Stjórn Varðar – fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík fordæmir skotárásir gegn stjórnmálaflokkum, starfsfólki þeirra og kjörnum fulltrúum, sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum síðustu daga.
Fréttir sem fluttar voru fyrir helgi af skotárásum á starfstöðvar stjórnmálaflokka og fréttir dagsins í dag af skotárás á bifreið borgarstjóra Reykjavíkur vekja óhug. Árásir af þessum toga eru aðför gegn lýðræðinu sjálfu, gegn rétti fólks til að mynda og tjá sér skoðanir á opinberum vettvangi. Slíkar árásir mega ekki líðast í opnu og frjálsu samfélagi.
Það er von stjórnar Varðar að lögreglan hafi fljótt og örugglega hendur í hári þeirra sem hafa unnið þessi voðaverk. Hugur stjórnarinnar liggur hjá borgarstjóra og starfsmönnum þeirra stjórnmálaflokka sem orðið hafa fyrir þessum árásum, vonandi munu hvorki þeir né nokkrir aðrir þurfa að upplifa slík voðaverk framar hér á landi.