Hugmyndafræðin skerpt fyrir kosningar

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Ég leita reglu­lega í skrif og ræður for­ystu­manna og hugsuða Sjálf­stæðis­flokks­ins á síðustu öld. Við get­um sagt að ég sé að leita til upp­run­ans til að skerpa hug­mynda­fræðina. Í aðdrag­anda kosn­inga er er gott að sækja þangað skot­færi.

Eft­ir því sem árin líða hef ég sann­færst æ bet­ur um hversu nauðsyn­legt það er, ekki síst fyr­ir stjórn­mála­menn sam­tím­ans og kjörna full­trúa Sjálf­stæðis­flokks­ins sér­stak­lega, að þekkja sög­una og öðlast þannig betri skiln­ing á eig­in hug­mynd­um og hug­sjón­um – fá til­finn­ingu fyr­ir þeim jarðvegi þar sem ræt­urn­ar liggja. Þótt aðstæður breyt­ist og viðfangs­efn­in séu oft önn­ur og jafn­vel flókn­ari, hafa grunn­atriði hug­sjóna Sjálf­stæðis­stefn­unn­ar ekki breyst.

Það hef­ur verið gæfa Sjálf­stæðis­flokks­ins að hafa átt öfl­uga hug­mynda­fræðinga og for­ystu­menn sem hafa haft burði til að marka stefn­una og meitla hug­sjón­irn­ar. Og aðeins þannig geta kjós­end­ur fengið það á hreint fyr­ir hvað Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn stend­ur; tak­mörkuð rík­is­af­skipti, lága skatta og aukið frelsi ein­stak­ling­anna. Allt sam­tvinn­ast þetta í áherslu á fjár­hags­legt sjálf­stæði ein­stak­ling­anna, öfl­ugt al­manna­trygg­inga­kerfi og traust heil­brigðis­kerfi þar sem þarf­ir hinna sjúkra­tryggðu eru í for­grunni. Í hug­um sjálf­stæðismanna er upp­bygg­ing mennta­kerf­is­ins besta verk­færið til að tryggja jöfn tæki­færi án þess að lof­orð um jafna út­komu fylgi. Bar­átt­an fyr­ir at­vinnu­frelsi gegn höft­um er inn­gró­in og að baki ligg­ur sann­fær­ing um „undra­mátt frels­is­ins“ svo vitnað sé til orða Bjarna Bene­dikts­son­ar (eldri).

Af­nám allra sérrétt­inda

Á fundi Heimdall­ar 1939, ára­tug eft­ir að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn var stofnaður, flutti Jó­hann Haf­stein er­indi um sjálf­stæðis­stefn­una. Þar lagði hann áherslu á að þjóðskipu­lagið eigi að verða til þess að lyfta hverj­um og ein­um, en ekki kæfa ein­stak­ling­ana. Lýðræðið sé byggt á hug­sjón jafn­rétt­is, þ.e.:

„1. af­námi allra sérrétt­inda, sem bund­in eru við aðal, nafn­bæt­ur, fjár­magn eða annað slíkt,

2. jöfn­um lífs­mögu­leik­um,

3. hlut­falls­lega jöfn­um áhrif­um á þjóðfé­lags­mál­efni með al­menn­um kosn­inga­rétti.“

Til þess að lýðræðið geti notið sín var það aug­ljóst í huga Jó­hanns „að ein­stak­ling­arn­ir verða að geta notið þjóðfé­lags­legs frels­is, sem grein­ist aðallega í tvennt; at­hafna­frelsi og skoðana­frelsi, er aft­ur skipt­ist í rit­frelsi og mál­frelsi sam­fara funda­frelsi“.

Jó­hann var aðeins 24 ára gam­all þegar hann flutti er­indið en varð síðar for­sæt­is­ráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins. Hann benti á að ekki þurfi „víðsýna hugs­un til þess að sjá, að ein­mitt þar, sem hlúð er að per­sónu­leika og sjálf­stæði ein­stak­ling­anna, hlýt­ur jarðveg­ur­inn að vera frjó­sam­ur fyr­ir lýðræði. Í slík­um jarðvegi get­ur hvorki ein­ræði né of­beldis­kennt flokks­ræði fest ræt­ur.“

Frelsið er frumrétt­ur

Rauði þráður­inn í hug­mynda­fræði Sjálf­stæðis­flokks­ins hef­ur því frá upp­hafi verið sjálf­stæði ein­stak­lings­ins, at­vinnu­frelsi, eigna­rétt­ur og sú sann­fær­ing að ríkið sé til fyr­ir borg­ar­ana og starfi í þeirra þágu og í umboði þeirra.

