Spilling og traust

Vilhjálmur Bjarnason skrifar:

Von er lík­lega með feg­urstu orðum ís­lenskr­ar tungu. Þegar svo al­var­leg­ur úr­sk­urður um feg­urð er kveðinn upp er rétt að staðsetja fal­legt orð meðal annarra til­finn­inga. Sá er þetta rit­ar staðset­ur von­ina sem þrá milli sárs­auka og sátt­ar­gjörðar, eft­ir at­vik­um með fyr­ir­gefn­ingu.

Á sama veg er spill­ing með nei­kvæðustu orðum ís­lenskr­ar tungu. Enn frem­ur er traust von um sann­girni. En sæl­ir eru þeir sem aldrei festa von sína á einu fram­ar öðru; þeim bregst fátt.

Þá má spyrja hvort lág­ir stýri­vext­ir séu al­gild­ur mæli­kv­arði á traust til seðlabanka. Lág­ir stýri­vext­ir kunna að vera vís­bend­ing um aðstæður fyr­ir spill­ingu.

Úrsk­urður um spillt sam­fé­lag

Ný­lega kváðu tveir huldu­menn upp hug­læg­an úr­sk­urð um spill­ingu meðal okk­ar hinna. Það var hraust­lega gert. „Sá yðar, sem synd­laus er, kasti fyrst­ur steini á hana.“ Svo seg­ir í Jó­hann­es­arguðspjalli að Frels­ar­inn hafi sagt þegar kona sem var tal­in hafa drýgt hór var færð fyr­ir hann. Al­mennt er talið að menn eigi ein­fald­an hór við sam­visku sína. Það að klína hóri og spill­ingu upp á heila þjóð nálg­ast að bera ljúg­vitni gegn ná­unga sín­um.

Er það spill­ing hjá stjórn­völd­um að staldra við stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar sem hafa farið í gegn­um óskilj­an­legt ferli og skoðana­könn­un sem gerð var í op­in­berri þjóðar­at­kvæðagreiðslu? Get­ur þrá­hyggja ein­hverra um stjórn­ar­skrá verið til­efni til al­tæks úr­sk­urðar um spill­ingu annarra í sam­fé­lagi?

Það má einnig vera að sá sem treyst­ir yf­ir­völd­um sé ekki maður! Því verði manns­brag­ur á úr­sk­urðum um spill­ingu!

Hug­lægt og hlut­lægt

Það er erfitt að kveða upp hug­læga úr­sk­urði án þess að hafa hlut­læga mæli­kv­arða. Tveir val­in­kunn­ir snill­ing­ar geta ekki lagt mat á verðþróun án hlut­lægs mats. Það kunna að vera að skekkj­ur og bjög­un í hefðbund­inni verðbólgu­mæl­ingu. En bjög­un­in minnk­ar veru­lega þegar breyt­ing­in er mæld á hlut­læg­an hátt.

Senni­lega er verðbólga ná­lægt því að vera hlut­læg­ur mæli­kv­arði á und­ir­rót spill­ing­ar. Fyr­ir utan það að óðaverðbólga get­ur af sér siðlausa stjórn­ar­hætti eða siðlaus­ir stjórn­ar­hætt­ir geta af sér óðaverðbólgu.

Spurn­ing­ar um spill­ingu

Fyr­ir utan hlut­læg­an mæli­kvaða verðbólgu varðandi spill­ingu kann að vera rétt að leita svara við nokkr­um spurn­ing­um áður en úr­sk­urður um spill­ingu er kveðinn upp.

  • Er al­gengt og ein­falt að greiða lög­reglu og dómur­um við dóm­stóla „hags­muna­fé“?
  • Er aðgang­ur að al­mannaþjón­ustu, svo sem eins og lækn­isþjón­ustu, háður per­sónu­leg­um duttl­ung­um?
  • Eru aðgang­ur að námi og mat á náms­ár­angri háð per­sónu­leg­um duttl­ung­um?
  • Er aðgangi að tak­mörkuðum gæðum út­hlutað eft­ir duttl­ung­um?
  • Er tekið eðli­legt gjald af tak­mörkuðum gæðum?
  • Er per­sónu­leg friðhelgi al­menn eða aðeins fyr­ir út­valda?

Auðvitað eru ótelj­andi mæli­kv­arðar á spill­ingu við út­hlut­un tak­markaðra gæða til sér­val­inna gæðinga.

Biðraðamynd­un er gott efni í út­hlut­un gæða eft­ir duttl­ung­um. Þannig geta biðlist­ar eft­ir val­kvæðum lækn­isaðgerðum orðið und­ir­rót spill­ing­ar.

