Afskipti af framtíðinni

Bryndís Haraldsdóttir, alþingismaður:

Það verða alltaf til stjórnmálamenn með sterkar skoðanir á því hvernig aðrir hátta sínu lífi. Birtingarmynd afskiptaseminnar er alls konar, hvernig fólk hagar frítíma sínum eða eyðir peningum sínum. Slíkir stjórnmálamenn kenna sig yfirleitt við jöfnuð. Ein birtingarmynd afskiptaseminnar hér á landi og víðar er vegna rafmynta. Athyglin er augljóslega komin til vegna þess mikla vaxtar sem hefur orðið á rafmyntum á liðnum árum, en heildarverðmæti allra bitcoina í heiminum var í gær um 950 milljarðar Bandaríkjadala, og heildarverðmæti allra rafmynta í heiminum ríflega 1.500 milljarðar dala.

Heildarverðmæti rafmynta hefur þannig tífaldast á tæplega einu ári og því er eðlilegt að fólk spyrji sig hvort hér sé ekki mikil bólumyndun á ferð. En hvort sem bitcoin og rafmyntir reynast vera bóla eða ekki, er með öllu óþarft að stjórnvöld fari á taugum og reyni að koma böndum á viðskipti með rafmyntir eða banna þær. Auðvitað eigum við að fylgjast grannt með þróun mála, en ekki ganga fram af hræðslu, boðum og bönnum.

Vatn er runnið til sjávar frá árdögum bitcoin þegar rafmyntir mátti tengja við ólögleg viðskipti, fjármögnun hryðjuverka og glæpa og skattsvik. Tesla varð nýlega fimmta fyrirtækið á Fortune 500 listanum til þess að fjárfesta í bitcoin og má telja líklegt að f leiri stórfyrirtæki feti í sömu spor á næstu misserum. Bálkakeðjur munu gjörbylta viðskiptum og fjármálageiranum þar sem hægt verður að millifæra peninga hratt, ódýrt og örugglega.

Við þurfum að skýra ákveðin skattaréttarleg álitamál í tengslum við rafmyntir. Eins þarf að skoða samkeppnisstöðu íslenskra lögaðila við námuvinnslu rafmynta svo þeir sitji við sama borð og erlendir aðilar skattalega séð. En umfram allt er mikilvægt að löggjafinn þvælist ekki fyrir þeirri þróun sem er að verða með bálkakeðjum og rafmyntum. Breytingar eru lögmál lífsins. Þeir stjórnmálaflokkar sem horfa til fortíðar missa af framtíðinni.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. febrúar 2021.