Samvinna almennings og fyrirtækja

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Mörg­um finnst það merki um ómerki­leg­an hugsana­gang smá­borg­ar­ans að láta sig dreyma um að launa­fólk geti tekið virk­an þátt í at­vinnu­líf­inu með því að eign­ast í fyr­ir­tækj­um, litl­um og stór­um. Fátt virðist verra í huga fjand­manna einkafram­taks­ins en að al­menn­ing­ur nái að byggja enn eina stoðina und­ir eigna­mynd­un með sparnaði í formi hluta­bréfa. Til­raun­ir til að ryðja braut launa­fólks inn í at­vinnu­lífið m.a. með skatta­leg­um hvöt­um eru eit­ur í bein­um þeirra.

Ég hef áður vakið at­hygli á því hvernig skipu­lega er alið á fjand­skap í garð at­vinnu­lífs­ins, ekki síst sjáv­ar­út­vegs­ins. Jafn­vel stjórn­mála­menn, sem á hátíðar­stund­um segj­ast tals­menn öfl­ugs at­vinnu­lífs, falla í póli­tísk­an for­ar­pytt – po­púl­isma – og taka þátt í að kynda und­ir tor­tryggni og andúð í garð ein­stakra fyr­ir­tækja eða at­vinnu­greina. Þeir fá sín­ar tvær mín­út­ur í sjón­varps­frétt­um og fyr­ir­sagn­ir í blöðum og vef­miðlum. Á þingi eru stjórn­mála­menn sem telja ekk­ert at­huga­vert við að ein­stak­ling­ar í at­vinnu­líf­inu sitji und­ir dylgj­um um lög­brot; sak­laus­ir menn eigi að fagna ef þeir eru tekn­ir til rann­sókn­ar, því þá fái þeir tæki­færi til að sanna sak­leysi sitt. Regl­um rétt­ar­rík­is­ins er þannig snúið á haus þegar kem­ur að at­hafna­mönn­um.

Í skotlínu

Þeir sem ná ár­angri í rekstri eiga það á hættu að kom­ast í skotlínu áhrifa­mik­illa fjöl­miðla, ekki síst þess rík­is­rekna. Byggt er und­ir nei­kvæðar hug­renn­ing­ar, hagnaður er tal­inn óeðli­leg­ur og arðgreiðslur fyr­ir­tækja ekki annað en birt­ing­ar­mynd græðgivæðing­ar. Engu skipt­ir þótt hagnaður sé drif­kraft­ur fram­fara og for­senda ný­sköp­un­ar og fjár­fest­inga. Arður er ekk­ert annað en leiga eða vext­ir fyr­ir fjár­muni sem hlut­haf­ar leggja fyr­ir­tæki til í formi hluta­fjár í stað þess að veita því lán. Arður­inn sæt­ir af­gangi og fæst ekki nema vel gangi. Lán­veit­andi fær sína vexti greidda og lánið á end­an­um. Sigli fyr­ir­tæki í þrot fá for­gangs­kröfu­haf­ar, starfs­fólk og veðhaf­ar fyrst greitt og þá al­menn­ir kröfu­haf­ar. Hlut­haf­arn­ir tapa alltaf sínu. Og um það tala fáir.

Í þessu and­rúms­lofti er merki­legt að verða vitni að því hvernig ís­lenski hluta­bréfa­markaður­inn hef­ur hægt og bít­andi verið að styrkj­ast sam­hliða aukn­um áhuga ein­stak­linga. Á liðnu ári tvö­faldaðist fjöldi þeirra ein­stak­linga sem eiga hluta­bréf í skráðum fé­lög­um og voru rúm­lega 16 þúsund í lok árs. Þar spil­ar inn í vel heppnað útboð Icelanda­ir. Dag­leg viðskipti juk­ust um nær 60% á milli ára. Fjöldi viðskipta und­ir 500 þúsund krón­um þre­faldaðist á síðasta ári, sem er til marks um aukna þátt­töku al­menn­ings í markaðinum.

Í viðtali við Markaðinn – fylgi­rit Frétta­blaðsins – í des­em­ber benti Magnús Harðar­son, for­stjóri Kaup­hall­ar­inn­ar, Nas­daq Ice­land, á að auk­in þátt­taka al­menn­ings á hluta­bréfa­markaði yki lík­ur á því að vaxtar­fyr­ir­tæki sæktu frek­ara fé á hluta­bréfa­markað: „Það skipt­ir miklu máli fyr­ir at­vinnu­sköp­un. Hér er ég að tala um fyr­ir­tæki sem eru ekki að stíga sín fyrstu skref held­ur kom­in á stökkpall­inn en vant­ar rakett­ur til að kom­ast al­menni­lega á loft. Í þessu fel­ast mik­il tæki­færi í að bæta í viðspyrn­una þegar birt­ir til eft­ir Covid.“

