Ólöglegar og refsiverðar skoðanir

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Án mál­frels­is eru sam­fé­lög hvorki opin né frjáls. Rétt­ur borg­ar­anna til að láta skoðanir sín­ar í ljós, án ótta við refsi­vönd stjórn­valda, er helg­ur rétt­ur og órjúf­an­leg­ur hluti af lýðræði og opnu sam­fé­lagi. Með mál­frelsi að vopni hef­ur verið tek­ist á við öfga­full­ar trú­ar­setn­ing­ar og hug­mynda­fræði alræðis og ógn­ar­stjórn­ar. Harðstjór­ar hafa verið felld­ir af stalli.

Í frjáls­um sam­fé­lög­um er sam­keppni hug­mynda og skoðana aflvaki fram­fara. Í sam­fé­lög­um ein­ræðis eða alræðis ógn­ar mál­frelsi þjóðskipu­lag­inu og þar með vald­höf­un­um. Mál­frelsið er því brot­hætt og að því er víða sótt. Rit­skoðun og bann­fær­ing skoðana er vopn kúg­ara til að tryggja völd­in. Komið er í veg fyr­ir starf­semi frjálsra fjöl­miðla, upp­lýs­ingaflæði er heft og reynt að tryggja að al­menn­ing­ur hafi aðeins aðgang að „rétt­um“ upp­lýs­ing­um og „lög­gilt­um“ skoðunum.

Rit­skoðun teyg­ir sig yfir landa­mæri, líkt og sýnt er fram á í skýrslu PEN America um áhrif kín­verskra stjórn­valda á alþjóðleg­an kvik­myndaiðnað. Ég vakti at­hygli á þess­ari skýrslu í grein í sept­em­ber síðastliðnum og benti á að með aukn­um alþjóðleg­um áhrif­um Pek­ing hafi rit­skoðun­ar­arm­ur kín­verska komm­ún­ista­flokks­ins náð taki á út­gef­end­um, fræðimönn­um, rit­höf­und­um, blaðamönn­um og ekki síst kvik­myndaiðnaðinum, óháð rík­is­borg­ara­rétti þeirra eða landa­mær­um. Af­leiðing­in er sú að í drauma­borg­inni, Hollywood, hef­ur frjáls tján­ing verið sett út í horn.

Þverr­andi umb­urðarlyndi

En það eru ekki aðeins ógn­ar­stjórn­ir sem telja nauðsyn­legt að ganga á rétt borg­ar­anna til að láta skoðanir sín­ar í ljós. Til­hneig­ing til að koma bönd­um á „óæski­leg­ar“ skoðanir virðist vera að aukast í lýðræðis­ríkj­um. Þannig hef­ur umb­urðarlyndi gagn­vart ólík­um sjón­ar­miðum farið þverr­andi inn­an veggja banda­rískra há­skóla. Þekk­ing­ar­leit vís­ind­anna á und­ir högg að sækja og póli­tísk­ur rétt­trúnaður sæk­ir á. Und­ir spila marg­ir af áhrifa­mestu fjöl­miðlum lands­ins, alþjóðleg­ir sam­fé­lags­miðar sem og stjórn­mála­menn. Af­leiðing­in er sund­ur­lyndi þjóðar þar sem til verður frjó gróðrar­stía sam­særis­kenn­inga, öfga­skoðana og ógeðfelldra hug­mynda.

Í síðustu viku beitti meiri­hluti demó­krata í full­trúa­deild Banda­ríkjaþings valdi sínu gagn­vart póli­tísk­um and­stæðingi. Mar­jorie Tayl­or Greene, þing­konu re­públi­kana frá Georgíu, var vikið úr tveim­ur nefnd­um þings­ins. Með þessu skapa demó­krat­ar hættu­legt for­dæmi; talið verður eðli­legt að meiri­hluti þings geti komið í veg fyr­ir þátt­töku póli­tísks and­stæðings í nefnd­ar­störf­um vegna skoðana.

Lík­lega er vægt til orða tekið að halda því fram að skoðanir þing­kon­unn­ar séu öfga­full­ar og byggðar á fjar­stæðukennd­um sam­særis­kenn­ing­um. Greene hef­ur sakað Nancy Pe­losi, for­seta full­trúa­deild­ar­inn­ar, um landráð og bent á að við því liggi dauðarefs­ing.

