Grannríkjasamstarfið gulls ígildi

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra:

Við sjá­um merki þess að heims­far­ald­ur­inn hafi magnað upp aðrar áskor­an­ir á alþjóðavett­vangi, að friðar­horf­ur versni og að þró­un­ar- og mannúðar­mál­um fari hrak­andi. Það kall­ar á meiri alþjóðasam­vinnu, ekki minni. Bar­átt­an við kór­ónu­veiruna vinnst svo end­an­lega með þróun og dreif­ingu bólu­efn­is um víða ver­öld, því eng­inn er óhult­ur fyrr en all­ir eru óhultir. Veir­an virðir eng­in landa­mæri og eina leiðin til að stemma stigu við út­breiðslu henn­ar er að ríki heims vinni sam­an að sótt­vörn­um en standi um leið vörð um ut­an­rík­is­viðskipti og vöru­flutn­inga. Það hef­ur að mestu tek­ist sem er alls ekki sjálf­gefið.

Við þess­ar aðstæður er mik­il­vægt að hafa trausta fót­festu. Það höf­um við Íslend­ing­ar með aðild að alþjóðastofn­un­um og -samn­ing­um, en ekki síður í gegn­um virkt svæðasam­starf og tví­hliða sam­skipti við önn­ur ríki. Nor­rænt sam­starf og sam­vinna Norður­landa og Eystra­salts­ríkja (NB8) skipt­ir þar miklu máli.

Fjar­fund­ir frek­ar en flug­ferðir

Í fyrra tók ég þátt í 31 ráðherra­fundi með Norður­lönd­un­um og Eystra­salts­ríkj­un­um. Þetta er met­fjöldi og hef­ur mik­ill meiri­hluti verið fjar­fund­ir á net­inu. Að mínu mati hef­ur reynsl­an af fjar­fund­um verið svo góð að full ástæða er til að halda þeim áfram. Ég hef þess vegna lagt til við koll­ega mína á Norður­lönd­um að taka hönd­um sam­an við að hvetja stofn­an­ir og aðra til að fjölga fjar­fund­um og minnka þannig kol­efn­is­spor, spara og færa alþjóðasam­skipti inn í 21. öld­ina. Ég hef nýtt alla þessa fundi til að út­skýra hags­muni Íslands fyr­ir sam­starfs­ríkj­um og óska liðveislu í ein­stök­um mál­um. Ég hef einnig lagt mig fram um að hlusta og læra af reynslu annarra enda þarf hvort tveggja til að ná ár­angri í alþjóðasam­skipt­um: Að standa með sjálf­um sér og þekkja hags­muni annarra.

Ísland í for­ystu grann­ríkja­sam­starfs

Ísland gegndi for­mennsku í Norður­landa- og NB8-sam­starf­inu áður en heims­far­ald­ur­inn brast á. Á for­mennsku­ár­inu bar hæst tveggja daga ráðherra­fund Norður­land­anna og Eystra­salts­ríkj­anna í Borg­ar­nesi í sept­em­ber 2019 og svo sam­eig­in­lega nor­ræna ákvörðun tveim­ur mánuðum síðar um til­lögu mína að fela Birni Bjarna­syni að gera til­lög­ur um aukið sam­starf á sviði ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mála, svipað og Thor­vald Stolten­berg gerði í frægri skýrslu ára­tug fyrr. Þessi samstaða lýs­ir miklu trausti í garð okk­ar Íslend­inga og hin svo­kallaða „Bjarna­son Report“ hef­ur verið lofuð sem góður grunn­ur að frek­ara sam­starfi, nú síðast á vel heppnuðum fjar­fundi á veg­um Norður­landaráðs fyrr í þess­ari viku. Með þessu frum­kvæði Íslands höf­um við sýnt að við erum ekki bara þátt­tak­end­ur í Norður­landa­sam­starf­inu held­ur get­um við líka mótað áhersl­ur þess og framtíðar­stefnu.

Við höf­um einnig gegnt for­mennsku í Norður­skauts­ráðinu í tæp tvö ár. Þeirri for­mennsku lýk­ur á ráðherra­fundi sem von­andi fer fram hér­lend­is í maí með þátt­töku Banda­ríkj­anna, Rúss­lands og Kan­ada, auk Norður­land­anna og fjölda áheyrn­ar­ríkja og annarra. Ég nefni þetta hér því vel und­ir­bú­in og fag­mann­lega fram­kvæmd for­mennska í nor­rænni sam­vinnu, í NB8-sam­starf­inu og í Norður­skauts­ráðinu hef­ur styrkt stöðu Íslands og þjónað ís­lensk­um hags­mun­um.

Staða Íslands sterk

Alls staðar í þessu fjöl­breytta sam­starfi höf­um við lagt áherslu á mann­rétt­indi, ör­ygg­is­mál, þ.m.t. netör­yggi, á hags­muni á norður­slóðum og um­hverf­is­mál. Viðskipta­sam­starf er svo ávallt í for­grunni. Þar er mik­il­vægt að hafa í huga að sam­an­lagt eru Norður­lönd­in eitt stærsta „viðskipta­ríki“ Íslands þegar litið er til inn- og út­flutn­ings á vör­um og þjón­ustu, sjón­ar­mun á eft­ir Banda­ríkj­un­um. Í gegn­um fót­festu okk­ar í sam­starfi Norður­land­anna og Eystra­salts­ríkj­anna er staða Íslands því sterk. Og þegar efna­hags­lífið fer aft­ur á fullt þegar far­sótt­in rén­ar bend­ir margt til þess að viðskipti milli þess­ara vina­ríkja muni aukast enn frek­ar. Sú vinna sem við í ráðuneyt­inu höf­um lagt í und­an­far­in miss­eri við að búa í hag­inn fyr­ir vax­andi ut­an­rík­is­viðskipti á því án efa eft­ir að koma sér vel.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar 2021.