Einstök tækifæri í orkumálum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Græn­ar orku­lind­ir eru ein dýr­mæt­asta nátt­úru­auðlind okk­ar Íslend­inga. Þær hafa fært okk­ur ómæld­an ávinn­ing, sparað okk­ur stjarn­fræðileg eldsneytis­kaup til hús­hit­un­ar, skapað dýr­mæt störf og út­flutn­ings­tekj­ur, hlíft and­rúms­lofti jarðar við gróður­húsaloft­teg­und­um, skapað for­send­ur fyr­ir þróun hug­vits og þekk­ing­ar á heims­mæli­kv­arða og sett Ísland í fremstu röð þjóða heims hvað varðar sjálf­bæra orku­notk­un.

For­ysta okk­ar er ekki sjálf­gef­in

Aðrar þjóðir eru nú á fleygi­ferð í átt til sjálf­bærr­ar ork­u­nýt­ing­ar. End­ur­nýj­an­leg­ir orku­gjaf­ar á borð við vind- og sól­ar­orku eru sí­fellt að verða ódýr­ari. Áhugi á mögu­leik­um græns vetn­is og ra­feldsneyt­is fer líka hratt vax­andi og víða er mik­ill þungi í þeirri þróun. Þetta er fagnaðarefni frá sjón­ar­hóli lofts­lags­mála en minn­ir okk­ur líka á að sterk staða okk­ar í alþjóðleg­um sam­an­b­urði er ekki sjálf­gefið nátt­úru­lög­mál.

Sam­fé­lagið virk­ar ekki án orku. En ork­an virk­ar ekki án sam­fé­lags­ins. Við höf­um verk að vinna til að tryggja að við verðum áfram í fremstu röð. Að við get­um nýtt tæki­fær­in til að skapa bæði sjálf­um okk­ur og um­hverf­inu dýr­mæt­an ávinn­ing.

Árang­ur kjör­tíma­bils­ins

Margt hef­ur áunn­ist í orku­mál­um á kjör­tíma­bil­inu. Hálf­um millj­arði var varið í að flýta jarðstrengja­væðingu til að auka af­hend­ingarör­yggi í kjöl­far vonsku­veðurs sem

af­hjúpaði ýmsa veik­leika. Samþykkt hef­ur verið að setja aukið fé í jöfn­un dreifi­kostnaðar raf­orku um landið, þannig að hann verði að fullu jafnaður frá og með næsta hausti. Stór­ar íviln­an­ir frá op­in­ber­um gjöld­um hafa, ásamt innviðaupp­bygg­ingu, greitt götu raf­bíla­væðing­ar­inn­ar sem er á fleygi­ferð. Þriggja ára átak til að flýta þrífös­un raf­magns á völd­um dreif­býl­is­svæðum hélt áfram. Frum­varp um ein­föld­un reglu­verks fyr­ir raflínu­fram­kvæmd­ir er komið fram. Verið er að reka smiðshöggið á reglu­verk um vindorku sem vænt­an­lega kem­ur fram á næst­unni. Ákvörðun var tek­in um að leggja nýj­an gagn­a­streng sem bæt­ir skil­yrði fyr­ir upp­bygg­ingu gagna­vera. Leiðir hafa verið teiknaðar upp til að tryggja bet­ur raf­orku­fram­boð inn á al­menn­an markað. Þannig mætti áfram telja.

Ramm­a­áætl­un er auðvitað fíll­inn í her­berg­inu. Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að það ferli þurfi að end­ur­skoða og ein­falda til að það geti þjónað til­gangi sín­um.

Ísland verði óháð jarðefna­eldsneyti 2050

Af ár­angri í orku­mál­um á kjör­tíma­bil­inu ber þó hæst að lang­tíma­orku­stefna fyr­ir Ísland var samþykkt í þver­póli­tísku sam­starfi. Það hef­ur aldrei áður verið gert.

Orku­stefn­an fel­ur m.a. í sér tíma­móta-framtíðar­sýn um að Ísland verði óháð jarðefna­eldsneyti árið 2050 sem er risa­stórt hags­muna­mál, bæði um­hverf­is­lega en ekki síður efna­hags­lega. Mér vit­an­lega er Svíþjóð eina landið sem hef­ur sett fram sam­bæri­legt mark­mið. Þetta er því mark­mið á heims­mæli­kv­arða og nú velt­ur það á okk­ur að fylgja því eft­ir. Við eig­um raun­hæfa mögu­leika á að verða al­gjör­lega orku­sjálf­stæð, sem væri stór­kost­legt bæði í efna­hags­legu og um­hverf­is­legu til­liti.

Hita­veitu­væðing­in var eins kon­ar „tungl­skot“ okk­ar Íslend­inga á sín­um tíma; gríðarlega metnaðarfullt verk­efni sem tók nokkra ára­tugi að fram­kvæma. Framtíðar­sýn­in um að verða óháð jarðefna­eldsneyti er okk­ar næsta tungl­skot í orku­mál­um.

Umræðan framund­an

Orku­stefn­an verður fljót­lega til umræðu á Alþingi. Við þá umræðu mun ég jafn­framt leggja fram til kynn­ing­ar aðgerðaáætl­un mína sem mark­ar fyrstu skref­in í að ná mark­miðum orku­stefn­unn­ar. Við höf­um unnið að áætl­un­inni und­an­farn­ar vik­ur og hún fel­ur í sér tugi aðgerða sem all­ar hafa skýra og beina teng­ingu við texta orku­stefn­unn­ar.

Það verður meira kast­ljós á orku­mál­in næstu daga. Fyr­ir utan umræður á Alþingi um orku­stefnu og aðgerðaáætl­un henn­ar má nefna umræðu í þing­inu á fimmtu­dag um stöðu stóriðju, fund Lands­virkj­un­ar á miðviku­dag­inn um ný tæki­færi í orku­mál­um og fund Samorku í byrj­un næsta mánaðar um græna end­ur­reisn.

Þó að nýt­ing grænna orku­auðlinda Íslands feli í sér mörg erfið deilu­efni er líka margt sem við get­um sam­ein­ast um. Við höf­um á kjör­tíma­bil­inu lagt mikla áherslu á að ná ár­angri á þeim sviðum – eins og ég fór yfir hér að fram­an – í stað þess að ein­blína á skot­graf­irn­ar og sitja föst þar á meðan önn­ur fram­fara­mál sitja á hak­an­um. Ég bind von­ir við að umræðan næstu daga muni draga fram enn fleiri mark­mið og verk­efni í orku­mál­um sem við get­um sam­ein­ast um.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðins 24. janúar 2021.