12 aðgerðir til eflingar íslenskum landbúnaði

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

Und­an­farið ár hef­ur reynt á þolrif ís­lensks sam­fé­lags á ýms­an máta. Land­búnaður­inn er þar eng­in und­an­tekn­ing; hrun í komu ferðamanna með til­heyr­andi sam­drætti í eft­ir­spurn eft­ir ís­lensk­um land­búnaðar­af­urðum, um­fangs­mikl­ar sótt­varn­ar­ráðstaf­an­ir til lengri tíma og svo fram­veg­is. Til að bregðast við þess­ari stöðu kynnti ég í mars í fyrra 15 aðgerðir með það að mark­miði að lág­marka nei­kvæð áhrif far­ald­urs­ins á ís­lensk­an land­búnað og sjáv­ar­út­veg til skemmri og lengri tíma.

Auk­inn kraft­ur í bólu­setn­ingu gef­ur vænt­ing­ar um að sam­fé­lagið fari að kom­ast aft­ur í eðli­leg­ar skorður. Við þær aðstæður er rétt að horfa til framtíðar og velta því upp hvernig við sköp­um öfl­uga viðspyrnu fyr­ir ís­lensk­an land­búnað og auðveld­um hon­um að nýta tæki­færi framtíðar­inn­ar. Um­fangs­mik­il vinna í þessa veru hef­ur átt sér stað í ráðuneyti mínu und­an­farna mánuði. Afrakst­ur­inn var kynnt­ur á fjöl­menn­um kynn­ing­ar­fundi í gær; 12 aðgerðir til efl­ing­ar ís­lensk­um land­búnaði. Þrem­ur aðgerðum er þegar lokið og er áformað að alls 10 af 12 aðgerðum verði lokið hinn 15. apríl nk.

Auk­inn stuðning­ur við bænd­ur

Fyrsta aðgerðin lýt­ur að aukn­um stuðningi við bænd­ur en við af­greiðslu fjár­laga 2021 var að minni til­lögu samþykkt að verja 970 millj­ón­um króna til að koma til móts við skaðleg áhrif Covid-19 á ís­lenska bænd­ur. Þess­um fjár­mun­um verður ráðstafað til þeirra bænda sem hafa orðið fyr­ir mest­um áhrif­um af far­aldr­in­um, einkum nauta- og lamba­kjöts­fram­leiðenda.

Jafn­framt hef ég ákveðið að gjald­skrá Mat­væla­stofn­un­ar sem snert­ir bænd­ur verður ekki hækkuð á þessu ári. Fallið var frá öll­um gjald­skrár­hækk­un­um Mat­væla­stofn­un­ar í fyrra vegna áhrifa Covid-19 á ís­lenska mat­væla­fram­leiðend­ur.

Lamba­kjöt beint frá bónda

Í næsta mánuði verður kynnt átak til að ýta und­ir mögu­leika bænda til að fram­leiða og selja afurðir beint frá býli. Þessi aðgerð er í mín­um huga stór­mál fyr­ir ís­lenska bænd­ur og hef­ur verið lengi í umræðunni. Með þessu er verið að veita bænd­um tæki­færi til að styrkja verðmæta­sköp­un og af­komu sína. Stuðla þannig að frek­ari full­vinnslu, vöruþróun, varðveislu verkþekk­ing­ar og menn­ing­ar­arfs við vinnslu mat­væla.

Tolla­mál

Þrjár aðgerðanna lúta beint að tolla­mál­um. Í fyrsta lagi ber að nefna að eldra fyr­ir­komu­lag við út­hlut­un toll­kvóta hef­ur verið end­ur­vakið til 1. ág­úst 2022. Í öðru lagi er unnið að úr­bót­um til að koma til móts við ábend­ing­ar um brota­lam­ir í tollaf­greiðslu á land­búnaðar­vör­um. Loks má nefna að óskað hef­ur verið eft­ir end­ur­skoðun tolla­samn­ings við ESB og þær viðræður eru hafn­ar.

Ný land­búnaðar­stefna fyr­ir Ísland

Í sept­em­ber í fyrra skipaði ég verk­efn­is­stjórn um land­búnaðar­stefnu fyr­ir Ísland. Áætlað er að til­laga að stefn­unni muni liggja fyr­ir í vor. Stjórn­völd hafa mik­il áhrif á starfs­skil­yrði land­búnaðar­ins en stefnu­mót­un þeirra um grein­ina hef­ur hingað til verið brota­kennd. Hún hef­ur komið fram í bú­vöru­samn­ing­um, reglu­setn­ingu og öðrum ákvörðunum sem því tengj­ast en til­gang­ur vinn­unn­ar sem nú stend­ur yfir er að setja fram heild­stæða stefnu­mót­un fyr­ir land­búnaðinn. Stefn­an verður lögð fyr­ir Alþingi sem þings­álykt­un og hafa stjórn­völd og Bænda­sam­tök Íslands samþykkt að land­búnaðar­stefn­an verði grunn­ur að end­ur­skoðun bú­vöru­samn­inga 2023.

