Áhrif þjóðgarðs á ferða- og atvinnufrelsi

Sveinbjörn Halldórsson, formaður Ferðaklúbbsins 4X4 og Engilbert Olgeirsson, einn eigenda Hellismanna ehf. sem eiga og reka gistiskála við Landmannahelli á Landmannaafrétti, voru gestir í Pólitíkinni í þessari viku. Í þættinum ræddu þeir frumvarp umhverfisráðherra að hálendisþjóðgarði – en þetta var seinni þátturinn af tveimur þar sem frumvarpið var til umræðu. Þáttinn má nálgast hér.

Ræddu þeir meðal annars frumvarpið út frá hugmyndum um ferðafrelsi, almannarétt og atvinnufrelsi. Komið var inn á boð og bönn og þær breytingar sem frumvarpið boðar frá því sem nú er þar sem allt er leyft nema það sé bannað yfir í að allt verði bannað nema það sé sérstaklega leyft.

Sveinbjörn ræddi reynslu þeirra sem ferðast um á vélknúnum ökutækjum í Vatnajökulsþjóðgarði og sú reynsla sett í samhengi við ákvæði í nýju frumvarpi.

Engilbert ræddi m.a. reynsluna af því að stunda rekstur á hálendinu og síðan þær breytingar sem lesa má úr frumvarpinu. Hann vill m.a. að sömu reglur gildi um umgengni við náttúruna á öllu hálendinu og telur að hægt sé að ná því fram án þjóðgarðs.

Ferðmenning var rædd og hvernig Ferðaklúbburinn 4X4 metur ábótavant að horft sé til hennar í nýju frumvarrpi.

Ákvæði um atvinnustefnu í frumvarpinu voru rædd og í lokin komu báðir inn á hvað annað en hálendisþjóðgarð sé hægt að gera til að ná fram þeim grundvallarmarkmiðum að vernda náttúruna.