Rétta leiðin

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:

Í lok fe­brú­ar í fyrra hefði fáa grunað að ári síðar stæðum við í miðri dýpstu kreppu í heila öld.

Heims­far­ald­ur­inn hef­ur staðið leng­ur en flesta óraði fyr­ir í upp­hafi með til­heyr­andi áhrif­um á heim­ili og fyr­ir­tæki. Við aðstæður sem þess­ar erum við minnt á hve miklu það skipt­ir að hafa nýtt góð ár til að létta skulda­stöðu rík­is­ins og búa í hag­inn fyr­ir framtíðina.

Þegar nóg virðist vera til skipt­anna er ekki alltaf vin­sælt að fylgja slíkri stefnu, en öll­um má nú vera ljóst að geta rík­is­ins til að bregðast við far­aldr­in­um af krafti er byggð á fyr­ir­hyggju fyrri ára.

Verj­um einkafram­takið

Við höf­um veitt tugi millj­arða í stuðningsaðgerðir fyr­ir heim­ili og fyr­ir­tæki. Tugþúsund­ir ein­stak­linga og á fjórða þúsund fyr­ir­tæki hafa nýtt úrræðin, lang­flest þeirra vinnustaðir með færri en tíu starfs­menn.

Þótt halli rík­is­sjóðs sé gríðarleg­ur um þess­ar mund­ir er ég sann­færður um að þessi viðbrögð hafi verið skyn­sam­leg. Við eig­um allt und­ir því að at­vinnu­lífið nái sér aft­ur á strik. Hag­sæld okk­ar bygg­ist um­fram annað á einkafram­tak­inu, störf­un­um sem með því skap­ast og til­heyr­andi fram­lagi til sam­neysl­unn­ar.

Með því að létta róður­inn á tím­um far­ald­urs­ins ger­um við fyr­ir­tækj­um kleift að aðlag­ast aðstæðum og hrein­lega lifa af. Við trú­um því að hér sé um tíma­bundið ástand að ræða og byggj­um með þessu efna­hags­lega brú yfir til betri tíma.

Með þetta fyr­ir aug­um höf­um við ekki aðeins ráðist í stuðningsaðgerðir held­ur einnig lækkað skatta, á sama tíma og tekj­ur rík­is­ins skreppa sam­an. Þó slík stefna muni skila sér marg­falt til baka þegar fram líður þarf að hafa áætl­un um að stöðva skulda­söfn­un rík­is­ins á kom­andi árum. Fjár­mála­áætl­un okk­ar fyr­ir árin 2021-2025 varðar veg­inn til jafn­væg­is, þó skulda­aukn­ing­in sé gríðarleg. Gert er ráð fyr­ir að láns­fjárþörf rík­is­sjóðs á tíma­bil­inu verði um 900 millj­arðar króna.

Útlend­ing­ar vilja geyma pen­ing­ana sína á Íslandi

Skömmu fyr­ir ára­mót gáf­um við út stefnu um lána­mál rík­is­ins næstu árin. Áfram verður lögð áhersla á út­gáfu rík­is­skulda­bréfa á ís­lensk­um markaði, auk þess sem mik­il­væg verk­efni á borð við sölu hluta í Íslands­banka við hag­stæðar markaðsaðstæður mun koma sér vel.

Það sem vakti þó einkum já­kvæð viðbrögð er áhersla á fjöl­breytta fjár­mögn­un, sem felst meðal ann­ars í að sækja er­lent láns­fé. Þannig minnk­um við áhætt­una sem í því felst að skulda ein­ung­is hér á landi og tryggj­um mik­il­vægt aðgengi Íslands að alþjóðleg­um mörkuðum.

Þar njót­um við nú þegar mik­ils trausts. Þetta sást best á því að ríkið gaf ný­lega út 750 millj­ón evra skulda­bréf til sjö ára á núll pró­sent vöxt­um. Í ein­földu máli treysta er­lend­ir fjár­fest­ar okk­ur því til að geyma að jafn­v­irði um 117 millj­arða króna fyr­ir sig hér á landi vaxta­laust í sjö ár. Betri dæmi eru vand­fund­in um trú alþjóðasam­fé­lags­ins á stefnu okk­ar og getu til að koma enn sterk­ari út úr far­aldr­in­um.

