Ríkið gegn Apple?

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra:

Það dytti fáum í hug að opna í dag rík­is­rekna mat­vöru­versl­un, rík­is­rekið bif­reiðaverk­stæði eða rík­is­rekna raf­tækja­versl­un. Við vit­um að þessi þjón­usta er bet­ur kom­in í hönd­um einkaaðila, sem keppa sín á milli um viðskipta­vini og eru meðvitaðir um það að bæði vör­ur og þjón­usta þurfa að upp­fylla nú­tíma­leg­ar kröf­ur þeirra.

Það gilda sömu lög­mál um rekst­ur banka. All­ar lík­ur eru á að fátt verði skylt með bankaþjón­ustu framtíðar­inn­ar og þeirri sem við þekkj­um í dag, meðal ann­ars vegna mik­illa tækni­breyt­inga.

Það má taka sem dæmi að flókn­ir fjár­mála­gern­ing­ar, til að mynda al­menn hluta­fjárút­boð, sem áður kölluðu á tugi sér­fræðinga, fara nú í aukn­um mæli fram með sjálf­virk­um hætti í tölv­um. Yf­ir­bygg­ing­in minnk­ar óðum, hefðbundn­um úti­bú­um er lokað í stór­um stíl og viðskipta­vin­ir banka geta fram­kvæmt meg­inþorra sinna viðskipta í gegn­um síma og tölvu. Fjár­tæknifyr­ir­tæki spretta upp um all­an heim. Tækn­iris­ar á borð við Apple og Face­book eru þegar farn­ir að keppa á hluta markaðar­ins og hyggja á frek­ari land­vinn­inga. Fyr­ir­séð er að þessi þróun haldi áfram og fær­ist í auk­ana.

Eig­end­ur banka þurfa að leiða breyt­ing­arn­ar, halda í við þær eða kasta inn hand­klæðinu. Spurn­ing­in er hvort ríkið sé best til þess fallið að leiða meiri­hluta banka­kerf­is­ins í þessu róti og hvort al­menn­ing­ur sé þá til í að taka á sig höggið, ef illa fer?

Nú stend­ur til að selja um fjórðungs­hlut rík­is­ins í Íslands­banka. Eft­ir sem áður yrði meiri­hluti bank­ans enn í rík­is­eigu, auk Lands­bank­ans. Rök þeirra sem eru and­snún­ir söl­unni eru meðal ann­ars þau að ríkið sé að „af­sala sér arðgreiðslum til framtíðar. Meinið við þá rök­semda­færslu er að ekk­ert bend­ir til þess að arðgreiðslur úr hefðbund­inni banka­starf­semi séu óþrjót­andi auðlind, ekki síst með til­liti til þeirra breyt­inga sem blasa við.

Vel kann að vera að ein­hverj­um þyki skyn­sam­legt að ríkið eigi banka. Skyn­sam­leg­ast hlýt­ur þó að vera að ríkið dragi úr áhættu sinni gagn­vart ein­stök­um at­vinnu­grein­um og bindi ekki 400 millj­arða af al­manna­fé í áhættu­samri og sveiflu­kenndri banka­starf­semi.

Nema ef við ætl­um okk­ur enn á ný að verða best í heimi – í þetta sinn í bankaþjón­ustu í boði rík­is­ins – og leggja Apple og alla hina í sam­keppn­inni.

Þetta snýst þó ekki bara um það hvort bank­ar séu í eigu rík­is­ins eða ekki – held­ur miklu frem­ur um það hversu stórt og fyr­ir­ferðar­mikið rík­is­valdið á að vera í at­vinnu­líf­inu. Ríki og sveit­ar­fé­lög eiga nógu erfitt með að sinna rekstri mennta- og heil­brigðis­stofn­ana með full­nægj­andi hætti. Allt er þetta áminn­ing um að við eig­um að vera ófeim­in að ræða alla kosti þess að láta einkaaðila sinna rekstri fyr­ir­tækja og leggja af þá mýtu að ríkið eitt geti veitt full­nægj­andi þjón­ustu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. febrúar 2021.