Einkarekin heilsugæsla lausn fyrir landsbyggðina?

Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem situr í velferðarnefnd þingsins, ræddi möguleikann á einkarekinni heilsugæslu á Suðurnesjum við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í vikunni. Ráðherra svaraði því til að hún vilji stíga mjög varlega til jarðar hvað varðar aðra rekstraraðila en ríkið. Vilhjálmur Árnason ræddi kosti einkarekinnar heilsugæslu í hlaðvarpsþættinum Pólitíkinni en hlusta má á þáttinn hér.

Reglulega berast fréttir af biðlistum og að verulega vanti upp á öfluga nútímaheilsugæslu á landsbyggðinni, nægir í þessu sambandi að nefna svæði eins og Suðurnes, Vestmannaeyjar og Akureyri. Íbúum fjölgar en hvorki fé né heilbrigðisstarfsfólk fylgir þeirri þróun, að mati heimafólks.

Vilhjálmur sagði í Pólitíkinni að mönnunarvandi hefði horfið eins og dögg fyrir sólu þar sem einkarekstur er í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu, þjónustan væri betri og meiri ánægja hjá bæði starfsfólki og sjúklingum. Skoðanakönnun sem Morgunblaðið birti fyrir sléttu ári staðfestir þetta og sýnir að af fimmtán heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins voru það hinar fjórar einkareknu sem komu best út í könnun meðal þeirra sem hafa nýtt sér þjónustu heilsugæslustöðva.

„Það er stærsta hagsmunamál þegna þessa lands að mestu fjármunirnir sem fara í heilbrigðismál þjóðarinnar séu rétt nýttir og fólk fái góða þjónustu fyrir sig og sína,“ segir Vilhjálmur sem vill að Sjálfstæðisflokkurinn setji aukna einkarekna heilsugæslu sem eitt af sínum helstu baráttumálum fyrir komandi Alþingiskosningar og skilyrði fyrir ríkisstjórnarþátttöku. „Ef við berjumst ekki fyrir því þá veit ég ekki hvað við erum að gera hérna,“ sagði Vilhjálmur.