarfi. Skilvirkni í samstarfi verður einnig að einkenna samskipti yfirvalda landanna.
Þá er norrænt samstarf í varnarmálum mikilvægur vettvangur til að skapa langtímaöryggi á svæðinu. Norræn samvinna og ekki síst samstarf Norðurlanda við Eystrasaltsríkin er mikilvægt á tímum þegar nýjar áskoranir í öryggismálum blasa við á norðurslóðum og í Eystrasalti. Hlutverk og viðvera NATO í okkar hluta álfunnar er mikilvægasta skrefið til að tryggja frið, stöðugleika og velmegun í löndunum. Samstarf um mál sem varða fjölþátta- og netógnir þarf að dýpka.
Ekki má líta fram hjá getu Norðurlandanna til að taka þátt í gerð alþjóðlegra viðmiða og staðla sem byggjast á gildum og hagsmunum landanna. Þá getu mætti nýta enn betur með fleiri samnorrænum aðgerðum í samskiptum við erlend ríki. Við berum öll ábyrgð á að efla réttarríkið, lýðræði og mannréttindi.
Öflugt samstarf landanna á komandi árum mun skipta sköpum fyrir velgengni svæðisins í heild. Afnema verður hindranir sem myndast hafa milli landanna og efla samheldni á svæðinu. Við verðum að standa vörð um hagsmuni og gildi landanna. Við, leiðtogar hófsamra hægriflokka á Norðurlöndum, tökum þessum verkefnum af mikilli alvöru.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. mars 2021. Hún birtist einnig í Berlingske tidende í Danmörku, Dagens industri í Svíþjóð, NRK í Noregi og Hufvudstadsbladet í Finnlandi.