Táknmynd fyrir stefnu jafnréttis, frelsis og framfara

18. febrúar 2021

'}}

„Hún var táknmynd fyrir þá stefnu jafnréttis, frelsis og framfara sem hefur einkennt flokkinn okkar allar götur síðan,“ segir Bjarni Benedktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, á facebook-síðu sinni í dag um Auði Auðuns, en 110 ár eru í dag frá fæðingu hennar.

„Auður var Sjálfstæðiskona og brautryðjandi á ótal mörgum sviðum. Hún lauk laganámi fyrst íslenskra kvenna árið 1935, varð borgarstjóri í Reykjavík fyrst kvenna 1959 og fyrsta íslenska konan í ráðherrastól þegar hún tók við embætti dóms- og kirkjumálaráðherra í október 1970.

Ekkert af þessu þótti sjálfsagt í þá daga. Auður ruddi brautina fyrir fjölda framúrskarandi stjórnmálakvenna sem á eftir fylgdu, bæði í Sjálfstæðisflokknum og annars staðar,“ segir Bjarni þegar hann minnist þessa merka brautryðjanda og baráttukonu.

„Hugsunarháttur eins og hann gerist bestur“

,,Ég er alin upp í borgaralegum hugsunarhætti eins og hann gerist beztur og fellur hann saman við stefnuyfirlýsingu míns flokks, Sjálfstæðisflokksins. Hann felst í virðingunni fyrir einstaklingnum og frjálsræði hans og þeirri ábyrgðartilfinningu, sem hver einstaklingur þarf að hafa,” sagði Auður Auðuns í viðtali við Morgunblaðið árið 1983.

Auður fæddist á Ísafirði 18. febrúar 1911. Auður lauk sem fyrr segir stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1929. Hún lauk svo embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1935, fyrst kvenna. Auður tók sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1946 og varð forseti bæjarstjórnar 1954 til 1970 — fyrst kvenna. Hún var borgarstjóri Reykjavíkur í eitt ár, 1959-1960, fyrst kvenna. Hún var alþingismaður Reykvíkinga árin 1959 til 1974.

Auður var löngum eina konan í stjórnmálastarfi á Íslandi. „Ég vandist því með árunum að vera oftast ein með karlahópnum.“ sagði Auður í viðtali við kvenréttindablaðið 19. júní árið 1971. Auður lést árið 1999, þá 88 ára.

Sjá nánar um ævi Auðar Auðuns á vef Alþingis - hér.