„Það er afskaplega ánægjulegur áfangi að hafa nú lokið við endurskoðun á öllum fjórum búvörusamningunum á þessu kjörtímabili. Að baki er mikil vinna með umfangsmiklum breytingum á starfsskilyrðum íslensks landbúnaðar til hins betra,“ segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs – og landbúnaðarráðherra sem í dag ásamt Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra og Gunnari Þorgeirssyni, formanni Bændasamtaka Íslands undirrituðu samkomulag um breytingar á rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins. Samkomulagið er hluti af endurskoðun búvörusamninga.
Í samkomulaginu er tæpt á fjölmörgum atriðum sem eiga að styrkja og styðja við íslenskan landbúnað. Sérstök áhersla er lögð á loftslagsmál og er kveðið á um að íslenskir landbúnaður verði að fullu kolefnisjafnaður eigi síðar en árið 2040. Þá er samstaða um að ný landbúnaðarstefna fyrir Ísland verði grunnur að endurskoðun búvörusamninga árið 2023. Jafnframt er kveðið á um að fjármunir úr rammasamning búvörusamninga renni til Bændasamtaka Íslands, m.a. til útfærslu á búvörumerki fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir að norrænni fyrirmynd. Um leið er í samkomulaginu ákvæði um tollvernd sem er hluti af starfsskilyrðum landbúnaðarins.
Sjá nánar í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.