Gleðiefni

Fyr­ir­huguð sala og skrán­ing á allt að 35% hluta­fjár Íslands­banka síðar á þessu ári mun ekki aðeins losa um eign­ar­hald rík­is­ins á fjár­mála­markaði held­ur einnig styrkja inn­lend­an hluta­bréfa­markað. Og það mun skipta máli fyr­ir ís­lenskt at­vinnu­líf og þar með al­menn­ing. Virk­ur og öfl­ug­ur hluta­bréfa­markaður er mik­il­væg stoð und­ir öfl­ugt efna­hags­líf og hag­vöxt og þar með bætt lífs­kjör. Fyr­ir utan að vera mik­il­væg upp­spretta fjár­magns veit­ir form­leg­ur hluta­bréfa­markaður fyr­ir­tækj­um aðhald og leiðir til auk­ins aga og skil­virkni í rekstri.

Ákvörðun stjórn­ar Síld­ar­vinnsl­unn­ar í Nes­kaupstað í byrj­un þessa mánaðar, að hefja und­ir­bún­ing að skrán­ingu hluta­bréfa fé­lags­ins á aðal­markað Nas­daq Ice­land, er sér­stakt gleðiefni og enn eitt merki um auk­inn styrk hluta­bréfa­markaðar­ins. Stefnt er að skrán­ingu á fyrri helm­ingi þessa árs.

Aðeins eitt sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki er skráð á op­in­ber­an markað – Brim. Von­andi fylgja fleiri sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki for­dæmi Brims og Síld­ar­vinnsl­unn­ar, sem eru meðal öfl­ug­ustu fyr­ir­tækja lands­ins. Gunnþór Ingva­son, for­stjóri Síld­ar­vinnsl­unn­ar, hef­ur sagt að mark­mið með skrán­ingu sé að efla fyr­ir­tækið og opna fyr­ir fjár­fest­um: „Með skrán­ingu fé­lags­ins á markað fjölg­ar tæki­fær­um fjár­festa til að koma að sjáv­ar­út­vegi. Íslensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur er fram­sæk­in at­vinnu­grein þar sem stöðugt er unnið að auk­inni verðmæta­sköp­un auðlind­ar­inn­ar sam­hliða áskor­un­um í að draga úr kol­efn­is­spori og um­hverf­isáhrif­um grein­ar­inn­ar.“

Eyðir tor­tryggni og eyk­ur traust

Al­menn skrán­ing helstu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja á op­inn hluta­bréfa­markað, með þeim skyld­um sem þar þarf að upp­fylla, vinn­ur gegn þeim und­ir­róðri sem stundaður hef­ur verið gagn­vart sjáv­ar­út­vegi í fjöl­miðlum og á vett­vangi stjórn­mál­anna. Mögu­leiki á beinni þátt­töku í rekstri glæsi­legra fyr­ir­tækja samþætt­ir hags­muni launa­fólks og sjáv­ar­út­vegs í dreif­býli og þétt­býli. Reglu­bund­in og skýr upp­lýs­inga­gjöf sam­hliða grein­ing­um óháðra sér­fræðinga eyk­ur ekki aðeins traust held­ur einnig skiln­ing á eðli sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja, gef­ur inn­sýn í hvernig verðmæt­in verða í raun til.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur alla tíð bar­ist fyr­ir þátt­töku al­menn­ings í at­vinnu­líf­inu. Ung­ir sjálf­stæðis­menn lögðu grunn­inn að þeirri bar­áttu þegar á fjórða ára­tug síðustu ald­ar. Mark­miðið hef­ur verið skýrt; að gera launa­fólk að eigna­fólki, tryggja fjár­hags­legt sjálf­stæði þess og skjóta styrk­ari stoðum und­ir fyr­ir­tæk­in – einkafram­takið. Ey­kon [Eyj­ólf­ur Kon­ráð Jóns­son] nefndi þenn­an draum „auðræði al­menn­ings“. Hann var sann­færður um að trygg­ing fyr­ir heil­brigðu sam­fé­lagi og lýðræði væri að sem allra „flest­ir ein­stak­ling­ar séu fjár­hags­lega sjálf­stæðir; þeir eigi hlut­deild í þjóðarauðnum, en séu ekki ein­ung­is leiguliðar eða starfs­menn rík­is­ins“. Póli­tísk­ir lukk­uridd­ar­ar og óvild­ar­menn einkafram­taks­ins skilja ekki drauma af þessu tagi og kald­ur hroll­ur hríslast um þá alla við þá til­hugs­un að al­menn­ing­ur og at­vinnu­lífið eigi með sér nána og opna sam­vinnu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. febrúar 2021.