Betri merk­ing­ar mat­væla

Starfs­hóp­ur um betri merk­ing­ar mat­væla skilaði skýrslu til mín sl. haust. Í niður­stöðum hóps­ins er meðal ann­ars að finna til­lögu um sér­stakt bú­vörumerki að nor­rænni fyr­ir­mynd. Bænda­sam­tök­um Íslands hef­ur verið tryggt fjár­magn úr ramma­samn­ingi land­búnaðar­ins til gerðar og út­færslu þess. Gert verður sér­stakt sam­komu­lag um það á næstu vik­um. Sam­hliða verður öðrum til­lög­um hóps­ins komið til fram­kvæmd­ar.

Auk­in hag­kvæmni og hagræðing

Í sam­ræmi við yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar í tengsl­um við lífs­kjara­samn­ing­inn í sept­em­ber síðastliðnum verður hag­kvæmni og skil­virkni í mat­væla­fram­leiðslu tek­in til sér­stakr­ar skoðunar, m.a. til að stuðla að bættri nýt­ingu verðmæta og auk­inni hagræðingu inn­an land­búnaðarfram­leiðslunn­ar, til hags­bóta fyr­ir bænd­ur og neyt­end­ur.

Mæla­borð land­búnaðar­ins

Fyrsta út­gáfa nýs mæla­borðs fyr­ir land­búnaðinn mun birt­ast í næsta mánuði. Í fyrsta áfanga verður áhersla á yf­ir­sýn yfir inn­lenda fram­leiðslu, sölu og birgðir land­búnaðar­af­urða, auk stuðnings við bænd­ur sam­kvæmt bú­vöru­samn­ing­um. Mæla­borðið verður síðan end­ur­bætt áfram í því skyni að það nýt­ist sem verk­færi til að fylgj­ast með þróun þeirra mark­miða sem sett eru í bú­vöru­samn­ing­um og land­búnaðar­stefnu auk mark­miða um fæðuör­yggi.

Sér­tæk vinna vegna sauðfjár­rækt­ar­inn­ar

Erfiðleik­ar hafa verið í sauðfjár­rækt­inni und­an­far­in ár vegna mik­illa afurðaverðslækk­ana á ár­un­um 2015-2017. Afurðaverð til sauðfjár­bænda er nú það sama í krón­um talið og árið 2011. Ráðuneyti mitt og Lands­sam­tök sauðfjár­bænda vinna nú sam­eig­in­lega aðgerðaáætl­un með það mark­mið að afurðaverð til sauðfjár­bænda hækki fyr­ir næstu slát­urtíð. Gert er ráð fyr­ir að hún liggi fyr­ir í lok mars.

Fæðuör­yggi á Íslandi

Land­búnaðar­há­skóli Íslands hef­ur skilað ráðuneyti mínu skýrslu um fæðuör­yggi á Íslandi. Þar er meðal ann­ars bent á nauðsyn mót­un­ar fæðuör­ygg­is­stefnu og það er jafn­framt aðgerð sem fylg­ir nýrri mat­væla­stefnu stjórn­valda. Sú vinna mun hefjast á næstu vik­um eft­ir sam­ráð við aðila sem að mál­inu þurfa að koma. Skýrsl­an verður einnig tek­in til meðferðar í þjóðarör­ygg­is­ráði enda er fæðuör­yggi hluti af þjóðarör­yggi lands­ins.

Loks má nefna að reglu­verk og stjórn­sýsla um viðbrögð við riðuveiki í sauðfé og tengd ákvæði um dýra­heil­brigði verða end­ur­skoðuð.

Sterk­ari stoðir

Fram­gang­ur þess­ara aðgerða hef­ur verið og verður áfram í for­gangi á nýrri land­búnaðarskrif­stofu ráðuneyt­is­ins. Þannig hef­ur Sig­urður Eyþórs­son verið ráðinn verk­efna­stjóri til að vinna að fram­gangi og inn­leiðingu þess­ara aðgerða og hef­ur hann hafið störf í ráðuneyt­inu.

Ég er sann­færður um að þess­ar aðgerðir munu á næstu vik­um og mánuðum styrkja und­ir­stöður ís­lensks land­búnaðar til skemmri og lengri tíma. Að okk­ur tak­ist að skapa þess­ari mik­il­vægu at­vinnu­grein enn betri skil­yrði þannig að hún nái að vaxa og dafna til hags­bóta fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. febrúar 2021.