Alþjóðamálin varða okkur öll

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra:

Fyr­ir fá­mennt eyríki eins og Ísland eru sam­skipt­in við um­heim­inn sann­kölluð lífæð. Súr­efnið í hag­kerf­inu okk­ar eru þau út­flutn­ings­verðmæti sem ís­lensk fyr­ir­tæki skapa, ör­yggi lands­ins og varn­ir eru tryggð í sam­vinnu við aðrar þjóðir og í alþjóðasam­starfi leggj­um við okk­ar af mörk­um við úr­lausn stærstu áskor­ana sem jarðarbú­ar standa frammi fyr­ir.

Í þessu ljósi er það sér­stakt um­hugs­un­ar­efni hve litl­ar umræður eru um ut­an­rík­is- og alþjóðamál í okk­ar ágæta sam­fé­lagi. Rann­sókn­ir benda til að dregið hafi veru­lega úr er­lendri fréttaum­fjöll­un ís­lenskra fjöl­miðla á und­an­förn­um árum. Fæst­ir miðlar hafa burði til að kafa djúpt í þess­um efn­um, hvað þá að hafa frétta­rit­ara er­lend­is á sín­um snær­um – það er af sem áður var þegar forsíða þessa dag­blaðs var al­farið helguð er­lend­um frétt­um.

Ut­an­rík­is­mál á Alþingi

Þetta á líka við um stjórn­mál­in, umræður um alþjóðamál á Alþingi eru furðulega litl­ar miðað við þá hags­muni sem eru í húfi fyr­ir Ísland. Alþjóðastjórn­mála­fræðing­ur­inn Vil­borg Ása Guðjóns­dótt­ir hef­ur ít­rekað vakið at­hygli á þess­ari staðreynd í skoðanap­istl­um sín­um. Ný­verið benti hún rétti­lega á að þær „áskor­an­ir sem heim­ur­inn stóð frammi fyr­ir áður en far­ald­ur­inn skall á eru enn stærri og erfiðari viður­eign­ar nú og nýj­ar áskor­an­ir hafa bæst við. Það á við hvort sem litið er til heil­brigðismála, heimsviðskipta, ör­ygg­is- og varn­ar­mála, mann­rétt­inda-, þró­un­ar- og um­hverf­is­mála, mat­væla­ör­ygg­is eða lýðræðisþró­un­ar.“ Þetta eru orð í tíma töluð.

Í mín­um huga er því fagnaðarefni að í dag eru tveir dag­skrárliðir á Alþingi sér­stak­lega helgaðir ut­an­rík­is­mál­um: Ann­ars veg­ar er sér­stök umræða um sam­skipti Íslands og Banda­ríkj­anna eft­ir valda­skipt­in í nýliðnum mánuði og hins veg­ar fæ ég tæki­færi til að flytja munn­lega skýrslu um ut­an­rík­is­viðskipta­stefnu Íslands.

Sam­skipt­in við Banda­rík­in

Banda­rík­in eru okk­ar mik­il­væg­asta viðskipta­land og auk þess eru djúp menn­ing­ar­tengsl á milli ríkj­anna. Þá er varn­ar­samn­ing­ur Íslands og Banda­ríkj­anna lyk­ilþátt­ur í vörn­um lands­ins. Ég hef í ráðherratíð minni lagt höfuðáherslu á að styrkja tengsl­in vest­ur um haf, meðal ann­ars með fund­um með æðstu ráðamönn­um Banda­ríkj­anna sem skilað hafa reglu­bundnu efna­hags­sam­ráði á milli land­anna svo fátt eitt sé nefnt. Þessi sam­skipti eru ekki bund­in við einn flokk held­ur höf­um við átt í góðu sam­starfi við full­trúa bæði demó­krata og re­públi­kana á Banda­ríkjaþingi, meðal ann­ars um Íslands­frum­varpið svo­nefnda. Því er ég ekki í vafa um að sam­band ríkj­anna haldi áfram að vaxa og dafna með nýj­um vald­höf­um í Washingt­on.

Tvær tíma­móta­skýrsl­ur

Hvað ut­an­rík­is­viðskipt­in varðar hlakka ég til að ræða við alþing­is­menn efni skýrsl­unn­ar Áfram gakk! Ut­an­rík­is­viðskipta­stefna Íslands sem við gáf­um ný­verið út. Óhætt er að segja að út­koma henn­ar marki tíma­mót þar sem í fyrsta skipti er á ein­um stað fjallað um alla þá samn­inga sem tengj­ast ut­an­rík­is­viðskipt­um Íslend­inga, stöðu ut­an­rík­is­viðskipta, gang mála inn­an WTO og fríversl­un­ar­sam­skipt­in við ESB og EFTA-rík­in. Fyrr í þess­ari viku kynnti ég bæði þessa skýrslu og aðra ekki síður merki­lega, Sam­starf Græn­lands og Íslands á nýj­um norður­slóðum , á fjar­fundi sem hátt í eitt hundrað full­trú­ar er­lendra ríkja með fyr­ir­svar gagn­vart Íslandi sóttu. Umræðurn­ar í kjöl­far kynn­ing­ar­inn­ar voru bæði gef­andi og gagn­leg­ar og sýndu um leið áhuga er­lendra ríkja á sam­starfi við Ísland og áhersl­um okk­ar í alþjóðasam­starfi, ekki síst því sem snýr að norður­slóðum.

Ut­an­rík­is­mál­in varða okk­ur því öll, ekki aðeins okk­ur sem sitj­um á Alþingi, og því vona ég að sem flest­ir fylg­ist með umræðunum síðar í dag og kynni sér jafn­framt ný­út­komn­ar skýrsl­ur sem nefnd­ar eru að ofan. Alþjóðamál­in eiga alltaf að vera á dag­skrá.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. febrúar 2021.