Endurskoðun búvörusamninga lokið

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

End­ur­skoðun ramma­samn­ings um al­menn starfs­skil­yrði land­búnaðar­ins er lokið. Sam­komu­lag sem und­ir­ritað var í vik­unni er mik­il­væg­ur og ánægju­leg­ur áfangi, enda er nú lokið fyrstu end­ur­skoðun á öll­um fjór­um bú­vöru­samn­ing­un­um sem tóku gildi 1. janú­ar 2017.

Í op­in­berri umræðu koma reglu­lega fram kröf­ur um upp­stokk­un á ís­lenska land­búnaðar­kerf­inu eða því haldið fram að kerfið hafi ekk­ert breyst. Þótt minna fari fyr­ir meitluðum til­lög­um í þeirri umræðu er hún samt sem áður já­kvæð. Gagn­rýni og vanga­velt­ur um hvernig hægt er að gera bet­ur eru öll­um holl. Því hef ég sagt, meðal ann­ars í tengsl­um við mót­un land­búnaðar­stefnu fyr­ir Ísland sem nú stend­ur yfir, að við eig­um ekki að ótt­ast end­ur­skoðun á land­búnaðar­kerf­inu frá grunni.

Á sama tíma er í mín­um huga óum­deilt, eins og neðan­greind um­fjöll­un ber með sér, að með end­ur­skoðun bú­vöru­samn­inga á þessu kjör­tíma­bili hafa verið gerðar um­fangs­mikl­ar breyt­ing­ar á starfs­skil­yrðum ís­lensks land­búnaðar til hins betra.

Aukið jafn­vægi í sauðfjár­rækt

Sum­arið 2018 óskaði ég eft­ir að end­ur­skoðun sauðfjár­samn­ings­ins yrði flýtt til að bregðast við erfiðleik­um í grein­inni. Í janú­ar 2019 var skrifað und­ir slíkt sam­komu­lag. Mark­mið þess var einna helst að stuðla að auknu jafn­vægi milli fram­boðs og eft­ir­spurn­ar á markaði með sauðfjár­af­urðir. Mik­il­væg­ast af öllu er að nú sjást merki um að hag­ur sauðfjár­bænda sé að vænkast, meðal ann­ars með hærra afurðaverði, þótt enn vanti þar upp á.

Þá tel ég að þeir aðlög­un­ar­samn­ing­ar sem samið var um hafi gefið góða raun en með þeim var bænd­um gert kleift að hætta eða draga úr sauðfjár­fram­leiðslu og ráðast í staðinn í fjöl­breytt verk­efni í sveit­um lands­ins. Við þurf­um hins veg­ar áfram að leita leiða til að styrkja tekju­grunn sauðfjár­rækt­ar­inn­ar og byggja und­ir stöðugan at­vinnu­rekst­ur til fram­búðar og stend­ur nú yfir vinna ráðuneyt­is­ins og Lands­sam­bands sauðfjár­bænda til að svo megi verða. Henni verður lokið í vor með sam­eig­in­legri aðgerðaáætl­un.

Fallið frá af­námi kvóta­kerf­is

Í sam­komu­lag um end­ur­skoðun naut­gripa­samn­ings­ins í októ­ber 2019 voru gerðar grund­vall­ar­breyt­ing­ar á hinum upp­haf­lega samn­ingi. Þannig var fallið frá af­námi kvóta­kerf­is í mjólk­ur­fram­leiðslu sem stefnt var að með und­ir­rit­un naut­gripa­samn­ings­ins í fe­brú­ar 2016 og átti að taka gildi þann 1. janú­ar 2021. Óum­deilt er að nú­gild­andi fram­leiðslu­stýr­ing hef­ur átt rík­an þátt í að stuðla að jafnri stöðu mjólk­ur­fram­leiðenda um land allt og til­svar­andi byggðafestu. Jafn­framt hef­ur þetta kerfi ýtt und­ir þá miklu hagræðingu sem orðið hef­ur í grein­inni á und­an­förn­um árum en sú þróun hef­ur orðið til hags­bóta fyr­ir bæði grein­ina og neyt­end­ur.

Stjórn­völd og bænd­ur sam­einuðust um leið um þá metnaðarfullu stefnu­mörk­un að ís­lensk naut­griparækt verði að fullu kol­efnis­jöfnuð eigi síðar en árið 2040. Það er jafn­framt ánægju­legt, og til marks um þá ríku áherslu sem lögð er á þessa stefnu­mörk­un, að stjórn­völd og bænd­ur eru sam­mála um að ráðstafa fjár­magni af samn­ingn­um til aðgerða til að ná þess­um mark­miðum. Mögu­leik­ar bænda til lofts­lags­verk­efna eru breyti­leg­ir og ætl­un­in er að nýta fjár­mun­ina sem best eft­ir aðstæðum á hverj­um stað. Það mun skila best­um ár­angri.

