Mynd af althingi.is

Prófkjör í Suðurkjördæmi í lok maí

Aðalfundur Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi ákvað á aðalfundi sínum 6. febrúar sl. að viðhafa prófkjör við uppröðun á efstu sætum framboðslista fyrir kosningar til Alþingis haustið 2021.

Prófkjörið fer fram 29. maí nk.

Þátttaka í prófkjörinu verður heimil öllum fullgildum meðlimum sjálfstæðisfélaganna í kjördæminu sem þar eru búsettir. Einnig þeim stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins sem munu eiga kosningarétt í kjördæminu við kosningarnar 25. september 2021 og hafa undirritað inntökubeiðni í sjálfstæðisfélög í kjördæminu fyrir lok kjörfundar og teljast þar með komnir á flokksskrá.

Kjörnefnd var kjörin á fundinum sem mun á næstu dögum ákveða framboðsfrest fyrir prófkjörið og hefja undirbúning fyrir prófkjörið að öðru leyti í samræmi við reglur flokksins.

Kjördæmisráðið mun að óbreyttu næst koma saman í júní til að ganga endanlega frá framboðslista.

Á fundinum var kjörið í stjórn, flokksráð og miðstjórn en Ingvar P. Guðbjörnsson á Hellu var endurkjörinn formaður til næsta starfsárs.

Kjördæmisráð kýs þrjá fulltrúa í miðstjórn og voru þau Ásta Stefánsdóttir, Árborg, Guðbergur Reynisson, Reykjanesbæ og Jarl Sigurgeirsson, Vestmannaeyjum kjörin til setu í miðstjórn næsta starfsár. Auk þeirra er formaður kjördæmisráðs sjálfkjörinn í miðstjórn.

Fundurinn var haldinn á netinu og sóttu hann vel á annað hundrað manns.