Biðraðir í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um hurfu með eðli­leg­um raun­vöxt­um þegar ekki var leng­ur verið að út­hluta gæðum og flytja eign­ir frá spari­fjár­eig­end­um til fyr­ir­tækja og skuld­ara. Spari­fjár­eig­end­ur eru ein­stak­ling­ar, með bein­um hætti og óbein­um með aðild að líf­eyr­is­sjóðum. Nei­kvæðir raun­vext­ir eru til­færsla frá ein­stak­ling­um til fyr­ir­tækja. Hvernig má rétt­læta skylduaðild að líf­eyr­is­sjóðum við þess­ar aðstæður? Með þessu er verið að gera laun­taka að aul­um. Það er gróðrar­stía fyr­ir spill­ingu.

Ávöxt­un líf­eyr­is­sjóða, er þar mæli­kv­arði á spill­ingu?

Ávöxt­un eigna líf­eyr­is­sjóða er þokka­leg­ur mæli­kv­arði á spill­ingu. Þokka­leg og eðli­leg ávöxt­un er mæli­kv­arði á eðli­leg­an rekst­ur. Eðli­leg­ur rekst­ur er ekki spill­ing. Grein­ar­höf­undi er ekki ljóst hver þekk­ing pró­fess­or­anna er á rekstri líf­eyr­is­sjóða. Hvort er meira þarfaþing, öfl­ug­ur líf­eyr­is­sjóður eða ný stjórn­ar­skrá? Það verður aldrei ef­ast um þekk­ingu spill­ing­armats­manna á stjórn­ar­skrár­mál­um. En er þekk­ing­in á sam­fé­lag­inu með slík­um yf­ir­burðum og al­tæk­um hætti að pró­fess­or­arn­ir geti með hug­lægu mati og dómgreind dæmt um spill­ingu í heilu sam­fé­lagi?

Er það spill­ing að for­sæt­is­ráðherra eigi er­lend­ar eign­ir í landi með frjálsu flæði fjár­magns? Svo er alls ekki! Það er dómgreind­ar­leysi for­sæt­is­ráðherra að greina ekki frá því að hann er einn kröfu­hafa í þrota­bú þar sem ís­lenska ríkið er samn­ingsaðili. Slík­an ein­fald­an hór verður maður­inn að eiga við eig­in sam­visku. Dómgreind­ar­leysi for­sæt­is­ráðherra er á eng­an veg spill­ing heils sam­fé­lags.

Jón Hreggviðsson vildi að drott­inn sendi sér tób­ak, brenni­vín og þrjár frill­ur! Jón taldi það ekki hór!

Sárs­auki og sátt­ar­gjörð

Brigsl um spill­ingu og vand­læt­ing í frekju­köst­um geta aldrei orðið annað en vís­bend­ing um hug­ar­ástand þess sem brigsl­ar og vand­læt­ir.

Til eru fleiri mæli­kv­arðar en verðbólga á gæði og gegn­sæi sam­fé­lags. Hag­stofa mæl­ir margt og birt­ir víðtæk­ar upp­lýs­ing­ar. Það kann að vera að sátt­ar­gjörð og von leyn­ist í aðgengi­leg­um op­in­ber­um upp­lýs­ing­um þannig að hug­læg túlk­un ráði að lok­um niður­stöðu.

Laga­setn­ing

Hef­ur ákveðin laga­setn­ing al­menn­an eða sér­tæk­an til­gang? Lengi var það svo að laga­setn­ing átti að þjóna hinum „þjóðlegu“ at­vinnu­grein­um. Við hrun Sov­ét­ríkj­anna varð laga­setn­ing al­menn á Íslandi, horfið var frá fyr­ir­greiðslu og möndli.

Ástæðan var ekki hrun Sov­ét­s­ins, held­ur nýir stjórn­ar­herr­ar og aðild að EES.

Það var gert sam­komu­lag við fjár­mála­stofn­an­ir um að draga úr út­lán­um til allra nema sjáv­ar­út­vegs og land­búnaðar. Útlán til versl­un­ar voru ekki „þjóðleg“.

Sér­tæk laga­setn­ing fyr­ir þjóðlega at­vinnu­vegi og þjóðlega starf­semi leiðir af sér „fyr­ir­greiðslu“. Fyr­ir greiðsla er spill­ing. Al­menn­ar aðgerðir eru heiðarleiki og traust.

Vera má að laga­setn­ing frelsi mann frá því að hugsa, nema laga­setn­ing­in sé sem spak­mæli sögð á röng­um stað og rangri stundu! Helst hvort tveggja! Þá reyn­ir á dómgreind og dómgreind­ar­brest!

En eft­ir stend­ur: Íslend­ing­ar eru mjög fylgj­andi spill­ingu, einkum ef þeir fá hlut­deild í henni sjálf­ir, og helst óskiptri!

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 26. febrúar 2021.