Vannýtt tækifæri

Egill Þór Jónsson borgarfulltrúi:

Sveit­ar­fé­lög sinna ýms­um verk­efn­um og leggja sitt af mörk­um við að tryggja sem bestu þjón­ust­una. Um þetta rík­ir ákveðin sam­fé­lags­sátt­máli: Borg­ar­bú­ar greiða út­svar og þiggja í staðinn ýmsa þjón­ustu frá sveit­ar­fé­lag­inu. Fyr­ir borg­ar­búa skipt­ir fyrst og fremst máli að þjón­ust­an sé öfl­ug og biðin eft­ir henni sé stutt, burt­séð frá því hver inn­ir hana af hendi.

Póli­tísk­ar stefn­ur setja mark sitt á þau verk­efni sem meiri­hluta­vald­haf­ar standa frammi fyr­ir. Einn grund­vall­armun­ur á póli­tísk­um stefn­um er ólík sýn á rekstr­ar­form þjón­ust­unn­ar. Rekstr­ar­formi þjón­ustu er gjarn­an stillt upp á móti hvoru öðru í umræðunni: Einkafram­takið gegn hinu op­in­bera. Oft fest­ist umræðan í skot­gröf­un­um, þ.e. þess­um gagn­stæðu pól­um, og minni tími fer í að ræða lausn­ir á vanda­mál­un­um, sem oft­ar en ekki eru fólg­in í biðlist­um.

Biðlist­ar frek­ar en lausn­ir

Þegar litið er til marg­vís­legr­ar þjón­ustu borg­ar­inn­ar með gagn­rýn­um aug­um má fljótt sjá hvar tæki­fær­in liggja og úr­bóta er þörf. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur ít­rekað lagt fram til­lög­ur um að fé fylgi barni í grunn- og leik­skóla, óháð rekstr­ar­formi þjón­ust­unn­ar. Til­lög­urn­ar hafa all­ar verið felld­ar. Auk þess hafa til­lög­ur um hækk­un niður­greiðslna til dag­for­eldra vegna barna 18 mánaða og eldri ít­rekað verið lagðar fram, en felld­ar. Sú til­laga miðast að því að kostnaður for­eldra sem hafa börn í dag­vist­un hjá dag­for­eldi og þeirra sem hafa hlotn­ast pláss í leik­skól­um borg­ar­inn­ar sé á pari.

Til­valið væri að nýta einkafram­takið bet­ur við skólaþjón­ustu borg­ar­inn­ar. Í nú­ver­andi leik­skóla­kerfi eru biðlist­ar þekkt vanda­mál. Í stað þess að hlusta á rétt­mæta gagn­rýni og til­lög­ur að lang­tíma­lausn­um og horf­ast í augu við vanda­málið er það póli­tísk ákvörðun sitj­andi meiri­hluta að hlusta ekki. Með því er aukn­um sveigj­an­leika í þjón­ustu Reykja­vík­ur­borg­ar hafnað og þar af leiðandi skerðist val­frelsi borg­ar­búa um þjón­ustu borg­ar­inn­ar. Fjöl­marg­ir for­eldr­ar, sem sjá ekki fram á að fá leik­skóla­pláss fyr­ir börn­in sín fyr­ir tveggja ára ald­ur, eiga erfitt með að samþykkja þessa póli­tík.

Vannýtt tæki­færi í vel­ferðarþjón­ustu

Biðlist­ar eft­ir vel­ferðarþjón­ustu og stoðþjón­ustu borg­ar­inn­ar eru víðast hvar mjög lang­ir. Ótal tæki­færi eru fólg­in í því að út­vista ein­hverj­um af þeim verk­efn­um sem borg­in sinn­ir. Það gæti dregið úr álagi á þjón­ustu­stofn­un­um borg­ar­inn­ar og á sama tíma aukið þjón­ustu við borg­ar­búa. Hug­mynd­in um að fé fylgi þjón­ustuþega ætti að opna á mögu­leika einkafram­taks­ins í þjón­ustu við borg­ar­búa með góðum ár­angri og bættri þjón­ustu.

Und­ir­ritaður lagði fram til­lögu í vel­ferðarráði í vik­unni sem lýt­ur að því að skoða þá mögu­leika sem í boði eru til út­vist­un­ar á þjón­ust­unni. Til­lag­an er lögð fram með það að mark­miði að stytta biðlista, bæta og auka skil­virkni í þjón­ustu og hugs­an­lega auka hag­kvæmni í rekstri vel­ferðarsviðs. Sé mark­miðið að setja borg­ar­búa í fyrsta sæti um­fram annað er erfitt að sjá slíka til­lögu fellda af meiri­hlut­an­um í borg­ar­stjórn.

Fyr­ir borg­ar­búa sem greiða út­svar sitt til sveit­ar­fé­lags­ins skipt­ir fyrst og fremst máli að veitt þjón­usta sé öfl­ug og biðin eft­ir henni stutt. Þess vegna er nauðsyn­legt að borg­in opni augu sín fyr­ir aðilum á einka­markaði svo unnt sé að grynnka á biðlist­un­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. janúar 2021.