Frjálsri samkeppni ógnað

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi:

Árið 2019 samþykkti borg­ar­ráð að stefna að fækk­un bens­ín­stöðva í borg­ar­land­inu um helm­ing til árs­ins 2025. Ákvörðunin þótti í sam­ræmi við áhersl­ur borg­ar­inn­ar á fjölg­un raf­bíla enda Ísland meðal fremstu þjóða heims í raf­bíla­væðingu. Eft­ir­spurn eft­ir jarðefna­eldsneyti myndi að lík­ind­um drag­ast sam­an en eft­ir­spurn eft­ir um­hverf­i­s­vænni orku­gjöf­um aukast.

Fjöl­marg­ir hafa séð tæki­færi í þjón­ustu við raf­bíla­eig­end­ur. Í dag sit­ur Orka nátt­úr­unn­ar, fyr­ir­tæki í op­in­berri eigu, hins veg­ar nær ein að upp­bygg­ingu raf­hleðslu­stöðva. Þó nokkr­ir hafa reynt að sækja fram en fallið í hamlandi jarðveg fákeppni. Fyr­ir­tæki í eigu borg­ar­inn­ar hef­ur náð markaðsráðandi stöðu á raf­hleðslu­markaði vegna ná­inna tengsla við land­eig­and­ann Reykja­vík­ur­borg, sam­stæðusam­bands við ein­ok­un­ar­fyr­ir­tækið Veit­ur og aðgeng­is að al­manna­fé. Fyr­ir­komu­lagið stend­ur frjálsri sam­keppni á raf­hleðslu­markaði fyr­ir þrif­um.

Upp­skipt­ing Orku­veit­unn­ar

Orka nátt­úr­unn­ar og Veit­ur eru dótt­ur­fé­lög inn­an sam­stæðu Orku­veit­unn­ar. Orka nátt­úr­unn­ar virðist hins veg­ar njóta fjár­hags­lega góðs af sam­stæðusam­bandi við Veit­ur. Í lög­um um Orku­veitu Reykja­vík­ur er þess sér­stak­lega getið að sam­keppn­is­rekst­ur skuli ekki niður­greidd­ur af einka­leyf­is­starf­semi eða verndaðri starf­semi. Nú­ver­andi sam­stæðusam­band virðist ganga í ber­högg við lög­gjöf­ina og skekk­ir sam­keppni á markaði.

Á borg­ar­stjórn­ar­fundi síðastliðinn þriðju­dag lagði Sjálf­stæðis­flokk­ur fram til­lögu um upp­skipt­ingu rekstr­arein­inga Orku­veitu Reykja­vík­ur. Þannig yrði sam­keppn­is­rekst­ur Orku nátt­úr­unn­ar ann­ars veg­ar og Gagna­veit­unn­ar hins veg­ar að fullu aðskil­inn frá ein­ok­un­ar­starf­semi Veitna. Með upp­skipt­ing­unni mætti ná fram fjár­hags­leg­um aðskilnaði og heil­brigðara sam­keppn­is­um­hverfi – auk heil­mik­ils hagræðis af því að leggja niður móður­fé­lagið Orku­veit­una. Í stuttu máli var til­lag­an felld.

Fákeppni eng­um til gagns

Reykja­vík­ur­borg hef­ur ákveðið í skipu­lagi að fækka bens­ín­stöðvum í borg­ar­land­inu. Sam­hliða ákveður borg­in að styðja við raf­bíla­væðingu. Í kjöl­farið fer Reykja­vík­ur­borg svo sjálf í sam­keppni við einkaaðila um þjón­ustu við raf­bíla­eig­end­ur. Fyr­ir­tæki í eigu borg­ar­inn­ar nær markaðsráðandi stöðu á raf­hleðslu­markaði og stend­ur frjálsri sam­keppni fyr­ir þrif­um.

Það er eng­inn skort­ur á aðilum sem vilja taka þátt í raf­bíla­væðing­unni hér­lend­is. Það er eng­in mál­efna­leg ástæða fyr­ir hið op­in­bera að sitja eitt að framþró­un­inni – úti­loka ein­yrkja, frum­kvöðla og fyr­ir­tæki frá tæki­fær­um framtíðar. Framþróun raf­bíla­væðing­ar og upp­bygg­ing raf­hleðslu­stöðva verður að byggj­ast á frjálsri sam­keppni. Fákeppni er eng­um til gagns og kem­ur fyrst og síðast niður á neyt­end­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2021.