Áhlaupið rann út í sandinn

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Áhlaupið á þing­húsið í Washingt­on að áeggj­an Don­alds Trumps minn­ir okk­ur á þau fornu sann­indi að vald spill­ir og al­gert vald gjör­spill­ir. Með þeim orðum vísaði Act­on lá­v­arður til þess að of mik­il völd á hendi eins leiðtoga hefðu til­hneig­ingu til þess að slæva siðferðis­vit­und hans þannig að hann gæti ekki leng­ur greint rétt frá röngu. Eig­in­hags­mun­ir ná yf­ir­hönd­inni.

Þegar for­seti Banda­ríkj­anna sætt­ir sig ekki við úr­slit kosn­inga, reyn­ir allt hvað hann get­ur til að hnekkja þeim og efn­ir til fjölda­funda og óeirða í því skyni, þá er ekki aðeins illt í efni fyr­ir lýðræðið í Vest­ur­heimi held­ur í öll­um vest­ræn­um ríkj­um. Sem bet­ur fer rann áhlaupið út í sand­inn. Banda­ríska þingið gat á end­an­um sinnt þeirri lýðræðis­legu skyldu sinni að staðfesta rétt­mæt úr­slit kosn­inga. Að öllu óbreyttu fara for­seta­skipti fram hinn 20. janú­ar.

Banda­rík­in hafa lengi verið í for­ystu lýðræðis­ríkja. Þau hafa birst okk­ur sem boðberi laga og rétt­ar í alþjóðleg­um sam­skipt­um. Vissu­lega eru dæmi um ósigra en hæst standa þó dæm­in um glæsta sigra í þeirri sögu. Til að mynda í heims­styrj­öld­um síðustu ald­ar og eft­ir­mál­um þeirra þegar lýðræðis­rík­in höfðu bet­ur í bar­átt­unni gegn alræðisöfl­um komm­ún­ism­ans og nas­ism­ans í Evr­ópu. Alþjóðlegt viðskipta­kerfi, Sam­einuðu þjóðirn­ar og aðrar alþjóðleg­ar stofn­an­ir eru að stór­um hluta verk Banda­ríkja­manna. Nefna má Atlants­hafs­banda­lagið sem tryggt hef­ur frið og ör­yggi í okk­ar heims­hluta í rúm sjö­tíu ár.

Áhlaupið á þing­húsið var sorg­leg­ur at­b­urður í sögu Banda­ríkj­anna. Vin­ir og banda­menn um all­an heim hafa áhyggj­ur af af­leiðing­un­um fyr­ir stöðu lýðræðis og sjón­ar­mið rétt­ar­rík­is­ins. Alræðis­rík­in sækja á og benda á þenn­an at­b­urð í áróðurs­stríði sínu gegn lýðræði, frelsi og mann­rétt­ind­um. Und­an­far­in fjög­ur ár hafa mark­ast af sundr­ungu og ill­deil­um þar sem orðræðan hef­ur ein­kennst af of­stæki og full­komnu hatri. Af­leiðing­arn­ar blasa við. Þessu verður að linna. Þar eru und­ir ekki aðeins hags­mun­ir Banda­ríkj­anna held­ur allra lýðræðis­ríkja. Leiðtog­ar beggja flokka í banda­rísk­um stjórn­mál­um þurfa að slíðra sverðin og vinna sam­an að því að sam­eina þjóðina.

Okk­ur Íslend­ing­um ber einnig að læra af þess­um at­b­urði. Verðum við ekki að vanda orðræðuna bet­ur? Orð geta verið dýr eins og við blas­ir í Banda­ríkj­un­um, en þau mega ekki kosta okk­ur það þjóðfé­lag sem við höf­um byggt upp á grund­velli lýðræðis, mann­rétt­inda, laga og rétt­ar. Við get­um deilt um hlut­verk rík­is­ins, skatta, at­vinnu­mál og önn­ur mál sem snúa að dag­legu lífi borg­ar­anna. Við get­um áfram tek­ist á um ólík­ar hug­mynd­ir um bætt þjóðfé­lag. Slíkt verður best gert með sann­gjörn­um og mál­efna­leg­um hætti en aldrei með upp­hróp­un­um og dylgj­um, hvorki í Banda­ríkj­un­um né á Íslandi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. janúar 2021.