Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu

Bryndís Haraldsdóttir, alþingismaður:

Álag á sam­göngu­kerfið á Íslandi hef­ur auk­ist mikið á síðasta ára­tug eða svo, tvær millj­ón­ir ferðamanna fóru um þjóðvegi lands­ins og við heima­menn vor­um dug­leg­ir að ferðast og fara á milli staða. Því miður fylgdi nauðsyn­legt fjár­magn til vega­mála ekki í kjöl­farið og þrátt fyr­ir mikla inn­spýt­ingu á síðustu árum þá eig­um við enn langt í land með að tryggja ör­yggi á þjóðveg­um lands­ins. Þá eru eft­ir nauðsyn­leg­ar fram­kvæmd­ir á sam­göngu­mál­um hér á höfuðborg­ar­svæðinu, svæði sem tekj­ur jú á móti öll­um ferðamönn­un­um og þar sem bú­ist er við mestri íbúa­fjölg­un eða um 70 þúsund fram til árs­ins 2040. Höfuðborg­ar­svæðið hafði orðið eft­ir í umræðu um sam­göngu­upp­bygg­ingu, ein­blínt var á þjóðvegi, brýr og göng á lands­byggðinni. Sann­ar­lega allt þörf verk­efni, en höfuðborg­ar­svæðið má ekki gleym­ast. Á ár­un­um 2007-2017 fóru ein­ung­is 17% af öllu ný­fram­kvæmda­fé til höfuðborg­ar­svæðis­ins, sem er allt of lítið. Góðu frétt­irn­ar eru þær að á síðustu árum hef­ur verið unnið mark­visst að því að greina hvar helstu stífl­urn­ar eru í um­ferðarflæðinu okk­ar. Sér­fræðing­ar hafa greint öll gatna­mót, flæði um­ferðar, skipu­lags- og upp­bygg­ingaráætlan­ir og nú er til heild­stæð áætl­un um hvernig á að bæta úr. Þessi heild­aráætl­un birt­ist í höfuðborg­arsátt­mál­an­um sem und­ir­ritaður hef­ur verið af öll­um sveit­ar­fé­lög­un­um og rík­inu. Hann trygg­ir að á næstu árum renni mun meira fé til fram­kvæmda á höfuðborg­ar­svæðinu og kom­inn tími til. Lyk­ill­inn að þess­um ár­angri er vönduð og góð und­ir­bún­ings­vinna bæði hjá ríki og sveit­ar­fé­lög­un­um á svæðinu. Fyr­ir­tæk­inu Betri sam­göng­um hef­ur verið falið að halda utan um fram­kvæmd verk­efn­is og út­færa sátt­mála í raun­veru­leg­um mann­virkj­um, bæði stofn­vega­fram­kvæmd­um, borg­ar­línu svo og göngu- og hjól­reiðastíg­um. Nú reyn­ir á að all­ir standi við sitt svo hægt sé að ferðast um svæðið með ör­ugg­um og greiðum hætti á fjöl­breytt­an hátt þannig að raun­veru­legt frelsi í sam­göng­um sé til staðar.

Sunda­braut er mik­il­væg

Sunda­braut er ekki hluti af höfuðborg­arsátt­mál­an­um en er engu að síður mik­il­væg sam­göngu­bót bæði fyr­ir höfuðborg­ar­svæðið en líka fyr­ir lands­byggðina.

Sunda­braut stytt­ir vega­lengd milli Kjal­ar­ness og miðborg­ar og bæt­ir um­ferðaraðgengi frá Vest­ur- og Norður­landi að borg­inni. Þá létt­ir Sunda­braut á um­ferð um Vest­ur­lands­veg í gegn­um Mos­fells­bæ. Sunda­braut spar­ar akst­ur og þunga­flutn­inga og mun þannig spara kol­efn­isút­blást­ur. Sunda­braut er mik­il­væg teng­ing við gatna­kerfi höfuðborg­ar­svæðis­ins. Með Sunda­braut felst bætt teng­ing Grafar­vogs­hverf­is við gatna­kerfi borg­ar­inn­ar og tölu­vert myndi draga úr álagi um Ártúns­brekku. Þá er mik­il­vægt út frá al­manna­varna­sjón­ar­miðum að fjölga teng­ing­um út úr borg­inni.

Einkafram­kvæmd er eina lausn­in

Kostnaður við Sunda­braut er áætlaður á bil­inu 70-80 millj­arðar. Til sam­an­b­urðar var allt ný­fram­kvæmda- og viðhalds­fé Vega­gerðar­inn­ar á land­inu öllu á 10 ára tíma­bili 2007-2017 á verðlagi árs­ins 2018 um 160 millj­arðar, eða eins og tvær Sunda­braut­ir. Fjár­fest­ing­ar í veg­um og sam­göngu­mann­virkj­um hafa sem bet­ur fer auk­ist á síðustu árum. Heild­ar­fram­lög til Vega­gerðar­inn­ar hafa farið úr um 25 millj­örðum í 30 millj­arða, en þar eru bæði innviðir í flugi, sigl­ing­um og vega­kerfi. Það er því al­gjör­lega óraun­hæft að ætla að hægt sé að taka 70-80 millj­arða, til að leggja Sunda­braut, úr rík­is­sjóði. Það myndi kalla á að ekk­ert annað yrði gert í viðhaldi eða upp­bygg­ingu sam­göngu­mann­virkja ann­ars staðar á land­inu nú eða að fjár­magn til þess mála­flokks yrði tekið úr öðrum mik­il­væg­um mála­flokk­um eins og heil­brigðis­kerf­inu, mennta­kerf­inu, lög­gæslu o.s.frv. Hér þarf ein­fald­lega aðrar lausn­ir. Í mörg ár hef­ur verið bent á mögu­leika á sam­starfs­verk­efni einkaaðila og hins op­in­bera, svo­kölluð PPP-verk­efni, og eru Hval­fjarðargöng besta dæmið um slíkt hér á landi.

Ég lagði ásamt nokkr­um þing­mönn­um Sjálf­stæðis­flokks­ins fram þings­álykt­un þar sem lagt er til að Sunda­braut verði boðin út í einkafram­kvæmd.

Áhuga­sam­ir hóp­ar geta þá komið með sína út­færslu af legu, aðferðafræði, hönn­un, fjár­mögn­un og rekstri. Viðkom­andi hefðu heim­ild til að rukka veg­gjöld í ákveðinn tíma, en að þeim tíma liðnum yrði mann­virkið rík­is­ins.

Ég er sann­færð um að þetta sé raun­hæf leið til að sjá Sunda­braut verða að veru­leika. Ég tel að líf­eyr­is­sjóðir og aðrir fjár­fest­ar sem horfa til lengri tíma telji Sunda­braut arðbær­an og álit­leg­an fjár­fest­inga­kost. Lát­um á það reyna og könn­um hvort einkafram­takið hafi burði í að reisa Sunda­braut. Fram­kvæmd­ina sem rif­ist hef­ur verið um í hátt í 50 ár.

Við höf­um engu að tapa en allt að vinna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. febrúar 2021.