Ekki riðið sérlega feitum hesti

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Ég ætla að full­yrða eft­ir­far­andi (og vona að staðhæf­ing­in sé rétt): Eng­inn sitj­andi þingmaður tæki það í mál að ríkið keypti banka fyr­ir 150 millj­arða eða jafn­vel meira. Þetta er svipuð fjár­hæð og það kost­ar að reka alla heilsu­gæslu á land­inu í fimm ár eða reka öll hjúkr­un­ar- og dval­ar­rými í tæp þrjú ár. Enn frá­leit­ara er að þing­menn sam­ein­ist um að kaupa tvo banka og verja til þess 350 millj­örðum króna. Sú fjár­hæð jafn­gild­ir þriggja ára fram­lagi rík­is­ins til sjúkra­húsa.

Með of­an­greinda full­yrðingu í huga vek­ur það nokkra furðu, svo ekki sé meira sagt, að ein­hverj­ir hafi eitt­hvað við það að at­huga að losað verði um eign­ar­hald rík­is­ins á hluta­bréf­um í Íslands­banka og bréf­in skráð.

Eng­in rík­is­stjórn hef­ur haft það á stefnu­skrá að ríkið sé alltumlykj­andi á ís­lensk­um fjár­mála­markaði og bindi hundruð millj­arða króna í áhættu­söm­um rekstri. Ágrein­ing­ur­inn er um hvort nauðsyn­legt sé að ríkið haldi á ráðandi hlut í ein­um viðskipta­banka eða ekki. Meira að segja vinstri rík­is­stjórn Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur hafði þá skýru stefnu að selja all­an eign­ar­hlut rík­is­ins í Íslands­banka og hluta í Lands­banka, þótt ríkið ætti að eiga góðan meiri­hluta í síðar­nefnda bank­an­um. Þá var hlut­deild rík­is­ins á fjár­mála­markaði mun minni en nú er. Ríkið átti 81% hluta­fjár í Lands­bank­an­um og 5% í Íslands­banka, auk 13% hlut­ar í Ari­on banka.

Ramm­inn frá 2012

Skömmu fyr­ir jól féllst Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra á til­lögu Banka­sýslu rík­is­ins um sölu á hlut­um í Íslands­banka í al­mennu útboði og að skrá öll hluta­bréf í bank­an­um í kjöl­farið á skipu­leg­an verðbréfa­markað á Íslandi. Ráðherra hef­ur þegar sent fjár­laga­nefnd og efna­hags- og viðskipta­nefnd Alþing­is grein­ar­gerð vegna söl­unn­ar og óskað um­sagna nefnd­anna en auk þess hef­ur Seðlabank­inn fengið sama er­indi. Allt er þetta í sam­ræmi við ákvæði laga sem samþykkt voru á Alþingi árið 2012, að frum­kvæði þáver­andi rík­is­stjórn­ar og fjár­málaráðherra, Odd­nýj­ar Harðardótt­ur.

Í grein­ar­gerð með frum­varp­inu sem síðar varð að lög­um um sölu á eign­ar­hlut­um rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um (nr. 155/​2012) er bent á að eign­ar­hald rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um sé ekki vegna mark­vissr­ar stefnu um að „auka um­svif rík­is­ins á fjár­mála­markaði held­ur er um að ræða af­leiðing­ar og viðbrögð við hruni fjár­mála­kerf­is­ins“. Þá seg­ir orðrétt:

„Með vís­an til þessa eru ekki tald­ar for­send­ur til þess að ríkið verði lang­tíma­eig­andi eign­ar­hluta í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um held­ur losi um þá með sölu, að und­an­skild­um skil­greind­um lág­marks­hlut í Lands­bank­an­um hf. sem nú er í meiri­hluta­eigu rík­is­ins. Lagt er til með frum­varp­inu að sett verði al­menn lög um sölu eign­ar­hluta rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um sem inni­haldi fast­mótaðan ramma utan um það hvernig sölumeðferð eign­ar­hlut­anna skuli háttað, í stað þess að sótt sé sér­stök laga­heim­ild í fjár­lög­um fyr­ir sölu á hverj­um og ein­um eign­ar­hlut.“

Í lang­tíma­áætl­un rík­is­stjórn­ar Sam­fylk­ing­ar og VG í rík­is­fjár­mál­um 2012 til 2015 komu fram „áform um um­tals­verða tekju­öfl­un af sölu rík­is­ins á eign­ar­hlut­um í fé­lög­um og fyr­ir­tækj­um, einkum sölu rík­is­ins á eign­ar­hlut­um í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um“.

Grunn­ur að sterkri stöðu

Það var hins veg­ar rík­is­stjórn Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar­flokks und­ir for­sæti Sig­mund­ar Davíðs Gunn­laugs­son­ar, sem tryggði með stöðug­leika­samn­ing­um við kröfu­hafa föllnu bank­anna að Lands­banki og Íslands­banki komust að fullu í eigu rík­is­sjóðs. Allt frá þeim tíma, líkt og í vinstri stjórn­inni, hef­ur verið litið svo á að ríkið ætti ekki að vera lang­tíma­eig­andi banka (a.m.k. ekki meiri­hluta­eig­andi). Með því að losa um eign­ar­hald rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um er í raun verið að inn­leysa hluta af stöðug­leikafram­lög­um sem lögðu grunn­inn að sterkri fjár­hags­stöðu rík­is­sjóðs sem aft­ur reynd­ist for­senda þess að hægt hef­ur verið að tak­ast á við efna­hags­lega erfiðleika vegna kór­ónu­veirunn­ar.