Greene er full­trúi flests þess sem er ógeðfellt við stjórn­mál. Hat­urs­full og fá­fróð. Hún virðist ófær um sam­kennd eða samúð. Greene hef­ur haldið því fram að skotárás í Mar­jory Stonem­an Douglas-mennta­skól­an­um í Park­land í Flórída árið 2018, þar sem 17 ung­menni og kenn­ar­ar voru myrt og 17 særðir, hafi verið sviðsett. Hún full­yrti að flug­vél hefði ekki verið flogið á Pentagon 11. sept­em­ber 2001. Greene hef­ur dregið þess­ar frá­leitu sam­særis­kenn­ing­ar til baka en á blaðamanna­fundi í liðinni viku gaf hún í skyn að sam­fé­lags­miðlar hefðu af­vega­leitt hana.

Refsi­verðar skoðanir

Von­andi hafa flest­ir skömm á fram­göngu og skoðunum Greene. En fá­fræði henn­ar, heimska og öfg­ar minnka ekk­ert við að meiri­hluti demó­krata reyni að setja hana til hliðar. Of­beldi meiri­hluta gagn­vart póli­tísk­um and­stæðingi (jafn­vel ógeðfelld­um) skap­ar ekki aðeins for­dæmi til framtíðar held­ur verður vatn á myllu fjar­stæðukenndra sam­særis­kenn­inga. Hitt er svo annað að sund­ur­tætt­ur Re­públi­kana­flokk­ur­inn er þess ófær að slíta sam­vist­um við Greene.

Mál­frelsi krefst þess að sam­fé­lag þoli for­pokaðar skoðanir, einnig þær sem eru byggðar á staðleys­um, rang­hug­mynd­um eða sam­særis­kenn­ing­um. „Ég fyr­ir­lít skoðanir yðar, en ég er reiðubú­inn til að láta lífið fyr­ir rétt yðar til að halda þeim fram,“ sagði Voltaire með réttu. Rétt­ur­inn til að hafa rangt fyr­ir sér er hluti mál­frels­is sem get­ur aldrei tak­mark­ast af því sem er vin­sælt, nýt­ur al­mennr­ar viður­kenn­ing­ar eða er meiri­hluta þókn­an­legt. En auðvitað er frelsið til að segja hug sinn ekki án ábyrgðar – all­ir þurfa að standa við orð sín og bera á þeim ábyrgð.

Ég ef­ast ekki um góðan hug þeirra þing­manna sem lagt hafa fram frum­varp um að það verði gert refsi­vert að af­neita hel­för­inni op­in­ber­lega. Að neita að horf­ast í augu við sögu­leg­ar staðreynd­ir um verstu glæpi mann­kyns­sög­unn­ar – skipu­lögð fjölda­morð nas­ista á gyðing­um í seinni heims­styrj­öld­inni – er merki um sjúk­legt ástand manns­hug­ar.

Bann við ákveðnum skoðunum elur því miður af sér villu­trú og ryður far­veg fyr­ir öfga­hyggju og af­neit­un sögu­legra staðreynda. Ég ótt­ast að nái frum­varpið fram að ganga, um allt að tveggja ára fang­elsi fyr­ir að af­neita hel­för­inni op­in­ber­lega, snú­ist það upp í and­hverfu sína þvert á til­gang flutn­ings­manna; að berj­ast gegn vax­andi gyðinga­andúð. Alan Ders­howitz, fyrr­ver­andi laga­pró­fess­or við Har­vard-há­skóla, yf­ir­lýst­ur demó­krati og harður stuðnings­maður Ísra­els, hef­ur varað ein­dregið við laga­smíð af þessu tagi.

Andúðin gagn­vart öðrum trú­ar­brögðum, minni­hluta­hóp­um eða and­stæðum skoðunum verður ekk­ert minni þótt það sé gert refsi­vert að op­in­bera fá­visku. For­dóm­ar verða ekki kveðnir niður með því að hóta fang­elsi eða fé­sekt­um, held­ur með því að mæta þeim op­in­ber­lega með rök­um. Fá­vísi og heimska verða ekki læknuð með refsi­vendi rík­is­ins. Og ef við sætt­um okk­ur við að meiri­hluti þjóðþings geti rekið póli­tísk­an and­stæðing úr þing­nefnd, er lagt til at­lögu við horn­stein lýðræðis­ins – mál­frelsið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. febrúar 2021.