Brugghús Steðja og Birgir Jónsson handhafar frelsisverðlauna SUS

Á nýliðnu ári veitti Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) Brugghúsi Steðja og Birgi Jónssyni, fyrrverandi forstjóra Íslandspósts, Frelsisverðlaun SUS. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 2007 til eins lögaðila og eins einstaklings, til að heiðra þá sem hafa lagt sitt af mörkum við að auka frelsi á Íslandi með einum eða öðrum hætti. Þar sem Covid kom í veg fyrir hátíðlega athöfn ákvað stjórn SUS að hitta verðlaunahafa og taka þá tali, eins og sjá má á meðfylgjandi myndböndum:

Brugghús Steðja

Brugghús Steðja er lítið Brugghús í Borgarfirði, rekið af hjónunum Dagbjarti Arelíussyni og Svanhildi Valdimarsdóttur. Brugghús eins og Steðji eiga erfitt með að komast að í ÁTVR, og þegar ferðamannastraumurinn stoppaði vegna Covid brá Steðji á það ráð að opna vefverslun. Brugghúsið sætir nú lögreglurannsókn vegna þessa, en brugghús mega í dag hvorki selja áfengi í lokuðum umbúðum á framleiðslustað né selja vörur utan ÁTVR. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, hefur lagt fram frumvarp sem myndi heimila fyrirtækjum eins og Steðja að selja beint frá framleiðslustað, en Framsóknarflokkurinn og Vinstri grænir lögðust hins vegar bæði gegn því í ríkisstjórn að heimild til vefverslunar væri hluti af því frumvarpi.

Birgir Jónsson

Birgir Jónsson tók við starfi forstjóra Íslandspósts í maí 2019 og lét af störfum í nóvember 2020. Hann hafði það að markmiði að sýna fram á að hægt væri að reka ríkisfyrirtæki á sama hátt og einkafyrirtæki. Fyrirtækið var nálægt greiðsluþroti þegar hann tók við, en í tíð Birgis voru dótturfélög í eigu Íslandspósts seld og ýmis önnur þjónusta, sem ekki var talin grunnþjónusta, lögð niður. Íslandspóstur er nú orðið eitt arðsamasta póstfyrirtæki á norðurlöndum, skuldir hafa minnkað um helming og þjónustan hefur verið bætt. Stjórn SUS telur að fleiri angar hins opinbera megi taka Birgi Jónsson sér til fyrirmyndar.