Blásið til sókn­ar í garðyrkju

Með end­ur­skoðun garðyrkju­samn­ings­ins í maí sl. var blásið til sókn­ar í ís­lenskri garðyrkju. Stjórn­völd og bænd­ur sam­einuðust um að bregðast strax við þeirri þróun að markaðshlut­deild inn­lendr­ar fram­leiðslu á inn­an­lands­markaði helstu garðyrkju­af­urða fell í tonn­um úr 75% árið 2010 í 52% árið 2018. Gerðar voru grund­vall­ar­breyt­ing­ar á starfs­um­hverfi grein­ar­inn­ar og með því skapaðar for­send­ur þess að hægt verði að auka fram­leiðslu á ís­lensku græn­meti um 25% á næstu þrem­ur árum og auka þannig markaðshlut­deild inn­lendr­ar fram­leiðslu. Til þess að ná þessu mark­miði var ár­legt fjár­fram­lag stjórn­valda til samn­ings­ins hækkað um 200 millj­ón­ir króna á ári, úr um 660 millj­ón­um í um 860 millj­ón­ir. Þeir fjár­mun­ir verða m.a. nýtt­ir til að stór­auka fram­lög veg­an raf­orku­kostnaðar, auka við jarðrækt­ar­styrki til að stuðla að fjöl­breytt­ari rækt­un á græn­meti hér á landi og til að tryggja að fleiri teg­und­ir njóti bein­greiðslna.

Bú­vörumerki fyr­ir ís­lensk­ar vör­ur

Í sam­komu­lag­inu sem und­ir­ritað var í vik­unni er að finna ákvæði sem ég er sann­færður um að muni styrkja und­ir­stöður land­búnaðar­ins, m.a. ákvæði um að ný land­búnaðar­stefna fyr­ir Ísland verði grunn­ur að end­ur­skoðun bú­vöru­samn­inga árið 2023. Um leið verður mæla­borð land­búnaðar­ins skref í að skapa betri yf­ir­sýn yfir stöðu grein­ar­inn­ar á hverj­um tíma og út­færsla bú­vörumerk­is fyr­ir ís­lensk­ar land­búnaðar­af­urðir að nor­rænni fyr­ir­mynd verður mik­il­vægt til að tryggja sér­stöðu ís­lenskra vara á markaði, til hags­bóta fyr­ir fram­leiðend­ur og neyt­end­ur. Um leið er að finna í sam­komu­lag­inu sam­eig­in­leg­an skiln­ing rík­is og bænda á því að toll­vernd sé hluti af starfs­skil­yrðum land­búnaðar­ins.

Öflug­ur ís­lensk­ur land­búnaður

Að baki end­ur­skoðun þess­ara fjög­urra samn­inga er mik­il vinna og ég vil þakka þeim fjöl­mörgu sem komu að henni, meðal ann­ars samn­inga­nefnd­um en Unn­ur Brá Kon­ráðsdótt­ir var formaður samn­inga­nefnd­ar rík­is­ins. Einnig vil ég þakka sam­ráðshópi um end­ur­skoðun bú­vöru­samn­inga und­ir for­ystu Bryn­hild­ar Pét­urs­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra Neyt­enda­sam­tak­anna, og Har­ald­ar Bene­dikts­son­ar alþing­is­manns fyr­ir þeirra mik­il­væga fram­lag til vinn­unn­ar.

Í mín­um huga er afrakst­ur þess­ar­ar um­fangs­miklu vinnu sá að und­ir­stöður ís­lensks land­búnaður hafa verið treyst­ar. Næsta stóra varðan í þeim efn­um er mót­un land­búnaðar­stefnu fyr­ir Ísland sem nú er í full­um gangi og mun ljúka í vor. Það eru því spenn­andi tím­ar fram und­an.

Það er mik­ill vel­vilji í ís­lensku sam­fé­lagi til bænda. Hlut­verk stjórn­valda á hverj­um tíma er að búa þeim sann­gjörn starfs­skil­yrði og hjálpa þeim að nýta tæki­færi sín sem best. Að því höf­um við unnið með end­ur­skoðun bú­vöru­samn­ing­anna. Ég er sann­færður um að framtíðin er björt þó að land­búnaður­inn og þjóðfé­lagið í heild þurfi nú tíma­bundið að tak­ast á við áföll af öðrum or­sök­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. febrúar 2021.