Nú er rétti tíminn til að selja

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Nú er áformað að selja um fjórðungs­hlut rík­is­ins í Íslands­banka og von­andi ganga þær áætlan­ir eft­ir á fyrri hluta þessa árs. Rík­is­sjóður eignaðist bank­ann sem hluta af stöðug­leikafram­lagi Glitn­is á ár­inu 2015. Allt frá þeim tíma hef­ur legið fyr­ir að ríkið hygðist selja þegar tæki­færi skapaðist enda hvorki rétt né skyn­sam­legt að meiri­hluti banka­kerf­is­ins sé til lengd­ar í eigu hins op­in­bera. Fjár­bind­ing rík­is­ins er í dag um 400 millj­arðar króna í banka­starf­semi – sem er í eðli sínu áhætt­u­r­ekst­ur og sam­svar­ar um 37% af skuld­um hins op­in­bera. Þess­um fjár­mun­um væri bet­ur varið í arðsam­ari verk­efni eins og t.d. upp­bygg­ingu innviða eða til að minnka skuld­setn­ingu rík­is­sjóðs.

Eins og vænta mátti hafa úr­töluradd­ir ekki látið á sér standa og helst fundið þess­um hug­mynd­um til foráttu að tíma­setn­ing­in sé óheppi­leg í miðjum heims­far­aldri og að of lágt verð muni fást fyr­ir hlut­inn. Þessi rök stand­ast eng­an veg­inn. Þvert á móti hafa skap­ast góðar aðstæður til að hefja sölu bank­ans. Vaxta­lækk­an­ir leiða til þess að al­menn­ir fjár­fest­ar beina sjón­um sín­um í aukn­um mæli að hluta­bréf­um. Hluta­bréfa­verð hef­ur hækkað veru­lega und­an­farna mánuði. Vel heppnað hluta­fjárút­boð Icelanda­ir sl. haust gef­ur von­ir um góðan ár­ang­ur. Hluta­bréf í Íslands­banka fjölga fjár­fest­inga­kost­um og verða ef­laust eft­ir­sótt meðal al­mennra fjár­festa.

Þá hef­ur því verið haldið fram að sala sé óráðleg þar sem stór hluti lána bank­ans séu í fryst­ingu vegna far­ald­urs­ins. Þetta er orðum aukið. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá bank­an­um er slík fryst­ing öðru frem­ur bund­in við fyr­ir­tæki í ferðaþjón­ustu og nema alls um 10% af lána­safni banka ns. Áætlan­ir og aðgerðir stjórn­valda miða sér­stak­lega að því að viðsnún­ing­ur í þeirri grein verði hraður sam­hliða bólu­setn­ing­um næstu mánuði.

Loks hafa and­stæðing­ar fyr­ir­hugaðrar sölu haldið því fram að nýir eig­end­ur muni ganga að veðum og selja eign­ir fyr­ir­tækja sem eiga í erfiðleik­um. Þetta er ástæðulaus ótti. Hags­mun­ir banka og viðskipta­vina þeirra fara sam­an. Bank­ar hafa þannig hag af því að standa með viðskipta­vin­um sín­um í gegn­um erfiða tíma, líkt og ís­lensku bank­arn­ir hafa gert, og aðstoða þá við upp­bygg­ingu þegar storm­inn læg­ir. Þar er eign­ar­hald rík­is­ins eng­in for­senda. Hvergi hef­ur borið á því að Ari­on banki, sem skráður er á markað, gangi harðar fram gegn viðskipta­vin­um sín­um en rík­is­bank­arn­ir. Þó má einnig hafa í huga að ekki er stefnt að sölu meiri­hluta bank­ans í þess­ari at­rennu.

Aðal­atriðið er þó að skuld­lít­ill rík­is­sjóður hef­ur riðið baggamun­inn þegar efna­hags­áföll hafa dunið yfir þjóðina. Með yf­ir­gnæf­andi eign­ar­haldi á fjár­mála­kerf­inu dreg­ur úr mætti rík­is­ins til að mæta ytri áföll­um þegar þau verða. Nú er tæki­færi til að draga úr þeirri áhættu með því að hefja sölu á hluta­bréf­um rík­is­ins í Íslands­banka og nýta fjár­mun­ina bet­ur í þágu al­menn­ings.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. janúar 2021.