Framfaraskref í stafrænum veruleika

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra:

Stafræn tækni hefur umbylt samskiptum mannkynsins. Hún hefur falið í sér gífurleg tækifæri til framfara en einnig möguleika til þess að festa í sessi skaðlega hegðun og háttsemi sem birtist með nýjum hætti. Samskipti breytast og líka brot gegn fólki, þar á meðal ofbeldisglæpir.

Rafræn gátt 112 er gríðarlegt framfaraskref sem byggist á gagnkvæmum samskiptum til þess að lækka þröskuldinn til viðbragðs- og stuðningsaðila til að tilkynna um ofbeldi. Sumir hafa veigrað sér við að hringja og unga kynslóðin kann oft betur við samskipti í gegnum takkaborðið á tölvunni eða símanum. Þá verður Neyðarlínan styrkt til að skipuleggja vitundarvakningu í kringum vefgáttina til að nálgast viðkvæma hópa með það markmið að hvetja alla til að segja frá og vekja athygli á mismunandi birtingarmyndum ofbeldis.

Rafræn gátt 112 er ein af megintillögum aðgerðateymis gegn ofbeldi sem við félags- og barnamálaráðherra skipuðum til að stýra og samræma aðgerðum gegn ofbeldi á tímum efnahagsþrenginga og áfalla. Fleiri tillögum hefur nú þegar verið hrundið af stað eins og opnun nýs Kvennaathvarfs fyrir konur á Akureyri og vitundarvakningu lögreglunnar til barna um ofbeldi. Þá hefur skilvirkni verið aukin í málaflokknum með auknum rafrænum samskiptum innan kerfisins. Þannig berast upplýsingar hratt og örugglega milli stofnana sem koma að ofbeldisbrotum og samhæfa betur aðgerðir gegn þeim.

Á yfirstandandi þingi hef ég einnig mælt fyrir lagabreytingum sem málefninu tengjast um umsáturseinelti og kynferðislega friðhelgi, sem styrkja vernd brotaþola gegn margs konar ofbeldi. Ákvæði er varðar umsáturseinelti er komið í almenn hegningarlög.Kynferðisleg friðhelgi mun styrkja réttarvernd gegn kynferðisofbeldi í gegnum stafræna tækni, sem er því miður orðin algeng aðferð til að brjóta á einstaklingum. Mikilvægt er að styrkja réttarvernd einstaklinga með hliðsjón af þeim samfélagslegu breytingum sem hafa orðið með aukinni tæknivæðingu og að lækka þröskulda til að tilkynna um öll brot og hafa aðgengi að viðbragðsaðilum. Það er mikilvægt að stjórnvöld láti sig þessi mál varða og bregðist við með þeim hætti að hægt sé að veita vernd og öryggi. Til hamingju með 112 daginn!

Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. febrúar 2021.