Í tveim­ur rit­gerðum sem birt­ust árið 1958 í Stefni, tíma­riti SUS, seg­ir Birg­ir Kjaran að sjálf­stæðis­stefn­an „bygg­ist á trúnni á mann­inn, þroska­mögu­leika hans, hæfni til þess að stjórna sér sjálf­ur, til að velja og hafna og til að leita sjálf­ur að eig­in lífs­ham­ingju án þess að troða öðrum um tær eða þurfa á fyr­ir­sögn eða hand­leiðslu annarra manna að halda um eig­in mál“. Í krafti þess­ar­ar trú­ar eigi ein­stak­ling­ur­inn að njóta mann­helgi – frumrétt­ur hans sé frelsið, and­legt frelsi og efna­hags­legt frelsi. Þess vegna sé það æðsta tak­mark sam­fé­lags að veita ein­stak­lingn­um allt það frelsi sem hann þarfn­ast til þess að fá að fullu notið hæfi­leika sinna og mann­kosta án þess að þrengja eða óvirða rétt annarra ein­stak­linga eða tefla ör­yggi þjóðar­heild­ar­inn­ar í hættu.

Birg­ir orðaði þetta svo:

„Sér­hver ein­stak­ling­ur er því verðmæt­asta ein­ing þjóðarfé­lags­ins, en ekki sér­hver stétt eða aðrar fé­lagsein­ing­ar, eins og sum­ar aðrar þjóðfé­lags­stefn­ur vilja láta í veðri vaka.

Ríkið hef­ur eng­an til­gang í sjálfu sér, og síst af öllu eru þegn­arn­ir til vegna rík­is­ins. Ríkið er aðeins rammi utan um þjóðfé­lagið. Ríkið er til vegna þjóðar­inn­ar og aðeins vegna henn­ar. Engu að síður er ríkið þýðing­ar­mesta tæki þjóðar­inn­ar sök­um þess fjöl­breyti­lega hlut­verks, er það get­ur gegnt.“

Báknið burt – opin stjórn­sýsla

Eyj­ólf­ur Kon­ráð Jóns­son – Ey­kon – var óþreyt­andi að minna fé­laga sína á að hlut­verk Sjálf­stæðis­flokks­ins í at­vinnu­mál­um sé fyrst og síðast að „inn­leiða meira frjáls­ræði, minni rík­is­af­skipti, öfl­ugra einkafram­tak, minni rík­is­um­svif“ – auka svig­rúm fyr­ir at­hafn­ir og tryggja fram­taks­mönn­um frelsi. Í ræðu á Varðar­fundi 1977 sagði Ey­kon:

„Hlut­verk flokka og stjórn­mála­manna er ekki að fyr­ir­skipa hvað eina og skipu­leggja allt. Það er hlut­verk þeirra, sem beina aðild eiga að at­vinnu­rekstri. Þeim ber að sjá um sam­keppn­ina og arðsem­ina.“

Sama ár hófu ung­ir sjálf­stæðis­menn bar­áttu fyr­ir minni rík­is­um­svif­um und­ir kjör­orðinu „Báknið burt“. Sú bar­átta tónaði vel við lands­fund fjór­um árum áður þar sem ungt fólk markaði stefnu Sjálf­stæðis­flokks­ins um aukið at­vinnu­frelsi, opn­ara sam­fé­lag og um opna stjórn­sýslu og aðgengi allra að upp­lýs­ing­um.

Frjáls­lynd íhalds­stefna með rót­tækri markaðshyggju með áherslu á vald­dreif­ingu, frelsi ein­stak­lings­ins, opna stjórn­sýslu og upp­lýs­inga­frelsi hef­ur átt sam­hljóm með Íslend­ing­um, jafnt þeim eldri en ekki síður þeim yngri. Hér skal full­yrt að í eng­um ís­lensk­um stjórn­mála­flokki hef­ur ungt fólk verið áhrifa­meira en í Sjálf­stæðis­flokkn­um. Það hef­ur rutt braut­ina með nýj­um hug­mynd­um sem all­ar eru reist­ar á grunn­gild­um flokks­ins. Og ungu fólki hef­ur verið treyst. Bjarni Bene­dikts­son (eldri) varð borg­ar­stjóri aðeins 32 ára. Geir Hall­gríms­son var tveim­ur árum eldri þegar hann tók við sem borg­ar­stjóri. Davíð Odds­son var á sama aldri þegar hann sett­ist í stól borg­ar­stjóra og 43 ára varð hann for­sæt­is­ráðherra. Gunn­ar Thorodd­sen varð borg­ar­stjóri 37 ára. Friðrik Soph­us­son tók við embætti vara­for­manns 38 ára. Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir var þrítug þegar hún varð ráðherra og 31 árs var hún kjör­in vara­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins. Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir sett­ist í ráðherra­stól 29 ára göm­ul.

Í krafti trú­ar­inn­ar á ein­stak­ling­inn hef­ur ungt fólk verið áhrifa­mikið inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins, þar sem hver og einn á að njóta hæfi­leika sinna en er ekki dæmd­ur út frá aldri, kyni, trú, kyn­hneigð, stétt eða upp­runa. Ræt­ur sjálf­stæðis­stefn­unn­ar liggja í þess­um jarðvegi. Í aðdrag­anda kosn­inga er gott fyr­ir yngri jafnt sem okk­ur eldri sjálf­stæðis­menn að vökva ræt­urn­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. febrúar 2021.