Stönd­um vörð um staðreynd­ir

Áætlan­ir stjórn­valda í þess­um efn­um hafa víðast hvar vakið viðlíka traust. Þrátt fyr­ir mesta efna­hags­sam­drátt í heila öld og mikla skulda­söfn­un er láns­hæf­is­mat rík­is­sjóðs óbreytt frá því sem var fyr­ir far­ald­ur­inn.

Lít­il­lega hef­ur þó borið á gagn­rýni á þá stefnu sem mörkuð hef­ur verið. Því hef­ur verið haldið fram á Alþingi að í sókn rík­is­ins á er­lenda markaði fel­ist áhættu­aukn­ing. Í því sam­hengi full­yrti formaður Viðreisn­ar að skuld­ir rík­is­ins hefðu á síðasta ári auk­ist um 45 millj­arða vegna geng­is­breyt­inga ís­lensku krón­unn­ar.

Rétt er að rýna stutt­lega í þær staðreynd­ir sem hér skipta máli.

Lán­tök­ur í er­lend­um gjald­miðlum hafa byggt upp gjald­eyr­is­stöðu rík­is­sjóðs í Seðlabank­an­um, en bank­inn býr þannig yfir 800 millj­arða gjald­eyr­is­vara­forða. Með öðrum orðum hef­ur ríkið geymt þann gjald­eyri sem tek­inn hef­ur verið að láni og hef­ur þannig varið sig fyr­ir geng­is­sveifl­um.

Á sama tíma og geng­is­breyt­ing­ar krón­unn­ar hafa haft áhrif á stöðu er­lendra lána hafa þær einnig haft áhrif á gjald­eyriseign­ir. Þetta tvennt hef­ur sveifl­ast í takt og í því sam­hengi þarf að skoða full­yrðing­ar um meinta 45 millj­arða skulda­aukn­ingu.

Í fyrra breytt­ist staða er­lendra lána rík­is­ins alls um 59 millj­arða króna, en geng­isáhrif á stöðuna námu um 30 millj­örðum yfir árið. Á sama tíma breytt­ust gjald­eyriseign­ir rík­is­sjóðs um 55 millj­arða króna og þar af voru geng­isáhrif um 26 millj­arðar króna.

Raun­veru­leg geng­isáhrif á rík­is­sjóð í fyrra voru því um einn tí­undi af þeim 45 millj­örðum sem formaður Viðreisn­ar held­ur á lofti í ræðu og riti.

Kak­an þarf að stækka

Næstu mánuði verður mik­il­væg­ara en nokkru sinni fyrr að standa vörð um staðreynd­ir. Það verður þó ekki síður mik­il­vægt að standa vörð um þau grunn­gildi sem við vilj­um byggja á þegar fram líða stund­ir. Gjalda ber var­hug við tali um aukna rík­i­s­væðingu, skatta­hækk­an­ir og aðra kæf­andi hug­mynda­fræði sem víða glitt­ir nú í.

Leiðin fram á við felst í því að hlúa að einkafram­tak­inu og gera heim­il­um og fyr­ir­tækj­um kleift að sækja fram þegar létt­ir til. Við þurf­um fleiri störf, meiri um­svif, aukna fram­leiðslu og fram­legð. Kak­an þarf að stækka. Án þess get­um við ekki varið þá góðu op­in­beru þjón­ustu sem við höf­um byggt upp.

Rétta leiðin að þessu mark­miði er að treysta á fram­taks­semi fólks­ins sem bygg­ir Ísland. Það ger­um við með því að hið op­in­bera skapi hvetj­andi um­hverfi, styðji við og standi með þeim sem vilja láta til sín taka.

Sýn­um í verki trú okk­ar á að framtíðin sé í reynd í okk­ar hönd­um. Það eina sem þarf er að treysta á fólkið sem bygg­ir landið okk­ar. Veita því mögu­leika á að grípa tæki­fær­in. Það hef­ur okk­ur reynst best í fortíð og þangað skul­um við stefna til framtíðar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. febrúar 2021.