Skamm­líf sam­steypu­stjórn Sjálf­stæðis­flokks­ins, Viðreisn­ar og Bjartr­ar framtíðar tók fram í stjórn­arsátt­mála að til langs tíma litið sé ekki „ákjós­an­legt að ríkið fari með meiri­hluta­eign í viðskipta­bönk­um“. Þess vegna sé mik­il­vægt að minnka hlut rík­is­ins „í var­færn­um skref­um og víðtækri sátt“. Áhersl­an var á „opið og gagn­sætt ferli þar sem gætt verður að sem mestri dreif­ingu eign­ar­halds“. Og gef­in voru fyr­ir­heit um al­menn­ingsvæðingu banka­kerf­is­ins. Þetta var m.a. í sam­ræmi við hug­mynd sem Bjarni Bene­dikts­son setti fram í ræðu á lands­fundi Sjálf­stæðis­flokks­ins árið 2015.

Í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur er sleg­inn svipaður tónn:

„Eign­ar­hald rík­is­ins á fjár­mála­fyr­ir­tækj­um er það um­fangs­mesta í Evr­ópu og vill rík­is­stjórn­in leita leiða til að draga úr því. Ljóst er þó að rík­is­sjóður verður leiðandi fjár­fest­ir í að minnsta kosti einni kerf­is­lega mik­il­vægri fjár­mála­stofn­un.“

Hvít­bók um framtíðar­sýn fyr­ir fjár­mála­kerfið á Íslandi var boðuð og skyldi hún lögð fyr­ir Alþingi til um­fjöll­un­ar áður en stefnu­mark­andi ákv­arðanir væru tekn­ar um fjár­mála­kerfið. Við þetta var staðið og fóru fram ít­ar­leg­ar umræður í þingsal í janú­ar 2019 auk um­fjöll­un­ar í þing­nefnd. Bjarni Bene­dikts­son sagði af því til­efni:

„Um­gjörð um sölu er lög­bund­in og að auki skal sal­an sam­rýmast eig­enda­stefn­unni. Þannig er skýrt hvaða meg­in­regl­ur skal halda í heiðri við und­ir­bún­ing og sölu, en þær eru: Opið sölu­ferli, gagn­sæi, hlut­lægni og hag­kvæmni. Þetta eru þau leiðarljós sem ber að fylgja þegar kem­ur að því að losa um eign­ar­hluti rík­is­ins í bönk­un­um.“

Ekki riðið feit­um hesti

Ekki er um það deilt að um­svif rík­is­ins á ís­lensk­um fjár­mála­markaði eru gríðarleg, meiri en í öll­um lönd­um sem við ber­um okk­ur gjarn­an sam­an við. Það er aðeins í Rússlandi, Kína, Norður-Kór­eu, ríkj­um í Norður-Afr­íku og Suður-Am­er­íku sem fyr­ir­ferð hins op­in­bera á fjár­mála­markaði er svipuð eða meiri en hér á landi

Í lok þriðja árs­fjórðungs liðins árs var bók­fært eigið fé Íslands­banka og Lands­banka 431 millj­arður og ætla má að virði eign­ar rík­is­ins sé um 340 millj­arðar. Með öðrum orðum; það eru bundn­ir sam­eig­in­leg­ir fjár­mun­ir lands­manna í tveim­ur fjár­mála­fyr­ir­tækj­um sem nema að minnsta kosti 12% af áætlaðri vergri lands­fram­leiðslu á síðasta ári. Þessu til viðbót­ar höf­um við bundið tugi millj­arða í lána­sjóðum, þar á meðal Íbúðalána­sjóði (nú Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un). Tap rík­is­ins af starf­semi Íbúðalána­sjóðs á síðustu tíu árum slag­ar upp í verðmæti bank­anna tveggja.

Stöðug­leika­sam­komu­lag við kröfu­hafa, sem færði banka að fullu í eigu rík­is­ins, var hval­reki. En utan hans hef­ur ríkið ekki riðið sér­lega feit­um hesti með eign­ar­haldi sínu og þátt­töku í áhættu­söm­um rekstri fjár­mála­fyr­ir­tækja og lána­sjóða, ólíkt því sem marg­ir halda fram. Skipt­ir engu hvort litið er til síðasta ára­tug­ar eða lengra aft­ur í tím­ann. Þá er fórn­ar­kostnaður­inn við að binda hundruð millj­arða í fjár­mála­kerf­inu ekki meðtal­inn, eða hvaða nei­kvæðu áhrif eign­ar­hald rík­is­ins að stærst­um hluta fjár­mála­kerf­is­ins hef­ur á sam­keppni.

Áætl­un um að selja hluta af eign rík­is­ins í Íslands­banka í al­mennu útboði og skrá hluta­bréf­in á markað, er var­fær­in. Á sama tíma og rík­is­sjóður safn­ar skuld­um er skyn­sam­legt að losa um eign­ir, ekki síst þær sem ríkið hef­ur aldrei ætlað að eiga til lengri tíma. Í um­hverfi lágra vaxta er það einnig skyn­sam­legt að bjóða eign­ir til sölu. Fjár­fest­ar – ekki síst líf­eyr­is­sjóðir – þurfa á fleiri kost­um að halda til að ávaxta fjár­muni. En eins og með skatta­lækk­an­ir þá eru þeir til sem aldrei telja að tím­inn sé rétt­ur til að hrinda góðum hug­mynd­um í fram­kvæmd. Þeir segj­ast ekki mót­falln­ir hug­mynd­inni sem slíkri, en aðstæður eru bara ekki rétt­ar, tím­inn ekki rétt­ur eða aðferðafræðin (jafn­vel þeirra eig­in) röng.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. janúar 2021.